Teenage Mutant Ninja Turtles (2014)

Þegar viðkomandi áhorfandi er kominn yfir sjálfstæðisaldur og ákveður að borga sig inn á mynd sem er byggð á svo skrípalegri hugmynd (þ.e.a.s. slagsmála- og flatbökuóðar ninjuskjaldbökur) er frekar erfitt að gera of háar kröfur. Ef einhver biður um „Törtles„-mynd, gerða fyrir nútíma áhorfendur og spilast út eins og læv-aksjón teiknimynd, þá fær sú manneskja nákvæmlega það.

Myndin er reyndar ofurdæmigerð, mætti synda í meira hugmyndaflugi og slöpp á handritsstigi (dö!), en mátulega hröð, yfirdrifin, fjörug og í takt við það sem hún vill vera og hittir í mark með tveimur sérlega geggjuðum hasarsenum sem sækja grimmt í 3D-kameruhreyfingar. Skynsamlegra hefði kannski verið að gera alla myndina tölvuteiknaða, því eins og fylgir væntingunum breytist hún á tíðum í hæper-aktívan tölvuleik, en meiriháttar fínan TMNT-leik samt sem áður. Hópnum sem hún er stíluð á gæti ekki verið meira sama um heilsteypt innihald eða formúlur.

Ekki get ég sagt að það hljómi eins og gott kombó að hafa Michael Bay sem framleiðanda og áttavillta, meinta gleðigjafann sem gerði Battle: LA og Wrath of the Titans, en hafa að minnsta kosti betri afsökun fyrir því að gera eitthvað heiladautt en oft áður. Þeir græða samt á völdum styrkleikum hvors annars. Heldur er ekkert hræðst þess að kommenta á kjánaskapinn og vinda hann upp. Myndin tekur sig aldrei of alvarlega nema hún absólút neyðist til þess, og misstígur sig þar helst. Hefði alveg verið töff að sjá meiri áhættu og fara í dekkri áttir, eins og gamla ’90-myndin þorði að gera, en „áhætta“ hefur aldrei verið kennd við þessa aðstandendur.

Ef Bay hefur annars ekki verið með fingurnar allar í þessu (þegar hann hefði kannski átt að sýna Drasl4mers meiri fókus… eeeða bara láta hana í friði) hefur Jonathan Liebsman mikið undarlega tekist að herma eftir meistara sínum. Sennilega notaður sem strengjabrúða hans til að tryggja að fingraförin fylgi, nema hann gefur myndinni sinni krisp útlit og sleppir öllum Bay-tengda tendansi til að mjólka út kvenhatri, eða þjappa inn uppfyllingum eða auglýsingum í þriðja hvern ramma. Fyrir mér er þetta eins og að horfa á eina skemmtilegustu „Michael Bay-myndina“ sem hann gerði ekki sjálfur, og það að fá slíka á léttum 90+ mínútum er ekkert verra.

Sveittu gúmmíbúningarnir eru löngu útdauðir og Motion-Capture prósessinn óhjákvæmilega búinn að taka yfir. Brellurnar standa vissulega fyrir sínu í hæper-hasarnum og vissum óhuggulega realískum smáatriðum, en fyrir fimm árum hefði þetta sennilega vá-að mann aðeins meira og hefði kannski meiri peningur mátt fara í þessa hönnun á þeim. Annars, fyrst Bay-nafnið er nú fast við merkið er auðvitað séð til þess að sé búið að „stera“ þetta svolítið upp. Svo eru ýmis lítil innskot sem eru sérstaklega ætluð hörðustu aðdáendum og bókuð til að gleðja inn á milli.

Í þessum tiltekna sölupakka eru bökurnar rúmlega tveggja metra háar, stæltari en áður, skotheldar. Rottan Splinter talar eins og Monk og getur buffað óvini hraðar, og fleiri, heldur en Yoda, og síðan er Shredder gerður að svissneskum túrbó-vasahníf með japönsku sniði. Ég er kannski í minnihluta en þegar bætt er við örlitlu sprelli frá Will Arnett og yndislega alvarleika Williams Fichtner – sem elskar alltaf að éta upp senurnar sínar – er þetta resept á barasta ágætt bíó… Megan Fox er líka óvenju fín. Hún tekur virkan þátt í öllu, virðist fíla sig og gerir meira en að setja upp stútinn og beygja sig yfir bifreiðar. Kunni vel við hana, þó ekki nokkur manneskja eigi að geta komist hjá því að hlæja þegar hún öskrar „SHREDDER!“ fullum hálsi. Röddin hjá skúrkinum kemur einnig út eins og þrælfyndin paródía, en virkar rétt svo innan tónsins.

„Origin“ sagan hefur býsna lata endurmótun, eins og hún hafi flækst í sama hugarfari og nýju Spider-Man myndirnar sem strengja saman allar persónurnar í gegnum viðbjóðslegar tilviljanir. Liebsman hefði vissulega líka mátt leyfa bræðrunum að fá fleiri atriði til að stíga aðeins út fyrir grunneinkennin þeirra. Fjórmenningarnir heppnast samt þokkalega. Leonardo er alltaf sami agaði/stífi leiðtoginn, Raphael harði lónerinn sem er oftast í fýlu, Donatello tækninördið og Michaelangelo djókaraaulinn en reynist hér vera veikasti hlekkur grúppunnar. Gengið er vandræðalega langt með það hversu graður hann er í hana Fox greyið, alveg frá því þegar hann „dibsar“ hana. Ég fatta það svosem að hann á að vera „táningur“ í hegðun en viljum við í alvörunni opna fyrir umræðuna um risavaxna, upprétta skjaldböku með bóner fyrir mennskri píu??

Samkvæmt nákvæmlega öllum útreikningum er Teenage Mutant Ninja Turtles ekki góð mynd að mörgu leyti en flott samt sem áður og fjörug. Seinustu mínúturnar eru með þeim kjánalegri en þetta væri samt eiginlega ekki alvöru Turtles-mynd ef það fylgdi ekki einhver svoleiðis hrollur með. Þessi rétt skríður yfir meðalmennskupollinn. Kannski gengur betur að gera eitthvað hugmyndaríkara í næstu lotu.

fin

Dragðu frá tvo ef þér hefur aldrei líkað við skjaldbökurnar fyrir, og fjóra ef þú ert of háð/ur nostalgíunni og/eða hatar nýju hönnunina.

Besta senan:
Slæpingurinn í snjónum.

Sammála/ósammála?