Endanlega á línunni?

„Netið er bara bóla,“ lét einn af okkar frægustu íslensku sviðs- og skjáleikurum hafa eftir sér – minnir mig – í símaauglýsingu. Ég nefni ekki hver en röddin er fræg fyrir að vera rótuð niður í skeggríkri og sexí karlmennsku.

Nei, ekki Ólafur Darri.

En með vaxandi krafti tækniþróunar og púlsandi eiginleikum sínum sé ég ekki núna betur en að þessi tiltekna bóla sé löngu komin til að vera og líkleg til þess að vera viðstödd þegar kemur að næstu stóru örlagastund mannkynsins … hvenær sem hún verður. Bólan hefur sett á sig hyrnda, pappagerða afmælishattinn og blásið á kertin sem tákna þann aldarfjórðung sem nú er liðinn, og háðari erum við henni sem aldrei fyrr.

Vægast sagt er margur maðurinn geysilega þakklátur fyrir gamlan CERN-sérfræðing að nafni Tim Berners-Lee sem einn daginn ákvað að taka gamlar hugmyndir og sameina þær með nýjum hætti. Úr því kom grunnurinn að því sem við þekkjum í dag. Eðlilega hafa margir og miklir menn átt sinn og aðra þætti í þessari þróun og uppeldisbrögðum en Berners-Lee, betur þekktur sem „faðir Veraldarvefsins“, kom þessu öllu upp. Hann skrifaði fyrsta vefþjóninn, fyrsta vafrann og ritilinn. Lítill gluggi breyttist í heila aðra vídd.

hack
(ah, Hackers)

Varla gerði þessi maður sér grein fyrir því fyrir 25 árum að hér væri í hans höndum óstöðvandi tól sem ætti eftir að spreðast hratt og myndi gera fólki kleift að skapa, rífa niður, tjá sig, breiða út hugmyndir, hjúskaparstöðu, breyta efnahagnum, sækjast í terabæt af klámi eða fá komandi kynslóðir til þess að sjá færri og færri ástæður til þess að nenna út í garð að leika.

Netbólan hefur átt lærdómsrík ár. Þegar fyrstu skrefin voru tekin reyndu suðandi módem endalaust á þolinmæðina. Rétt eftir aldamótin gekk hún í gegnum ýmis stig gelgjunnar, sem t.a.m. fótfestu sig með aukningu samskiptasíðna. Í dag er hún nógu gömul til að vera sjálfstæð og skóluð en enn er hún ung og með fullt af tækifærum til að leika sér áfram og prakkarast.

Við bólan erum á svipuðum aldri og hef ég notið þess að þekkja hana mestallt lífið; hatað hana, elskað hana, keyrt hana fulla heim og gert hluti með henni sem ég sé eftir. Þá bíð ég bara spenntur eftir að sjá hvernig við tæklum gráa fiðringinn í sameiningu. Enn er sagt að þrjár af hverjum fimm manneskjum í heiminum séu ekki tengdar Netinu. Ef langtímamarkmiðið er að snúa því við, ætli jörðin sé þá kannski bóla líka?

Sammála/ósammála?