Boyhood

Aldrei verður nú hægt að segja að leikstjórinn Richard Linklater vaði ekki í vinnugrein sína af gríðarlegri ástríðu og vissri nákvæmni, vegna þess að með nálguninni einni, þolinmæðina að vopni sem og þessa sannleiksríku og heillandi hversdagsrödd sem einkennir hann á góðum degi, hefur honum tekist að segja nokkuð staðlaða og einfalda þroska- og uppvaxtarsögu með allt annað en hefðbundnum hætti.

Tólf ár er enginn smátími til þess að verja í eina kvikmynd en dag einn fékk Linklater þá mögnuðu hugmynd að segja sögu um uppeldi barna, foreldratengsl og mikilvægi þess að ‘lifa í mómentinu’ (áður en tíminn reynir að rífa það frá okkur), allt frá sjónarhorni ungs drengs. Kryddið mikla fólst í því að skjóta myndina í þrepum, einu sinni á ári og alltaf með sömu leikurum, og þá með sama drengnum í burðarrullunni. Spannar þá aldur hans frá 6 til 18 ára og áhorfandinn fylgist bókstaflega með tímanum líða stöðugt hjá í nálægt þrjá klukkutíma. Og allt þetta eru geysilega gefandi þrír tímar.

boyhood03

Boyhood er löng mynd (og alveg má finna fyrir lengdinni á pörtum), róleg, og gerist þannig séð ekki neitt mikið í henni, þrátt fyrir að heill hellingur sé að baki í smáum skömmtum þegar henni lýkur og langvarandi áhrif hennar eru svakaleg. Allir sem þekkja til leikstjórans og kunna að meta hann vita meira eða minna hvernig hann matreiðir svona efni og svipar þetta að mörgu leyti til Before-trílógíunnar hans (ef hún væri öll þjöppuð niður í eina mynd!) – sem er að mínu mati besti litli þríleikur allra tíma. Annað sem kemst í líkingu við þennan furðulega symplíska en tæknilega séð epíska frásagnarmetnað er Up-heimildarserían frá Michael Apted, líka bara hvað bera, manneskjulega stúderingu varðar, en það sem Linklater hefur greinilega ætlað sér er að fanga ákveðna ‘aspekta’ úr daglega lífinu beint í flösku, eitthvað sem gat ekki heppnast betur.

Gildrurnar sem svona fordæmislaus bíótilraun hefði getað lent í voru nokkrar. Heildarsagan hefði auðveldlega getað virst vera tættari, þ.e.a.s. með sýnilegri merki um sundurlaus kaflahopp. Tökustíllinn hefði getað dottið úr samræmi, aðalleikarinn hefði þar að auki getað vaxið upp í hálfgerðan viðbjóð með nákvæmlega ekkert hversdagslegt karisma. En allt þetta eru þættir sem Linklater hefur gætt sín á – enda ekki eins og hann hefði ekki nægan tíma til að plana sín næstu skref (þó svo að hann gerði hvorki meira né minna en 10 myndir á þessu tímabili sem tökur á Boyhood hófust og þangað til þeim lauk, þar á meðal Before Sunset, Midnight, A Scanner Darkly, School of Rock, Bernie o.fl.).

Linklater hittir á alla helstu naglana eins og hann hefði allt eins getað gert það blindandi; myndin flæðir öll sem ein, skipulögð heild – ef metin er sem samansafn mómenta í stað atburða – og heppnin lá mikið með aðalleikaranum og heildarhópnum. Það sem virkar samt e.t.v. best liggur í náttúrulegum samræðum og heilt yfir grípandi framsetningu sem ljómar af svo mikilli sál. Myndin er laus við alla tilgerð, væmni og þessa hefðbundu „bíótöfra“, og til hins betra í tilfelli Linklaters. Það er hvorki ein sena né augnablik sem ekki mun grafa sig djúpt inn í meðvitund (eða undirmeðvitund) einhvers sem horfir á hana, jafnvel sækja alls konar pósitíft og neikvætt úr minningabankanum. Before-myndirnar gerðu þetta líka, en með öðruvísi sniði. Boyhood er ekkert síður mikilvægari og hefur hrifsað til sín titilinn sem merkilegasta mynd leikstjórans til þessa.

boyhood_a

Öll myndin er eins og lifandi minningasafn, og brotin þannig upp. Upplifunin að fylgjast með hinum (ekki lengur) óþekkta Ellar Coltrane undir nafninu Mason eldast úr dreng í ungan, sjálfráða mann á 160(+) mínútum er algjörlega engu lík. Við fáum að kynnast Mason út frá helstu hliðum og sjáum hvernig umhverfi hans og foreldrar móta hann og aðra í kringum sig. Coltrane höndlar sig glæsilega út öll skeið, líklega að því leyti að það virðist sem hann sé ekkert að leika mikið. Hann er bara þarna, og það er meint sem jákvæður hlutur; aldrei pirrandi eða svo þurr að hann falli í gleymsku. Áhorfandinn gerist fluga á vegg hjá fólki sem upplifir alls konar hluti sem gerast ekki sjálfsagðari eða eðlilegri, hvort sem það er kærustumissir, skilnaður, drykkjuvandi, ístöðuleysi, keila, útileiga, hangs á veitingastað, Harry Potter-biðröð … hringurinn er nokkuð ítarlega dekkaður á þessum mikla tíma. Tónlistin sér einnig skemmtilega um að innsigla hvaða „períódu“ við erum stödd í, reyndar bara alflestar vísanir í popp-kúltúr, pólitík jafnvel.

Samhliða Coltrane sjáum við Lorelei Linklater, m.ö.o. leikstjóradóttur, eldast úr lítilli stúlku í soddan dömu. Hún ber sig með ákveðnu öryggi, og nægu af því en Ethan Hawke og Patricia Arquette eiga mikið kredit skilið fyrir sína þátttöku auk traustsins til leikstjórans sem greinilega borgaði sig, og Hawke mun næstu árin græja í sína átt mikla öfundsýki fyrir að eldast betur á tólf árum en margir jafnaldrar hans. Bæði tvö eru ótrúlega góð en Arquette er sú sem ætti skilið að lágmarki Óskarsilnefningu fyrir túlkunina á móðurinni sem stendur sífellt í ströngu á meðan Hawke brettir upp á kammó-ermarnar í hlutverki ‘skemmtilega’ pabbans í hálfu starfi. Það er meira en auðvelt að tengja sig við þetta lið.

original1

Hefði myndin farið hefðbundnu leiðina og skipt út reglulega aðalleikaranum hefði handritið og þemun mögulega haldið henni saman en beina tengingin sem maður heldur við Mason hefði rofnað í tímastökkinu. En vegna þess að myndin rúllar eins og ein heild þá verður grunnnálgunin bara eins og hvert annað kvikmyndagerðartól í stað þess að vera ‘gimmick’. Það segir sig síðan sjálft að myndin eigi alls ekki eftir að töfra hvaða áhorfanda sem er og auðvelt er að líta á hana sem stefnulausa setu, ekki síður ef maður sækist oftar en ekki í sprengingar og hraða. Boyhood er kannski ekki skemmtilegasta myndin sem hægt er að sjá frá þessu ári en klárlega er þetta lagskipt og grípandi perla sem á það verulega skilið að láta sífellt uppgötva sig um næstu áraraðir.

Þetta er masterklassa-kvikmyndagerð, með litlu flassi en hittir á mannlegu nóturnar með ótrúlegasta máta, á svo einlægu, aðdáunarverðu en lágstemmdu stigi; fullkomlega ljúf, oft fyndin, ljúfsár, sorgleg, endalaust persónuleg, breið í nálgun, sannfærandi, uppfull af smáatriðum og heldur manni við efnið í þessum náttúrulega, blómstrandi einfaldleika sínum. Hún drollar pínu, en engu að síður stórmerkileg og ógleymanleg ómerkilegheit, ef þannig má orða það.

fichtBesta senan:
Hawke og Arquette sjá um hana.

Sammála/ósammála?