The Expendables 3

Þegar Sly Stallone hóaði fyrst til sín saman risaeðlur og eilífðartöffara af svipaðri sort undir nafninu Expendables var markmiðið að fyrst og fremst halda í gamla skólann, knúsa hann fast og sprengja hann svo í tætlur, helst ekki sjaldnar en fimmtán sinnum. Blóð, brák og fljúgandi lík að sjálfsögðu tilheyrandi í öllu heilaleysinu, markhópnum til ágætrar ánægju. Bíósnobbum ekki.

Þetta markmið hefur eitthvað aðeins bjagast til með hverju eintaki, mismikið, hvort sem það sveiflast frá nútímalegri klippingarmaníu (nr. 1) til ósannfærandi tölvubrellna og þar sérstaklega pixlagerðu blóðdropana (1 & 2) eða unglingavænu blóðleysi eins og í tilfellinu með The Expendables 3 (kem betur að því eftir smá…). En að þessu neikvæða frátöldu tókst mér að hafa ferlega gaman af andanum sem var í hinum tveimur.

Svitafýluóðurinn virkar. Sem vöðva- og byssumontandi hasarsýningar, með þörf til að djóka aðeins með eigin ímyndir gamalla stjarna og klessa saman hnefum, ganga myndirnar upp. Margs konar höfðingjar fengu að gera það sem þeir best gera, á tímarammanum sem gafst hverjum. Blóðbaðið hjálpaði smá því þannig hlutir skipta hellingsmáli þegar allt vit er við dyrnar og endalaust dælt kúlunum út. Í þessari deild skýtur þriðja myndin algerum púðurskotum, þó dauðafjöldinn hafi líklega aldrei verið hærri, en tepruskapurinn mætir annars vegar undarlegri tilraun hjá seríunni til að… þroskast pínu.

expendables-3-movie-2014-1920x1080Expendables 3 er bæði versta myndin í röðinni og sú besta. Hún er stærri, lengri og aðeins einbeittari en hinar; heilsteyptust sem bíómynd, með aðeins meiri áhuga á einhvers konar plotti eða lágmarksþróun hjá vissum karakterum, að ógleymdum bræðraböndum grúppunnar. Persónubygging er ekki standard krafa í svona ræmu, en það að Stallone (sem skrifaði söguna) vilji eitthvað aðeins meira gera en að strengja saman magnandi hasarkafla er óneitanlega dúlló. Lokasenan í myndinni er ánægjulega kammó og fangar skemmtilegan væb hjá öllu liðinu, og fylgir hún eftir ansi brjálaðri 20-30 mínútna hasarorgíu sem er eins svöl og hún er bjánaleg og skemmtileg.

Sly viðurkennir annars sjálfur snemma í myndinni að dagar hans og jafnaldra sinna verða bráðum búnir. Þar af leiðandi hefur hann kosið að bæta við fleiri yngri nýliðum, bæði í neyð til að víkka hrörnandi aðdáendahóp (þennan sem nennti lítið að mæta á Bullet to the Head, Escape Plan eða Sabotage), kýta aðeins við yngri kynslóðina og kannski eða kannski ekki afhenda kyndilinn. Fyrir mér meikar það samt jafnmikið sens að setja „PG-13“ og „Expendables“ í sömu setningu og að sjá station-bíla keppandi í Fast & Furious mynd.

Þetta er pínu vont karma. Aldursstimpillinn (14 hér) skaðar, ekki bara út af persónulegum biturleika, heldur sogar þetta oft kraftinn úr stönt- og ofbeldisveislunni sem dregur hávaðann með sér. Leikstjórinn Patrick Hughes er ekki endilega slæmur hasarleikstjóri (sénsinn samt að hann eigi roð í upprunalegu Raid-myndina – sem hann mun næst endurgera) en með þessa afmörkun og svona týpu af mynd grípur hann til þess að klippa bestu atriðin í kaótíska búta. Óslípuðu tölvubrellurnar (enn og aftur) eru ekki að hjálpa neitt til, og fyrst núna þarf ekki að bæta við svona miklu blóði er nóg um gervilegar sprengingar. Og það eina sem mann langar bara til að gera er að njóta hasarsins.

expendables-3-leaked-online-and-has-already-been-downloaded-over-189000-timesSumt er annars vegar þrælskemmtilegt; ýmsir karlar, kempur og m.a.s. ein hörkufim skvísa viðhalda fínu tempói í miðjum klisjumauk. Hinir vanaföstu eru í góðum gír og þekktu viðbótirnar meira en velkomnar. Wesley Snipes er þar á góðri leið með að hlaupa burt með alla myndina þangað til að honum er skellt beint í aftursætið áður en myndin er hálfnuð. Fáir eru þó í meira stuði heldur en Schwarzenegger, eins píndur og hann gat nú verið síðast. Pakkaður fínni skeggrót og sígildum vindli eða sólgleraugum er hann á meðal fárra sem virðist í alvörunni skemmta sér konunglega og að heyra gamla lurkinn segja „Choppah!“ oftar en einu sinni innsiglar dílinn, fyrir utan það að hann kemur með langbestu viðbrögðin við því hversu óþolandi Antonio Banderas á að vera. Því ætlunarverki myndi takast betur ef Banderas væri ekki svona uppfullur af springandi orku. Það er einnig óvenju fágætt á meðal þessa hóps.

Fyrirsjáanlega er Harrison Ford veikasti hlekkurinn af öllum. Í tvöhundraðasta skiptið hendir hann út úr sér setningum með flötum, urrandi flutningi og lítur engan veginn út fyrir að nenna þessu. Það er eiginlega bara frekar sárt að heyra hann reita af sér orðin „…In the House!!“ eins og hann sé í alvörunni að blekkja okkur, haldandi það að hann sé að skemmta sér. Kelsey Grammer hefði miklu frekar átt að fljúga þessa þyrlu! Gaman að því samt að aðstandendum stóðst engan veginn mátið að gefa Harrison innkomu í (vitanlega…) Ford-bíl.

still-of-mel-gibson-in-the-expendables-3-(2014)-large-pictureUngu nýliðarnir eru ábyggilega umdeildir á meðal harðra áhugamanna, jafnvel tilgangur þeirra en þó vanti stundum allan persónuleika í þá eru þeir allir brögðóttir á sinn hátt og láta vel um sig fara á meðal eldri borgaranna eins og þeir gætu ekki átt betur heima þar. Á öðrum enn jákvæðari nótum tekst Mel Gibson að vera allt sem honum tókst ekki að vera þegar hann lék illmennið í Machete Kills. Dæmigerður er hann en nokkuð frábær í því, þökk sé mónólógana hans. Eins ógnandi og hann virkar fær maður hins vegar aldrei tilfinningu fyrir því að hetjurnar séu nokkurn tímann í lífshættu, því ósjálfrátt gerir maður ráð fyrir að Sly vilji helst halda hópnum með vonir um að hlaða ENN fleiri nöfnum á plakatið fyrir næstu mynd.

Expendables 3 er auðvitað gimmick-afþreying á pjúrasta leveli, þannig séð, en með morðóða löngun til að skemmta engu að síður. Niðurstaðan er trikkí samt þar sem myndin vill og reynir að vera aðeins meira (og minna), kemur á óvart en nær aldrei fluginu að verða það sem hún ætlar sér og hefði getað orðið. En dúndurfín afþreying samt, eins mikið og ég á erfitt með að fyrirgefa henni það hvað Terry Crews er lítið í henni.

sexa
Besta senan:
Gibson dettur í mónólógið.

Sammála/ósammála?