Jodorowsky’s Dune

Margt og mikið má segja um listamanninn Alejandro Jodorowsky: súrt, gott, slæmt og allt þar sem laumar sér á milli, en aldrei verður það tekið frá honum að hann er einstaklega áhugaverður og opinn náungi.

Rödd hans rómar í dag alls staðar í kvikmyndagerð og hefur gert það í áratugaraðir, og ekki bara með költ-myndum eins og Fando y Lis, El Topo og The Holy Mountain. Allt þetta eru myndir sem þarf eiginlega að sjá í heild sinni til að trúa, ekki endilega á góðan hátt, en mikið óskaplega hefur maðurinn sett sér skýr og sérkennileg markmið.

jodorowsky-dune-600x470

Jodorowsky’s Dune er ábyggilega mín uppáhalds heimildarmynd í alnokkur ár. Ég get persónulega ekki með neinu móti trúað því að manneskja sem er mikið í kvikmyndum eða kvikmyndagerð hafi ekki viðbjóðslega gaman af henni, því fyrir alla sem falla undir þá lýsingu er hún gargandi skylduáhorf. Á það við hvort sem maður hefur ekki hugmynd um hver Jodorowsky er eða hvað gerðist í kringum þessa ofurútpældu sci-fi epík hans sem aldrei var gerð, en þó næstum því.

Hvað hefði eiginlega ræst þarna úr öllum geiranum ef þessi mega-metnaðarfulla en (hvað skal segja…?) ‘frjálsa’ aðlögun á hinni virtu fantasíuskáldsögu Dune e. Frank Herbert yrði sú fyrsta í mark í kvikmyndasögunni, en ekki Star Wars? Hvernig tókst einum hálfgeðveikum snillingi að marka endalaust spor sín í kvikmyndasögunni með einu óséðu „meistaraverki?“

Þessu og milljón öðru er svarað í þessari vel skipulögðu, lúmskt þýðingarmikilu og vægast sagt bráðfyndnu yfirlitsmynd. Mest allt hefur með það að gera hversu athyglisverður og einstakur Jodorowsky er og hve stórir draumar hans voru, hann með sinn óstöðvandi metnað, listræna auga, og sannfæringarkrafta. Hegðun hans jaðaði margoft klikkun, en myndin segir sjálf að alvöru meistarastykkin verða sjaldan til án hennar. Er nokkur að fara að mótmæla því?

jodorowsky-dune-1-600x424Það eru óteljandi baksviðsinnlit sem væri gaman að sjá svona prýðilega pakkað saman í góða heimildarmynd en Jodorowsky og þessi tiltekna saga hans skarar eitthvað þarna aðeins fram úr. Einnig er auðvelt fyrir hörðustu bíónöttara að tengja sig við fílósófíur hans um gildi og mikilvægi kvikmyndamiðilsins, hjarta hans, sál og tjáningargetu.

Heiðarleiki mannsins opnar einnig fyrir alveg kúfullt magn af stórkostlegum setningum frá honum sem verður lengi hægt að kvóta í. Til dæmis, í tengslum við það hvernig hann tætti sígildu Dune-bókina í sig – sem hann hafði ekki einu sinni lesið áður en hann lét vaða í verkefnið – og breytti gjörsamlega endi, merkingu og atburðarás hennar, viðurkennir Jodo beint að hann hafi verið að „nauðga“ Frank Herbert, „…en af umhyggju.“

Með fylgir síðan stutt en dýnamísk endursögn á endurlitinu þegar Jodo gerðist svo djarfur að leggja í hina margslátruðu Dune-útgáfu sem David Lynch reyndi að halda utan um. Kannski sér maður þá mynd í öðruvísi ljósi eftir heimildarmyndina, en allar þær tilraunir sem ég hef lagt í þá mynd í gegnum árin hafa aldrei verið ofurjákvæðar. En hvernig hefðu áhorfendur svosem tekið í Jodorowsky-frásögnina í staðinn? Það er allt annað en sjálfsagður hlutur að spiritúalísk, existensíalísk (- allt á barmi ofsatilgerðar) sci-fi ræma hefði togað allan meginstrauminn til sín, en hugmyndaflugið var svoleiðis ljósárum á undan sinni samtíð að þetta hefði umhugsunarlaust orðið að einhverju sem enn yrði rætt um og stúderað í dag, á hvaða hátt sem er.

Jodorowsky var algjör andstæða við Hollywood-senuna en þegar hann var kominn með réttu strengina í bransanum er hreinlega með ólíkindum – nánast ævintýralegt – hvernig hann smalaði til sín vægast sagt skotheldu liði skapandi krafta; þekkta sem óþekkta, frá því að negla niður þátttöku Pink Floyd, Orson Wells, Salvador Dali og ýmsa aðra sem komu aldrei áður að kvikmyndagerð en áttu svo fínan feril (eins og Jean Giraud/Moebius, H.R. Giger, Dan O’Bannon og fleiri). En að kafa nokkuð nánar út í það hvernig honum tókst að fá þetta lið með sér myndi vera tilgangslaust því enginn segir sínar eigin sögur betur en gamla brýnið.

gigerAð gramsa í gegnum þessar upplýsingar um hvernig þetta allt varð til (og bæta skal við að menn eins og Nicholas Winding Refn, Richard Stanley, Gary Kurtz, Drew McWeeny og Devin Faraci bæta heilmiklu við umræðuna, og helst í þessari röð) er eins og að fylgjast með mögnuðu aukaefni á Blu-Ray disk fyrir bíómynd sem er ekki til nema í anda. Það er meiriháttar að sjá þarna allt samansafnið af býsna klikkuðu concept art-i og þó svo að valdar „senur“ úr myndinni eru sýndar og útskýrðar í gegnum storyboard-ramma, þá kemst það til skila að sumt þarna hefði gjörsamlega lamað kjálkann á þessum tíma, og e.t.v. enn í dag!

Ef það er eitthvað sem vantar upp á þá er það fókusinn á þessar óneitanlega óraunsæju væntingar Jodorowsky gerði sér þegar uppi er staðið, sérstaklega hvað snertir lengd og fjármagn og annað. Myndin fer merkilega lítið út í hlið framleiðenda og stekkur hún kannski aðeins of barnalega til varnar með aðeins þau skilaboð að bransinn hafi einfaldlega verið of hræddur við títanísku og djúpu sýn þessa manns. Vissulega var hann það, en ef það væri aðeins svo grunnt…

00001.m2ts_snapshot_01.24.17_2014.07.07_14.50.54_originalÍ samantektinni skín annars í gegn gagnlegri tilgangur hennar í hreinskilnum hvatningarskilaboðum sem pressa á það að alltaf er þess virði að reyna, sama hversu há markmiðin eru. Hefði Jodo aldrei lagt í þessa framleiðslu, og gengið svona langt með hana hefði (fyrst og fremst) Alien, Star Wars, Predator, Flash Gordon, Contact og haugur af fleiri sci-fi myndum komið allt öðruvísi út.

Draumurinn kannski splúndraðist en svo sterkur var hann að honum tókst samt sem áður að gefa vissan tón fyrir þær stefnur sem geirinn tók í gegnum söguna af honum. Að vísu verður því heldur ekki neitað að í textainnslaginu kemur myndin svolítið út eins og eðalplögg fyrir nýjustu mynd leikstjórans, The Dance of Reality. Auglýsingin virkar að sjálfsögðu, þó óþörf, og hefði mátt jafna þetta kannski snöggt með því að renna meira yfir allt sem leikstjórinn gerði eftir Dune.

Fræðslugildið er engu að síður ómetanlegt fyrir réttan aðila og afþreyingargildið meira svo. Ég gæti fylgst með Jodorowsky og þáverandi samstarfs(stríðs!)mönnum hans deila sögum sínum í fleiri klukkutíma, en þessar bröttu 90 mínútur duga bara meira en fínt.

atta

Besta senan:
Ég drapst næstum úr hlátri yfir ‘Special Marijuana’ kaflanum. Og Wells.

Sammála/ósammála?