Chef

Annað en nafnið gefur til kynna fjallar Chef ekki beinlínis um matargerð. Eitthvað af slíku er til staðar er að mestu er hér gleðilega ódýr mynd frá Jon Favreau um samband föðurs og sonar og hvernig þeir læra að bonda á ný. Áður en of hátt sé geispað yfir þannig myglusveppaklisju er stórfína viðbótin sú að hér er í rauninni saga sem fjallar innst inni um frelsishömlun á listahæfileikum, komment á „mainstrímið“, samskiptamiðla, gagnrýnendur og hitann sem getur myndast á milli þeirra og listamannana. Mín kenning er sú að Favreau gæti enn verið svolítið fúll yfir Cowboys & Aliens dómunum.

Favreau er reyndar einn af þessum kammó gæjum sem erfitt er að fá leið á, sama þótt hann leiki leiðinlegan lurk og alveg sama í hversu mörgum myndum hann dúkkar upp í. Þessi fjöldi mynda er býsna sterkur af manni sem er aktívur leikstjóri inn á milli, framleiðandi svo og handritshöfundur lengst á milli. En Favreau hefur ekki tileinkað sér burðarhlutverk í háa herrans tíð og er því að vissu leyti þægileg tilbreyting að sjá hann snúa sér aðeins aftur að rótum sínum, svona fín pása eftir fimm stórar og brelluríkar myndir, og svo ein önnur svoleiðis væntanleg á næsta ári.

_DSC3847.NEF

Chef er gerð af svipuðu hráefni og Swingers, Made og (því miður) Couples Retreat sem allar skrifast á Favreau. Allt myndir sem byggjast að megnu til á hversdagslegum samræðum, tengingum fólks og húmor þarna til hliðar og stuðnings. Þetta eru hlutirnir sem Favreau er yfirleitt bestur í, þó hann sé ágætur en alls ekkert framúrskarandi Hollywood leikstjóri. Enn á hann það ógert að toppa Swingers handritið sitt, sömuleiðis allt símsvaraatriðið í heild sinni, en Chef er þó algjörlega hans eigin indí réttur, gæddur sjarmalegum sannleika og persónulegum neista en skilur ekkert meira eftir sig en hver annar skyndibiti, þegar mér sýnist planið sé að stefna hærra.

Að því utanskyldu hvað maturinn í römmunum getur verið déskoti girnilegur er flöt og vannærð saga sjóðandi undir, í mynd sem er afar viðkunnanleg á yfirborðinu, bara þá vegna þess að Favreau er einfaldlega nógu skemmtilegur og eðlilegur til að bera þetta uppi. Vandinn er bara að feel-good sjarminn sem Favreau reynir að fanga fer fyrr hverfandi þegar aukapersónurnar eru fæstar meira en eftirminnileg leikaraandlit og stefnurnar framundan svo feitt fyrirsjáanlegar. Það eina sem kemur á óvart í raun er hversu þéttri, glaðlegri slaufu hann bindir utan um endinn sinn, óraunhæft stórri. Það er einhvers konar merkilegt að sjá leikstjóra setja sinn feitasta deus ex machina-endi á eina af sínum smæstu myndum.

CHEF_09324_9325_COMP.JPG

En eins og harmónísku hnútahnýtingarnar séu ekki nógu vandræðalegar þá dílar handritið hvort sem er við furðulegan strúktúrgalla. Það er nánast eins og vanti meira kjöt í þetta allt, lokaþriðjunginn helst því eftir býsna skemmtilegan fyrri hluta byrjar bara hinn seinni að mjaka sér hægt og rólega út, vísandi sér sjálfri út með vonir um að allir í salnum séu skælbrosandi. Ferðin er svosem ánægjuleg, persónuleg á tíðum en langdregin.

Eins og áður nefndi er frammistaðan hans í fína lagi og Emjay Anthony, sem leikur 10 ára son hans, ber sig eins og hann viti ekki af kamerunni og er það með betra hrósum sem jafnaldrar hans geta fengið. Hann sleppur meira en vel og feðgabondið er sannfærandi, dæmigert eða ekki. Sofia Vergara er líka ágætlega fótógenísk sem móðir hans og spilar sig meira niður en vanalega, á góðan hátt, en persóna hennar gerir ekki skít út alla myndina og persónuleikinn grunnur og óáhugaverður. John Leguizamo þarf ekki að gera mikið til að sýna smá lit til að bæta við smá hressleika og er auðvelt að kunna við hann hér, eins með Robert Downey Jr. og Scarlett Johansson en þau eru í tómlegum gestahlutverkum og mega glöggir skynja að viðvera þeirra sé ekkert meira en vingjarnlegur greiði. Dustin Hoffman og Oliver Platt eru einnig ágætir en þeir eru varla persónur frekar en persónuleg útrás leiksjórans á bransatýpur í formi þeirra.

Chef hefði svo innilega orðið verri ef hún væri melódramatísk og væmin en það eru akkúrat hlutirnir sem Favreau tónar sig best niður með. Ég held samt að brennandi löngun hans til að halda sér á smáum skala gæti hafa leitt til fljótfærnistakta hjá honum, vegna þess að þeir koma flestir niður að samsetningu handritsins. Samtölin eiga til að bæta eitthvað af því upp. Fín mynd. Ekkert sérstök, en fín. Bragðgóð, en ekki góð.

fin

Besta senan:
Stóra confrontið við gagnrýnandann. Er það bara ég eða er smá Kermode keimur af honum?

Sammála/ósammála?