22 Jump Street

Óhuggulega oft hefur fólk þurft að sætta sig við það að þegar grínmyndir stórgræða þá kaffærist metnaðurinn í lötum endurtekningum þegar kemur að óhjákvæmilega framhaldinu. Ástandið á þessu er á venjulegum basis svo slæmt að maður tekur þessu sem kasúal hefð.

22 Jump Street er framhaldsmynd sem þurfti fyrirfram að glíma við það erfiða verkefni að toppa meinfyndinn forvera en heilt yfir stenst hún allar væntingar, kannski sérstaklega í gegnum þessa dásamlegu meta-meðvitund sem hún hefur um allar helstu klisju- og formúlugryfjur og fær hún að leika sér með þær á hreint æðislegan hátt.

Þegar sú fyrri kom út duttu leikstjórasnillingarnir Phil Lord og Chris Miller (aftur) í feitan lukkupott og settu stanslaust sprell og orku í hugmynd sem ekki margir höfðu trú á. Hæfileikar þessara yndislegu nörda styrkjast bara og styrkjast með hverju djobbi, og eru enn með Legómyndina í toppspottinu hingað til hvað þær fyndnustu á árinu varða. Fyrri Jump Street myndin dældi næstum því úr mér hlanddropum af hlátri, 22 er ekki alveg eins fyndin að mínu mati (og nær s.s. heldur ekki alveg Legó-hæðunum), sökum þess að oft eru rólegri sprettir og eru vissir djókar sem bara slá ekki alveg á réttu strengina – kannski gæti það eitthvað haft með það að gera að dúóið skrifaði ekki þessa.

En!… 22 er hins vegar betri myndin af tvennunni, og hvað hnyttni, sál og eðalgóða krufningu á þekktum geira-uppskriftum varðar er þessi enn nær því að vera ameríska svarið við Hot Fuzz heldur en sú fyrri var. Hún stígur svoleiðis beint og langt út fyrir mörk þess að vera bara venjuleg, fjöldaframleidd grínafþreying.

maxresdefault

Þegar 22 Jump Street hittir í mark er hún alveg brill. Margir kaflar eru viðbjóðslega fyndnir, súrir, grillaðir, aðrir kannski sæmilega fínir en það sem mest gerir það erfitt að þurrka aulalega glottið er hversu snilldarlega sjálfmeðvitað handritið er og hvernig leikararnir fylla upp í þessa „rólegu“ spotta með alvörugefnu en þó alltaf flippuðu hjarta. Ég elska hvernig myndin kemst upp með það að falla í ákveðnar endurtekningar á gömlum bröndurum en með oft drepfyndnum útúrsnúningum á þeim. Það eru merkilega þroskaðir, snjallir og trúverðugir undirtónar hjá tvíeykinu sem verður svo enn ótrúlega þegar aldrei er stýrt of langt frá djóki sem óbeint mölvar fjórða vegginn. Verður líka að segjast að kreditlistinn í lokin er með þeim betri í allri skrattans kvikmyndasögunni, svo frábær að hann er einn og sér meira virði heldur en megnið af grínmyndunum síðustu ára.

Sú tíð þar sem maður efaðist um að Channing Tatum gæti meira en að dansa og buffa sig upp eru löngu horfnir, og tveimur Óskarstilefningum síðar tókst Jonah Hill því kraftaverki að verða að einhverju miklu meiru heldur en perralegum aukaleikara – þeim sem ég persónulega kynntist fyrst í Grandma’s Boy. Drengirnir hafa komið vægast sagt langa leið og komust fljótt í hóp betri tvíeykja allra amerískra gamanmynda, og undirstrika orðin bara meira hér. Kemur það ekki bara útaf drepfyndna (spuna?)sampilinu heldur bara hversu vel þeim tekst að fá mann til að vera svona ógeðslega annt um þá. Reyndar finnst mér dapurlega furðulegt að ekki sé einu sinni kommentað á það að Brie Larson vanti, þegar hún skipti hinni myndinni svo miklu máli. Kannski er það partur af gríninu? Þó „staðgengillinn“ eigi ekki séns í hana er hennar persónuna undirstaða albesta atviksins í allri myndinni. Þar að auki, því reiðari sem Ice Cube fær að vera, því betra.

Ice Cube;Jonah Hill;Channing Tatum

Myndir af þessari týpu þurfa oftast ekki að gera meira en að halda manni í góðu skapi, og það að þessi tiltekna gæðaþvæla hafi raunverulega eitthvað að segja um vinasambönd, formúlur og annað er brjálaður bónus sem eykur alla ánægju og breikkar markhópinn þannig að sem flestir fá að vera memm í fjörinu. 22 Jump Street er kannski ekki fyndnasta mynd ársins, en með hressari, skemmtilegri og betri framhaldsmyndum án efa. Það hversu vel henni tekst að reka miðfingurinn sinn fast ofan í megnið af framhaldstýpum – sem hafa gert hlutina vitlaust með hugmyndaleysi sínu – hækkar allan standard og ætti að fá t.d. myndir eins og Anchorman 2, Hangover II ( númer þrjú má alveg fylgja með) og (vænti ég) Dumb & Dumber To til að líta verr út en þær gera nú þegar.

atta

Besta senan:
Þegar Tatum byrjar að leggja saman tvo og tvo, og auglýsir það. Segi ekki meir.

Sammála/ósammála?