París Norðursins

Ljóst er nú formlega orðið að Hafsteinn Gunnar Sigurðsson er maður sem kann að meta þær þægilega lágstemmdar, utan borgar, karakterdrifnar, notalegar, þurrar en jafnframt fyndnar, léttsúrar og hversdagslegar.

Það heppnaðist með prýðindum í (að mínu mati) einni óvæntustu íslensku mynd síðustu ára, Á annan veg. Þá dró Hafsteinn okkur lengst út á land, nokkra áratugi aftur í tímann og gerði samverustundina einfalda, liggur við einsleita, og býsna skemmtilega. Handritið small saman, með góðu tvíeyki, sama hvort horft sé á myndina á okkar eigin tungu eða með Paul Rudd í öðru burðarhluverkinu. Heildin var ekki flekklaus en kósí lítil saga samt sem áður um alvöru manneskjur.

Hafsteinn sér ekki um handritið að þessu sinni, heldur skrifast það á Huldar Breiðfjörð, en merkilega tókst honum að búa til mynd sem er furðulega svipuð fyrri mynd sinni, þá eiginlega hættulega svipuð. Á tíðum finnst mér eins og París Norðursins hoppi á milli of keimlíkra frásagnarpunkta, en hvergi fer á milli mála að það er afar persónuleg brennimerking á þessari mynd. Hafsteinn og Breiðfjörð eru án efa mjög líkar týpur, og sennilega báðir upplifað t.d. brútal fjarsambönd eða sinn skerf af tilfinningahöftum. En hvor sem einn setur sinn stimpil á sitthvorum sínum enda en heildarsýnin virkar eins og þetta sé frá sama manninum.

parís-norðursinsEinn skærasti punkturinn á þessum bæ er án efa kvikmyndatakan. Klipping og taktur er nokkuð ágætur einnig, leikararnir góðir en húmorinn misjafn, sveiflandi til og frá því að vera hnyttinn og kallandi eftir dósahlátri. Sérvitri tónninn er í lagi, fyrir utan það að myndin snertir sama og engar taugar þegar hana langar að vera dramatísk. Fyrir mér fylgir það því að erfitt er að vera annt um hverja einustu persónu. Má hlæja að þeim, með, vorkenna í nokkrar mínútur en varla meir.

Þumalputtareglan hér í persónusköpuninni er að afhjúpa lög hvers einstaklings hægt og rólega, en oft bara svo hægt sé að stafa hlutina út um hvern á gefnu mómenti. Það heldur manni í kærkominni óvissu en gerir fólkið bara á skjánum meira fráhrindandi þegar svona lítið kjöt fylgir hverjum og minna gert til að vinna úr því. Björn Thors finnst mér reyndar aldrei hafa staðið sig betur í bíórullu en karakterinn hans, og flestra annarra, er oft úti á þekju sama hversu jarðbundinn eða eðlilegur hann er. Ef hann skilur eitthvað eftir sig er það allt Birni að þakka.

Helgi Björns er á tíðum skemmtilegur á móti Birni en sleppur ekki undan einhvers rembings. Sigurður Skúla er ábyggilega sá sem heldur húmornum lengst og mest sannfærandi á lofti. Nanna Kristín er trúverðug á sínum stað, Jón Páll Eyjólfsson líka, og krakkaleikarinn skítsæmilegur. Það er bara handritið sem fer eitthvað svo drollandi með þetta lið, og bætir lítið úr hvað leiðarendi aðalpersónunnar er fyrirsjáanlegur.

helgiSkrýtna með Thors samt, er hvað hlutverkið hans svipar brandaralega mikið til myndarinnar sem reddaðist ekki, Þetta reddast. Annað hvort er Hafsteinn að djóka í okkur eða þetta gæti verið raunverulega andlegt framhald þeirrar myndar. Lítið komst ég samt hjá því að finna fyrir þessum ‘Annan vegs’ eiginleikum. Bætir hún að vísu við breiðari þemun og daðrar við fyrirlestra um hlutverk foreldra, alkohólisma, annars sukks, meðvirkni og hversu stutt þetta líf okkar er („Lifðu nú þessu helvíti…“). Skondið þykir mér samt að þó myndin gerist í smáþorpi eru varla fleiri en tíu manneskjur sem sjást þar í heildina fyrir utan bæjarlífið – kemur þarna út eins og mátt hafa dreifa meira úr þessu liði. Það skapar raunhæft súran fíling um leið og boxar þegar litlum klaka í ennþá smærra ílát. Gæti allavega trúað því að þessi saga gengi prýðilega upp á leikhússviði, væri hún bara ekki svona ómerkileg; skörp og algerlega bragðlaus til skiptis.

Ótengt því hvað kvikmyndatakan gerir landslagið extra flott og það allt er ekkert verið að búa til mikinn ‘karakter’ úr bænum, fyrir utan nafngreinda fjallið Þorfinn sem vel og óvart gæti verið mest spennandi fígúra myndarinnar. Sagan er líka þannig sniðin, líklegast sem betur fer, að hún gæti í rauninni gerst í hvaða þorpi sem er, en Flateyri er tilvalinn draugabær í verkið, og furðu fjölþjóðlegur. Eins og áður nefndi, Hafsteinn kýs að halda þessu afslöppuðu og kómísku. Það gengur, annað en tilraunirnar til þess að vera eitthvað „prófánd.“ Þær skila sér hálf klúðurslega.

Þetta jafnast út í það að vera bæði fínt og flatt innlit til Flateyris. París Norðursins er kannski ekkert að hjálpa íslensku bíósenunni að losna undan þeim stimpli að við gerum varla myndir án fjölskyldutengdra deilna, áfengisvanda, stefnulausra rólegheita o.þ.h., en samt ágætlega heppnuð mynd á ýmsum sviðum. Hún nær tökum á því að flakka á milli kalda húmorsins og hlýju fólks-stúderingarnar en aldrei verður sagan nægilega áhugaverð eða umhyggjuvekjandi til að allt hitt nái að sigla í höfn.

fin

Besta senan:
Skúli viðurkennir „vandamál“ sitt.

Sammála/ósammála?