Blended

Margir gamanleikarar hefðu eflaust látið lítið fyrir sér fara eftir alheimsniðurlægingu eins og Adam Sandler hefur mokað upp á sjálfan sig síðustu árin. Sumir hefðu líklegast gengið með bréfpoka á hausnum en á meðan þessi kjarnahópur hans tórir alltaf sem getur ekki beðið eftir nýjustu Happy Madison-snilldinni, verður það alltaf hann sjálfur sem síðast hlær.

En í bráðri tilraun til þess að halda andliti hefur Sandler dregið með sér greyið Drew Barrymore með sér í sprell til að vekja upp minningar af 50 First Dates (’04) og The Wedding Singer (’98). Ekki nóg með það heldur hefur Sandler fengið með sér leikstjóra Wedding Singer í samkomuna, annað en síðast, en sjálfsagt væri sú tilhugsun meira aðlaðandi ef sá maður hefði ekki seinast gert myndina Zookeeper.

blended1En Sandler til varnar (ó, Jesús…) þá gerir hann aftur á ný heiðarlega tilraun til að „þroskast“. Blended leggur ekki eins barnalega mikið á sig fyrir ódýrt mongó-grín, ekkert í líkingu við hvernig drengurinn lætur og þegar hann fíflast með kúk-og-piss-keisaranum Dennis Dugan (þessi sem ber ábyrgð á svona 80% af verstu myndum Sandlers… og reyndar tvær af hans betri). Blended heldur átakanlegum kjánahrolli í lágmarki. Myndin vill þar að auki sýna einlægt og krúttlegt fjölskylduhjarta og meira, en treður slíkar óskhyggjur undir margra tonna klisjuklump. Síðan er hún alltof langdregin og tekur aldrei enda þegar hún er hvorki sjarmerandi né reglulega fyndin. Hún skríður bara, og skríður, og mest allt sem persónurnar gera sér til skemmtunar þarna í Afríku er allt eitthvað sem áhorfandinn væri sjálfur til í að gera í staðinn.

Sandler og Barrymore standa langt frá kemistríunni sem þau deildu áður fyrr, en þau eru viðkunnanleg í besta falli, grettandi sig pínlega og ófyndnari en allt í því versta. Aðallega er það leikstjórinn sem skýtur frekar langt framhjá því að láta eitthvað geisla af rómantíkinni þeirra. Þetta er allt svo uppskriftarbundið eða leiðinlegt í períódum að erfitt er að vera ekki sama í flestum senum, nema þegar Terry Crews skýtur upp kollinum með endalaust smitandi brosi sínu. Aðrir grallarar eru la-la fyndnir hér og þar en djókar eða persónuleikar hvers og eins þynnast hratt út. Annars hef ég séð verri krakkaleikara í Sandler-myndum.

Blended movie (2)Má samt alls ekki gleyma því að hér er umfram allt enn ein myndin þar sem Sandler hefur ákveðið að skutlast í langt frí og gera bíómynd á meðan. Alltaf er það bein ávísun á vissa leti í efnistökunum, og gríninu, en á endanum efa ég að nokkur manneskja hlaupi í þessa mynd með miklar kröfur hvort sem er. Það hundfúla (eða góða?) er að þessi mynd er ekki nógu hálfvitaleg til að ná til þeirra sem vilja aðra Grown Ups eða Just Go With it en of hæg, teygð og leiðinleg til að heilla þá sem áður heilluðust mest af Sandler og Barrymore saman.

fjarkiBesta senan:
Trúbadorinn Crews mætir í þriðja sinn.

Hvernig er EKKI hægt að elska þennan mann í mauk??

BLENDED

Sammála/ósammála?