Hercules (2014)

Brett Ratner má eiga það, honum tókst að gera betri „upphafssögu“ um Herkúles heldur en aumingja Renny Harlin, en hans mynd (þessi með Kellan Lutz í burðarrullunni) var of ólyktandi til þess að mæta í bíó í mörgum löndum svo flestir, sem betur fer, létu hana beint framhjá sér fara. Vondu fréttirnar fyrir Ratner eru þær, að ef Dwayne Johnson sýndi ekki hlutverki sínu svona mikinn áhuga, eins og honum oftast fylgir, mætti segja það sama um þessa mynd.

Hercules er líklegast of lífleg til að vera maukleiðinleg en góða eða spennandi mynd skal alls ekki búast við af henni, heldur frekar bara ósköp dæmigerða Brett Ratner-mynd. Það þýðir að hún sé hröð, glansandi, kostnaðarsöm, áhættulaus og heldur óeftirminnileg í heildina. Enginn er að biðja um neina perlu frá Ridley Scott, en eitthvað hlaut að vera hægt að gera ‘fönnið’ betur en þetta.

Hercules-2014-Dwayne-Johnson-Desktop-Images

Ratner er þessi klassíski miðjumoðsmógúll: söluormur sem hlýðir stúdíótoppunum eins og óður hundur og telur sig vita hvað selur. Í flestum hans myndum er nóg af ‘trailer-mómentum’, gjarnan einhvers konar hlandvolg mixtúra af spennu og einhverjum húmor, og hef ég tekið eftir því að nánast allar myndirnar hans eru í kringum 100 mínútur, og fórna oft persónudýpt og betur uppbyggt drama fyrir keyrsluna og hræðslu við athyglisbrest. Myndir þessa manns lúkka oft ágætlega (mínus ódýrar brellur, jæks) en eru skelþunnar eða fullpakkaðar að innan.

Hefði einhver annar leikstjóri gert þessa tilteknu Herkúlesarmynd hefði hann að öllum líkindum ekki troðið fínum sögugrunni í eins og hálfs tíma afþreyingarhaug, heldur víkkað meira úr bakgrunninum og staðið undir epíkinni sem vöðvarnir lofa. Efniviðurinn, þ.e.a.s. þessi sem er byggður á grafískri skáldsögu (mun þessi 300-öfund aldrei stoppa??) tekur reyndar einkennilega plain snúning á goðsögnina. Fantasían er tónuð niður í litlar sagnaeindir og víkur hún fyrir óeftirminnilegri stríðs- og upprisusögu sem hefur ekki snefil af tilfinningalegu gildi, þó hún reyni það, á stuttum tíma. Ekkert er í rauninni í myndinni sem er sérstaklega þess virði að sjá, en það sem maður fær aftur á móti er í einfaldari kantinum og nógu massað til að erfitt sé að kvarta of mikið, a.m.k. ekki ef manni líst ekki illa á að sjá stóra Klettinn lyfta fleiri þungum hlutum.

hercules-dwayne-johnson-picture

Það er svolítill Conan-fílingur settur í þetta, og á einn hátt eða annan er erfitt að detta ekki í einhverjar Schwarzenegger minningar, sér í lagi þegar maður hugsar um steraða hasarstjörnu og Herkúles í sömu setningu. Ratner, eins og venjulega, tínir og velur út stílpælingar sem koma frá betri mönnum og setur svo sitt eigið nafn undir. Hann reynir nú að sækjast eftir epík sem þráir að sækjast í Miðgarð… frá augum Zacks Snyder, en hefur sjálfur eflaust ekki séð þetta ódýra yfirbragð sem límir saman settið og sjónarspilið. Búningar og tónlist er heldur ekki beinlínis fyrsta flokks og stendur hvort tveggja upp úr á pari með allri lógík sem óbeint tætir söguna í sundur, ekki það að hún blómstri eitthvað af stað í byrjun.

Kemur svosem ekkert á óvart að sagan sé illa kortlögð, og samtölin bæta úr nákvæmlega engu, en þá kæmi sér vel fyrir að halda afþreyingargildinu góðu. Það gengur ekkert illa þangað til að sagan verður bensínlaus fullsnemma, og einmitt þegar manni líður eins og klæmaxinn sé afstaðinn tekur við auka hálftími sem reynir að hnýta saman alla lausu endana í algeru flýti og hamra í mann meiri hasar samtímis. Þetta verður alger steypa á endanum, en þolanleg steypa á meðan Jónsoninn Dwayne heldur andliti eða Ian McShane segir eða gerir eitthvað fyndið. Maður veit samt að maður er kominn á auðgleymdan völl þegar Rufus Sewell er kominn í mikilvægt aukahlutverk. John Hurt er alltaf velkomin viðvera en finnst svo greinilega fyrir tékkaþefinum hjá honum.

hercules-movie-2014-ian-mcshane

Það eru fínir kaflar hér og þar á þessum stutta tíma, jafnvel þótt myndinni (í tilfinningaleysi sínu) tekst að dragast eitthvað á langinn á 90 mínútum. Slíkt gerist þegar persónusköpunin fær ekki athyglina sem hún þarf. Aldrei leit ég á Herkúles sem þrívíða persónu heldur meðtók ég hann bara sem Klettinn með sítt hár, skegg, olíuborinn, í banastuði og „grafinn“ inn i hlutverkið sitt. Vöðvaflexið kemur svo áreynslulaust, og oftar en ekki óumbeðið.

Hollývúddið verður þó vart eitthvað dæmigerðara en þetta, burtséð frá Ratner. Hercules urrar og gargar af ákveðinni villimennsku og hörku, eða ber sig allavega þannig. Sárlega finnst mér ljóst að þarna eigi heima miklu blóðugri kvikmynd miðað við bardagafjöldann og dauðsföllin. Í ofbeldinu blundar aðeins í leikstjóranum áhugi fyrir meira af hinu góða – hann hlýtur nú að horfa á Game of Thrones! – en úr því að hann er hlýðinn útfærir hann illa klipptar, bragðlausar senur með aðallega púðri, engu höggi frekar en hugmyndaflugi.

Eitthvað af leikurunum bjarga það sem þeir geta með því að vera ekki of litlausir en greinilega sést að Ratner hafði fyrst og fremst engan áhuga að gera eitthvað meira svalt úr Herkúles sem karakter með núlstillingunni, bara heilalausan aksjón-kall. Frontmaðurinn er löngu orðinn reyndur í því, en meira að segja hann átti örlítið betra skilið.

fjarki

Besta senan:
Herki fær Stjána Bláa mómentið sitt.

Sammála/ósammála?