Lucy

Mikið getur hann Luc Besson verið lúmskur djöfull. Til fjölda ára hefur hann skrifað (en lítið leikstýrt) og ekkert framleitt nema heilu hæðirnar af hraðskreiðum, næstum-því-Hollywood- hasarmyndum; misjafnlega flippuðum eða alvörugefnum en alltaf hressilega heiladauðum.

Eðlilega væri þess vegna að gera ráð fyrir að sú nýjasta frá honum dytti í nákvæmlega svoleiðis form. Það verður svo sem ekki tekið frá Lucy hversu vitgrönn og kjánaleg hún er í helstu sveiflum en á sama tíma er hún talsvert villtari, brenglaðri og hugmyndadrifnari en margir myndu búast við. Þetta er ekki ósvipað því að horfa á Limitless ef sú annars hörkufína mynd væri á annaðhvort sveppum eða rauðu pillunni úr The Matrix … eftir að hafa horft á Tree of Life.

lucy-scarlett-johansson-pictureÖll myndin byggir á hinu margumtalaða kjaftæði þar sem haldið er fram að manneskjan noti ekki nema 10% af heilanum sínum. Hin titlaða Lucy er fengin til að smygla innvortis dularfullu eiturlyfi en eftir að það kemst óvart út í blóðrás hennar eykst heilastarfsemin ofurmannlega mikið, sem mögulega setur hana og aðra í mikla hættu. Smátt og smátt hækkar greindar- og þekkingarprósentan (og þá er sagan komin með tifandi ‘klukku’ sem gengur að vísu upp en ekki niður) og hvorki Lucy né nokkur heilvita áhorfandi í salnum hefur hugmynd um hvað gerist því nær sem heilavirknin nálgast 100%.

Að minnsta kosti getur maður sagt að Besson, sem skrifar einn handritið að þessu sinni og leikstýrir með fanatískri orku, kunni að halda manni í nettri óvissu, eins “artí“ myndin getur orðið og m.a.s. nett hugrökk að því leyti að maðurinn tekur þá stóru áhættu að grilla allsvakalega í áhorfendum sem búast við einfaldri spennuafþreyingu sem þræðir saman byssur, slagsmál og eltingaleiki í kringum rútínubundið plott. Það kemur þess vegna mörgum alveg í opna skjöldu þegar í staðinn blasa við frumspekilegar umræður um tíma, þróun, almenna möguleika mannskepnunnar og í rauninni allan heimsins fjanda, án gríns, en býsna ómótstæðilegum aulaskap sem leggur allt undir. Brútal ofbeldi og slíkt fylgir með en í rauninni bara vegna þess að það þarf til að þetta breytist ekki í annan listagjörning eins og Under the Skin, en Lucy svipar meira í þá ætti en annað Marvel-tengt sem Scarlett Johansson hefur komið nálægt. Að sama skapi tæklar hún svipaðar hugmyndir og Transcendence gerði fyrr á árinu, bara helmingi betur.

still-of-morgan-freeman-and-scarlett-johansson-in-lucy-(2014)Besson er svo sannarlega ekkert að djóka með þetta, hann setur hugmyndamarkmið sín á svo  brandaralegan hátt að ég gapti örugglega oftar en einu sinni – alveg óvart – í lokakaflanum á Lucy, að mestu í ruglaðri undrun yfir þeim áttum sem hún fer í og án þess að breytast í of týpíska hasarmynd um grjótharða kvenhetju. Það er margt út á handritið að setja, í raun of margt, en óneitanlega dúkka upp margar athyglisverðar spurningar í því, þótt þurfi að teygja trúverðugleikann alveg brjálæðislega til að komast að þeim. Ég virði samt myndina fyrir að halda taktinum allan tímann, enda stutt, hröð og alltaf nóg að gerast. Spennuna vantar kannski oft (hugsanlega vegna þess að það er óhjákvæmilega erfitt að óttast um líf aðalpersónu sem er næstum því ósigrandi) en óútreiknanleg og forvitnileg er hún í staðinn, allan tímann. Hins vegar, ef pælingarnar ná engri festu hjá manni þykir mér ekki erfitt að skilja það að myndin geri marga hreinlega fúla. Að mínu mati er sýnileg prósentuhækkun myndarinnar e.t.v. metafóra fyrir það hvort áhugi viðkomandi einstaklings rísi eða hrapi.

En getur ein bíómynd verið „djúp“ og nokkuð klikkuð kennslustund en töff og bjánaleg spennumynd á sama tíma? Besson lætur allavega reyna á það með sjáanlegum eldmóði. Bræðingurinn fer ekki alltaf vel saman og smávegis auka persónusköpun hefði hjálpað aðeins, En annars, til þess að svona blöndunarformúla gangi upp skaðar svo sem ekkert að hafa tilþrifaríka Scarlett í forgrunninum, Morgan Freeman í bakgrunni (eins með Choi Min-Sik (Oldboy, I Saw the Devil) en hann nýtist sárlega illa og er ekki sá eini). Fröken Johannson hefur annars löngu sýnt fram á að hún virki sem hasarfígúra en í Lucy fær hún að gera svo margfalt meira með þann bratta tíma sem er í boði og rúllar þessu upp með semí óhugnanlegum stæl.

Á endanum er ferlega margt hægt að segja um Lucy, en aldeilis er hún klikkuð, stílísk og sérstæð týpa samt sem áður. Það segir sig vissulega sjálft að greindarstig bíómyndar um tótalþekkingu og speki veltur að mestu á greind handritshöfundarins en á Besson-kvarðanum er tilraunin vel þess virði, meingölluð en á móti það besta frá honum sjálfum síðan The Fifth Element kom út. Það furðulega er hvernig tekst í myndinni að örva heilann eina mínútuna en síðan lemja úr honum allt loft og vit þá næstu, og þarnæstu, en ég fílaði það. Þessa mynd þarf eiginlega að sjá til að trúa, ef hugarfarið er rétt stillt.

thessi
Besta senan:
Deyfingarlaus á slysó. Brútal, samt svo fyndið.

Sammála/ósammála?