Guardians of the Galaxy

Guardians of the Galaxy er stórsigur fyrir Marvel-stúdíóið og ný ástæða fyrir helstu aðstandendur þar til þess að bera uppi flassandi skilti sem á stendur: „Slakið á, við kunnum’edda!“

Þessu teymi tókst allavega enn eina ferðina að byggja glænýjan gómsætan byrjunarreit, stækka alheiminn sinn og búa til bíómynd sem ég hefði mörgum sinnum hoppað hæð mína yfir sem krakki. Eiginlega er það sama hver aldurinn er, ef maður dregur ekki línuna við geimævintýri sem inniheldur byssuóðan, gangandi, talandi þvottabjörn er ótakmarkað hversu miklu og eftirminnilegu fjöri hún treður í þessa tvo tíma.

IF

Beinagrindin er týpísk, af upphafs- og kynningarsögu að vera, og plottið þar af leiðandi ekki af frumlegustu sortinni. Enn einu sinni sækir Marvel í McGuffin-eltingarleik þar sem þarf að koma í veg fyrir að gereyðingarafl falli í rangar hendur, alveg eins og í Captain America 1… og Avengers… og Thor 2 – en stór ástæða er víst fyrir því í heildarplaninu.

Ekki er annars verið að ræða kvikmyndagerð sem er hlaðin einhverjum skilaboðum eða súbtextum, en þess eru lítil þörf á þegar sjúklega fyndin, flott, flippuð, öðruvísi, orkurík og hjartahlý hasarblaðaepík brillerar fyrst og fremst sem hágæðaskemmtun. Hún tekur sig aldrei of alvarlega en skortir samt ekki sálina eða hápunkta í ásættanlegu magni. Hún er heilög gleðisprauta fyrir geimmynda-nöttara sérstaklega. J.J. Abrams hlýtur að skjálfa eitthvað örlítið.

Marvel á samt ekki heiðurinn á öllu þessu krediti, þó þeir séu með þeim færustu í dag að gleðja nördana (nema t.d. þegar nafnið Edgar Wright kemur upp…), heldur er það prakkarinn og fyrrum Troma-lærlingurinn James Gunn. Sá hefur ekki alltaf verið að mínu skapi en greinilega, undir réttum taumum og með efnið í taumunum sem gæti ekki hentað honum betur, hefur hann tökin á hreinu að gera geimóperu með kjaft og meðvitund.

Guardians er öll brennimerkt einkennum leikstjórans, þessum létta absúrdleika hans, húmor og nostalgíuþrá. Handritið hans fer, eins og áður nefndi, eftir formúlu en Gunn finnur sér engu að síður mörg tækifæri til þess að snúa út úr klisjum með bröndurum eða öðru smotteríi. Skarpur díalogur kemur líka í veg fyrir að upplýsingar og bakgrunnir eru stafaðir meira út en þarf. Þegar vægur hallærisleiki hrekkur upp er oftast kommentað á það um leið, en gígantískt fallegir hasarblaðarammar eru yfirráðandi hvort sem er.

Guardians-of-the-Galaxy-review

Það sem gerir þessa mynd á endanum að því sem hún er, að frátöldu snjöllu og fyndnu handriti, eru persónurnar; þrasið þeirra, hálfvitaskapurinn, harkan, samvinnan og sameiginlegu einkennin. Þetta mikla „B-eða-C teymi“ er lítið síðra en Hefnendurnir, allavega miðað við hvernig Gunn heldur utan um það þar sem ég las aldrei myndasögurnar fyrirfram, eins og áreiðanlega 98% fjöldi veraldar.

En á meðan Avengers-grúppan gekk út á það að smala hinum ólíkustu einstaklingum undir sama málstað, með lítið sameiginlegt, á teymið í Guardians sér samleið í gegnum andlega eða persónulega útskúfun. Hver hefur sína hörðu, ruddalegu skel en kjarni þeirra blíður, sama þó átt sé við um atvinnumorðingja, þjóf, brjálæðing, hausaveiðara og þar meðtaldan skapstóran, erfðabreyttan þvottabjörn og stælt, gangandi undratré. Við fyrstu skoðun eru þetta allt ýktar, litríkar og einfaldar myndasögufígúrur en með rétta furðufaðmlaginu frá Gunn og leikurunum einnig leynist meiri dýpt í þeim sem nýtur sín best í smáatriðunum.

guardians-of-the-galaxy-groot-3

Eftir því sem fleiri í heiminum vita hver Chris Pratt er, því vinsælli verður hann og af góðri ástæðu. Hann er frábær, léttur persónuleiki, kannski ekki alveg með sama skerandi sjarmann og myndarlegustu Hefnendurnir, en virkar meira en vel fyrir Peter Quill/Star-Lord. Zoe Saldana heldur því áfram að sjá til þess að allir unnendur sæfæ-ævintýra á plánetunni viti hver hún er. Persónulega kann ég miklu betur við hana græna og eiturharða heldur en í Star Trek eða bláa, nakta og gólandi á Pandóru. Gamora er þessi klassíska andhetja með hjarta úr gulli, inn við beinið. Fjarlæg, brotin en elskuleg.
Ég er skotinn í henni.

Tölvuteikningin hjálpar auðvitað mest en rödd Bradleys Cooper og Joe Pesci-innblæstrinum hans tekst honum að móta trúverðugan og brillerandi karakter úr loðdýrinu Rocket við fyrstu innkomu. Vin Diesel, með fullri virðingu, fer léttar með að troða sér í hjartastað fólks þegar hann talsetur ómótstæðilega fígúru, og krúttlega náttúrufríkið Groot er stórmerkileg sköpun í alla staði. Leikarinn má álíta það glæstan heiður að ná svoleiðis árangri þegar hann segir varla annað nema „I Am Groot“.

Allir í hópnum gera sitt og hvað til að slást um það að vera senuþjófur myndarinnar, og sömleiðis aukaleikararnir (sem flestir eru minnisstæðari en þeir eiga rétt á og hafa milli handa, þ.á.m. Michael Rooker, Djimon HounsouJohn C. Reilly, Pete Serafinowicz, Glenn Close og Benicio Del Toro), en bestu línurnar fannst mér koma frá fyrrum glímutröllinu Dave Bautista. Ég held að ekki margir hafi búist við miklu af honum en undir massanum, förðuninni stendur ekkert eftir nema einlægt bangsahjarta í formi villimanns að nafni Drax. Lee Pace (hinn sami og gargar einnig í Hobbitaþríleiknum) er annars góður sem staðlað illmenni sem kemst hjá með nærveru sinni en betri er Karen Gillan sem aðstoðarkona hans. „Josh Brolin“ fær líka að staldra aðeins stutt við áður en hans tími kemur síðar. Hann er samt gott dæmi um einhverja plottþræði sem eru látnir hanga í lausu lofti en að því utanskyldu er þetta líklegast sú Marvel-mynd sem hingað til virkar að megnu til sjálfstæð og má alveg njóta hennar án strengjana.

drax2jpg-0d1a1b

Allar brellur koma frábærlega út, hvort sem þar varðar litríkan, mergjaðan hasar eða smáatriðin hjá Groot eða Rocket. Hönnun og kvikmyndataka er í toppstandi og segjast verður að þetta sándtrakk er órgandi snilld. Ferskleikinn flyst á miklu æðri grundvöll þegar maður er allt í einu farinn að heyra í ’70s slagörum í geimóperu og upp úr standa Redbone, Blue Swede, Elvin Bishop, Bowie og The Runaways.

Gunn mjakar þessu öllu saman þannig að þetta smellpassi. Maður veit annars strax að maður er ekki beinlínis staddur í þessari venjulegu færibands-stórmynd þegar Come and Get Your Love byrjar að spilast undir kreditlistanum í byrjun, að því auki að lagalistinn vefst nokkuð prýðilega í innihaldið. Score-ið frá Tyler Bates (hann samdi m.a. fyrir Slither, Super og Watchmen) finnur rétta balansinn að sækja í eldri tegundir ævintýramynda og sama tíma finna tónana fyrir lifandi hasarblað. Nóturnar hans henta sjónarspilinu með stæl.

Að velja bara eitt eða hnefafylli af uppáhaldsatriðum úr Guardians gerir því varla réttlæti hversu skemmtileg hún er. Hún er nákvæmlega ævintýrahasar- og gamanmyndin sem hún vill vera, pökkuð svo mörgum gamaldags og nútíma-taktíkum og hefur máttinn í sér til að snara til sín ólíkum kynslóðum ef viðkomandi er í stuði fyrir það sem er á boðstólnum. Hvernig er EKKI hægt að vera það? Það er aldrei dauð mínúta og, ef þú ert eitthvað eins og ég, muntu alls ekki stoppa eftir aðeins eitt eða tvö gláp. Afþreying sumarsins, gjör svo vel.

niu

Besta senan:
Einn geimur. Tveir einstaklingar. Ein gríma.

Sammála/ósammála?