Þrískipting nördismans

„Æ, þú ert svona nörd, er þaggi?“

Klikkar aldrei.
Oft þegar maður heyrir orðið nörd þá má stundum lesa í tóna eins og talað sé sterklega niður til einstaklings X. Í fyrstu er svo sem eðlilegt að hugsa beint til ljótra lonníetta, geislasverða, myndasögustafla (bæði áþreifanlega og safnaða upp í spjaldtölvum), hlutverkaspila, um létta veruleikafirringu eða aðdáunarverða skákkunnáttu og alls sem treður sér þar á milli.

En lengi hef ég barist fyrir því – og margítrekað – að orðið megi einnig líta á sem hrós, og mætti oftar nota til að ýta gegn klassísku staðalímyndunum. Þess vegna, í góðri (djók)-alvöru, hef ég ákveðið að skipta því í þrjá undirflokka sem hver og einn ætti að geta kennt sig við. Þeir eru eftirfarandi:

Laumunörd: Ekki beint algengasti flokkurinn en maður sér hann nokkuð oft. Laumunördinn getur stundað fótbolta á hverjum einasta degi eða unnið við bílaviðgerðir en jafnframt geta ýmsir skemmtilegir hlutir leynst annaðhvort faldir í herberginu eða huganum. Þeir eru misopnir. Sumir viðurkenna þessa tilteknu aðdáun fyrir framan vini sína, þótt hún komi í smáum og lítið áberandi skömmtum en aðrir halda henni leyndri eins og ekkert sé viðkvæmara.

Hobbý-nörd: Miklu algengari. Í raun er þetta sá flokkur sem flestir telja sig vera í en það eru því miður ekki allir. Hobbý-nördinn getur sýnt eftirtektarverðan áhuga á ýmislegu og jafnvel átt gott safn af Star Trek-þáttum sem hann skammast sín alls ekki fyrir. Þetta er bara eins og að kaupa disk með Muse út af einu ákveðnu lagi og samt hata hljómsveitina.

Ofsanörd: Hiklaust yfirdrifnasti og óumdeilanlega mest áberandi flokkurinn, því margslunginn er hann, en það þarf hins vegar ekki að vera slæmt. Ofsanördar eru gangandi alfræðiorðabækur og geta bæði verið jarðbundnar manneskjur sem og andfélagslegir „proffar“ sem vilja helst ekki umgangast þá sem klæðast ekki álfabúningum í Lord of the Rings-maraþoninu. Ofsanörd er þessi týpa sem ekki aðeins sérhæfir sig í efni fyrir lengra komna, heldur getur hann talið upp allt og alla tengdu því og fjölmörgu öðru. Æðisgengin svitafýla oft innifalin en ekki fastur fylgihlutur.

nerd-750x400

Finndu nú nördinn í þér og kannaðu hvar þú lendir.

Sammála/ósammála?