The Maze Runner

Smá skammtur af Hunger Games, dass af Lord of the Flies (mínus allt þetta áhugaverða…) og 100 mínútum síðar fáum við út The Maze Runner. Það er alls engin nýjung að taka eftir-heimsendasögu og setja hana í táningavænan búning, með sérstöku tilliti til samfélagsrýni, táknmynda og þeirrar hugsunar að eyða heilmiklu púðri í kynningu á því sem koma skal. En á meðan allt þess háttar púður nýtist fyrst og fremst til að trekkja upp áhorfendur fyrir næsta kafla spillir það strax gleðinni hvað sá fyrsti er sjarmalaus, dýptarlaus og flýtt á óeftirminnilegan hátt.

Án þess að hafa lesið bókina get ég sagt að það virðist vera klárt mál að einhverjir mikilvægir eða í það minnsta bragðbætandi bútar hafi týnst alveg í aðlöguninni. The Maze Runner gæðir sér á dúndurfínni grunnhugmynd og fer m.a.s. prýðilega á stað, gengur næstum því upp sem einföld „mystería“ út fyrri helminginn. En þegar lausnirnar skýrast – og þær reynast hverri annarri dæmigerðari, þvældari og meira ófullnægjandi – stendur óskaplega lítið eftir, annað en misgervileg samtöl, eitthvað af hraðskreiðum hasar og tilfinningin að maður hafi horft á þolanlegan en þurran pilot-þátt.

Hostel-Part-II-Vera-Jordanova-Lauren-GermanKannski er þetta eitt þessara tilfella þar sem fyrsta myndin gæti orðið betri ef næstu á eftir flytja þetta upp á betra plan og fylla í allar eyðurnar, en maður getur samt gleymt því að þessi gangi upp sem sjálfstæð heild. Auk þess er valtað í gegnum stórar holur í plottinu án neinna útskýringa. Þetta er fyrsta mynd hins óþekkta leikstjóra Wes Ball og má hann eiga það að útlit hennar kemur vel út og stór hluti ungu leikaranna virðist spjara sig ágætlega. Hönnunin er góð, ekki síst í völundarhúsinu sjálfu, en Ball er oftar en ekki uppteknari af því að hrista upptökuvélina og reyna að troða inn spennu með kaótík og hálfklúðurslegum lýsingum. Allur hasar verður þar af leiðandi minna „tens“ og fyrr þreytandi, alveg burtséð frá því hvað persónurnar eru allar agalega grunnar.

Aðalleikarinn Dylan O’Brien (úr Teen Wolf-þáttunum) er þokkalegur en auðgleymdur og flestir ef ekki allir í kringum hann spila með einsleitan prófíl sem má súmma upp í nokkrum orðum. Táknmyndirnar í sögunni eru skýrar sem klettar og athyglisverðir punktar fylgja því að sumir karakterar neita að gefa óvissunni (m.ö.o. völundarhúsinu) séns og lifa fastir og áhættulaust í núinu á meðan aðrir leita breiðari svara og vilja ryðja veginn. Ágæt pæling en mætti vera minna æpandi og örlítið betur grædd inn í þemun. Víst er að minnsta kosti að kynni mín af Maze Runner hafa lítið sem ekkert vakið áhuga minn á að glugga í bókina, en myndin verður kannski ekki alveg jafnvonlaus ef einhver utan markhópsins grípur hana á köldu og lötu sunnudagskvöldi með væntingar á botninum.

Besta senan:
Fyrsta heimsóknin í húsið.

Sammála/ósammála?