Martyrs

Það þýðir ekkert að vanmeta Frakkana þegar kemur að „extrím“ hryllingi. Martyrs sver sig beinustu leið í ætt við aðrar ansi hreint geðveikar myndir – í bókstaflegri meiningu – eins og Inside og High Tension, sem komu út á svipuðum tíma og buðu báðar upp á væna skammta af subbuskap – í bylgjum. Það sem aðskilur samt þessa frá þeim er þolinmæðin og það að hún hefur eitthvað ansi ógeðfellt en í senn merkilegt að segja með setunni. Þeir sem meika hana út í gegn, með augun og hugann opinn, eiga skilið að lágmarki klapp á bakið, eða mjúkan bangsa.


Að kalla Martyrs vægðalausa, brútal og hreint út sagt illgjarna mynd virðist ekki alveg gera því réttlæti hvað hugtökin þýða. Truflandi er hún með stóru, feitu T-i, en ekki bara vegna þess að hún fellur undir einfaldaða lýsingu eins og pyntingarklám í hágír (sem hún gerir, en þó ekki…), heldur líka vegna þess að hún er brenglað vel gerð, viðbjóðslega sannfærandi í leiknum auk því að vekja mann í alvörunni til umhugsunar. Það kemur hins vegar eftir áhorfið, eða þegar maður reynir að koma sér á það stig að vera ónæmur gegn sjálfspyntingunum og ekki síður þeirri stjórnlausu misþyrmingu sem sést gegn kvenfólki. Eitthvað segir mér að gæi eins og Lars von Trier hljóti að horfa hlæjandi á þessa mynd, og með hann blýstífan í þokkabót.

En sem „horror“ mynd (gleymum því ekki hvað geirinn skiptir sér í margar áttir) er alveg klárt mál að hún nær seint að hverfa úr andskotans heilabúinu. Sjálfur tel ég mig vera með ágætlega háan þröskuld fyrir svona bíói og á réttum degi skal ég með ánægju (kannski 5% mótspyrnu) skófla nokkrum svona titlum í mig fyrir hádegi á þriðjudegi, en grunnhugmyndin og almennt „tilgangur“ Martyrs er kveikiþráðurinn á því að hún kemst upp á hæðir sem t.d. Eli Roth eða fleiri hafa lengi látið sig dreyma um.

Gallinn samt við Martyrs, þ.e.a.s fyrir utan kátínuna sem hún vekur með svo miklu stolti, er að hún er vel farin að þynnast út og smátt og smátt bjóðandi upp á að þú aflífir sjálfan þig, vel áður en hún haltrar að lokasenunni. Sagan snýst öll í kringum tvær stórskemmdar stúlkur, Lucie og Önnu (sem Myléne Jampanoï og Morjana Alaoui leika af rugluðu hugrekki) og raðast sitthvor helmingurinn upp með því að einblína á aðra í einu. Í fyrri hlutanum er leikstjórinn Pascal Laugier á geðbiluðu róli og tekst reglulega að koma á óvart og flétta ýmsu af sögunni á mjög litlum tíma, sem er ekkert ómerkilegra þegar myndin gerist öll í einu húsi.

mart
Handritið tekur af stað á hörðum spretti þegar Lucie er formlega kynnt til sögunnar með tryllingi og leynast áhugaverðar stúderingar á ímyndunarveiki og skaða gegn geðheilsunni sem lífsreynsla hennar draga með sér. Þegar myndin skiptir síðan yfir í Önnu er flæðið komið á rólegra, pínlegra stig, með sérstakt markmið í huga, en „sýnum allt!“ nálgunin verður ekkert alltaf styrkjandi til lengdar. Endirinn er ein allsherjar klessa af níhilisma en hefði ekkert virkað síður kröftugur ef Laugier hefði skilið aðeins meira eftir fyrir sadistakennda ímyndunaraflið og sett örlítið meiri súbstans í seinni helminginn.

Martyrs er óumdeilanlega fullmikið, en þar liggur furðulegi styrkleikur hennar líka. Hún grátbiður um að láta slökkva á sér en ef maður skoðar grannt undir yfirborðið henni skilur hún talsvert meira eftir sig en bara ljóta ramma og langdregnar senur. Skömmustulega er hún útpældari en flestar, kemur áhugaverðum punkti til skila í samantektinni sinni og Laugier má eiga það að honum tókst sínu ætlunarverki, hvort sem fólki líkar það betur eða verr.

thessi

Besta senan:
Lucie gengur berserksgang í byrjun. Púlsinn fór á milljón.

Sammála/ósammála?