The Raid 2: Berandal

Svona á að gera hasarmyndir! Með fullt, fullt af reyndum og nógu hörðum áhættuleikurum sem leggja líkama og líf sitt í hættu í þágu bíólistarinnar, m.ö.o. svo við áhorfendurnir getum kippst til með samúðarverki í miðri adrenalínvímu. Sömuleiðis eru bestu bardagamyndirnar þessar sem leyfa þér að finna fyrir hverju höggi, trekk í trekk. Í þessu tilfelli þarf ekki nema að bæta svo við breiðu glæpaplotti á kalíberi við mafíósaepík, og útkoman er ‘Godfather II’ eða ‘Departed’ hasar- og bardagamyndana. Ekki vissi ég til að nokkurn tímann væri hægt að biðja um svoleiðis blöndu, en hér er hún… og hún er STURLUÐ!

„Gangi þeim vel að toppa þetta,“ hugsuðu margir eftir að hafa horft á fyrstu Raid-myndina, ég þar meðtalinn, en undarlega hefur tekist núna að smækka hana grimmt og álíta hana sem miskunarlausa upphitun. Hasarklámið kom í stórum sprettum, með litlum hvíldartíma á milli. Einhæfur varð hann sjaldan en ekki margar staðsetningar voru í boði þar sem hún gerðist öll í sömu byggingunni. Það eina sem þá perlu skorti var einhvers konar aktívur söguþráður, án þess að það hafi verið nauðsynleg krafa. Myndin svínvirkaði og tók „Die Hard í íbúðarblokk“ hugmyndina á svo grjóthart plan að John McClane hefði hágrenjað í sömu aðstæðum. En eins og ég segi, sú ódauðlega mynd var bara ástæða leikstjórans Gareth Evans til þess að undirbúa okkur fyrir það sem virkilega í honum býr.

the-raid-2-berandal-official-domestic-trailer-hd-iko-uwais-action

„Meira af því sama“, „Less is more“ eða „Overkill“ eru hugtök sem eru þessari mynd algjör útlenska, og frekar en að stimpla sig sem einungis beina framhaldsmynd er The Raid 2 aðalpartíið í staðinn; miklu ljótari, stílískari bíómynd, öðruvísi í tón, með flóknari framvindu, meira drama og slettir öllu blóði sínu á 300% stærri striga, með miklu meiri fjölbreytni og klukkutíma lengri. Hún tekur við nánast beint þar sem frá var horfið seinast og opnar svo fyrir umtalsvert breiðari söguþræði, dramatískt margslungnari og meira spennandi. Hann tekur upp visst pláss en gefur myndinni rísandi „intense“ level, og þó innihaldið sé óneitanlega afsökun til að strengja saman hverri ofbeldisveislunni á eftir annarri, smellir þetta allt saman með góðu flæði, grípandi samræðum og vaxandi samúð og stuðning fyrir hönd aðalhetjunnar.

Eðlilega kemur lengra bil á milli hasarsena en í látlausa forveranum, en þegar þær koma í sínum bylgjum og gæti önnur hver þeirra verið heill klæmax í öðrum myndum. Það eru risastór, snilldarlega kóríógröfuð atriði í fyrri helmingnum sem taka næstum á þolið, en er það síðan barnaleikur í samanburði við veisluna sem bíður í seinni hlutanum.

the-raid-2-image-4

The Raid 2 upplifði ég nefnilega þannig að í hvert sinn sem ég hélt að hún gæti ekki orðið klikkaðri, ýktari, agressívari, flottari eða ótrúlegri… hvað gerist þá? hún hélt stanslaust áfram að toppa sig! Leikstjórinn setur sér engin takmörk; einvígi, hópslagsmál, einn á móti milljón, stórfenglegur bílaeltingaleikur, slagsmál í bíl, utan á bíl, hamar, álkylfa, lengi má telja. Ef viðkomandi leggur í óklipptu útgáfu myndarinnar (þessa sem Evans VILL að þú sjáir) í stað þeirrar ritskoðuðu er áhorfið ekki fjær því að vera persónuleg áskorun, eða himnesk grimmdarsending. Meira að segja strangtrúðustu aðdáendur fyrstu myndirnar blöskra og hljóta að finna til í mörgum útlimum á meðan þessari stendur yfir.

Það var eitthvað svo sárt en svo naglhart að sjá bardagasnillinginn Iko Uwais, sem aldrei hafði nokkurn tímann leikið áður, bera sig eins og höfðingi og þola fleiri spörk, högg, bit og heilahristinga heldur en normal hasarhetjur, og ónýta ofurlöggan Rama þess vegna höfuð og herðar yfir flesta þeirra. En allt sem hann lagði á sig áður á augljóslega ekkert í líkamspyntinguna sem hann hefur hlotið í þessum tökum. Sama í hvernig bardögum, Uwais er óstöðvandi en mætir sífellt nýjum jafningja eða ef ekki nokkrum í einu. Innihaldið krefst þess að fá mikið dramatískt púll úr honum og slær hann fáar sem engar feilnótur. Taktur hans virkar líka í stílíseringu sem þessari og meiðslablætinu sem fylgir. Allir eru meira eða minna fókusaðir og í sínum gír.

TR2-4

Hægt er að brjóta niður í raun hvaða stóra hasarsenu sem er og stúdera í hel hversu flókin og heimskulega vel skipulögð hún er. Allt gert á staðnum, í kameru, æft í hel og engar tölvubrellur til þess að skipta sér af römmunum eða svindla með. Mátulega svöl og kaótísk kvikmyndataka gerir svona sársaukagraut að eins konar dansi.

Ef réttlæta skal það að Raid 2 sé ekkert annað en langdregið hasarklám þá geta fáir sagt annað en að það gerist varla ruglaðara eða meira djúsí en þetta. Það er ekki fræðilegur séns að sjáist magnaðra samansafn af hasarsenum á öllu árinu.

brill

Besta senan:
Eldhúsið, þ.e.a.s. ‘lokalevelið’, hvað annað?

Ein athugasemd við “The Raid 2: Berandal

  1. ég hef bara aldrei á ævinni held ég séð svona tryllta action mynd. Hvernig kom hún ekki í bíó??

Sammála/ósammála?