They Came Together

Loksins kann einhver tökin á því aftur að búa til alvöru, pjúra spoof-mynd, og They Came Together er sú besta og grillaðasta sem ég hef séð síðan Black Dynamite en á meira sameiginlegt með gömlu grilluðu klassíkunum frá Zucker-Abrahams liðinu á prímtíma sínum. Þökk sé hálfvitum eins og Jason Friedberg og Aron Seltzer, sem ætla sér endanlega að jarða geirann, er standardin ekki hár, en hér er myndin sem Date Movie hefði átt að vera á sínum tíma, nema þessi titill er betri.

Er myndin stanslaust fyndin? alls ekki, en þegar hún hittir í mark er hún viðbjóðslega fyndin. Skondin er hún þó og kætandi nánast allan tímann, í litlar 80 mínútur, og kryfur formúlur rómantískra gamanmynda í brillerandi mauk. Það er í raun ekki ein einasta sena í þessari mynd sem er ekki beint tekin úr sykurkrúttaðari rom-com mynd, ýkt um svona hundraðfalt. Hvort sem hún er ný, gömul, gróf, létt; gæjarnir á bakvið hana gerðu greinilega heimavinnu sína, þ.e.a.s. horft á fjallahæðir af svona ræmum og gera óspart grín að sölumótífi þeirra, stefnum, tilviljunum, lógík-gloppum og nær listinn langt um lengra. Þessi paródía er hvort tveggja hálfgert ástarbréf en meira svo flugbeitt niðurfelling, bókuð til þess að tryggja það að erfitt verður að líta á svona Hollywood flöff-myndir sömu augun aftur.

Einhverjir hafa þekkt leikstjórann David Wain síðan á dögum The State á MTV en hann hrinti sömuleiðis frá sér hina vanmetnu Wet Hot American Summer, hina skemmtilegu Role Models og síðan ekki-svo-skemmtilegu Wanderlust. Wain, titlaður einnig fyrir handritið, hefur dregið mest alla með sér sem unnu að Summer og kemst best upp með þvæluna sína vegna þess að stutt líður á milli brandara og atriða, og oft þegar einn djókur virðist ætla í eina átt, þá tekur hann u-beygju í aðra absúrd vídd.

Það þýðir ekkert að reyna að meðtaka myndina sem neitt annað en frásagnardrifna sketsamynd. Myndin er lúmskt blekkjandi í þessu, en alls ekki má taka persónurnar á nokkurn máta. Okkur á ekkert að verða annt um þær, skilja eða hneykslast yfir neinum ákvörðunum þeirra, í neinu djóki. Við eigum einungis að hlæja að þeim, og það er ekkert sérlega erfitt þegar Paul Rudd er í trylltu stuði og Amy Poehler ekkert síður, og bæði tvö eru frábær hérna – og sjálf með mikla reynslu á því að hafa tekið þátt í rómantísku flöffi, Rudd sérstaklega (en alltaf er hann jafn góður). Allir leikararnir virðast eins og þeir gætu ekki skemmt sér betur í vinnunni, ekki óskiljanlega. Michael Ian Black og Ed Helms standa einnig upp úr sem meistarar í því sem þeir gera best: leika hundleiðinlega gaura. Chris Meloni kætir líka umtalsvert og eignar sér klósettbrandara eins og fagmaður.

Helmingur steiktu línana sem fólkið kokkar þarna upp hefur örugglega verið spontant á settinu. Þegar atriðin virka ekki lenda þau með vandræðalegum, sársaukafullt þöglum hvelli. Maður fær þessa „kommon, þið getið mun betur en þetta…!“ tilfinningu í ljósi þess hvað mikil hnyttni ríkir yfir handritinu almennt.

Mel Brooks sagði einu sinni að besta leiðin að paródíu er að elska geirann sem þú ert að stæla, og Wain og hans fylgdarlið greinilega elskar og hatar og skotmarkið á sama tíma. Húmorinn nær ekki til allra, en merkilega er fínt að einhver svona mynd fór loksins í réttu áttina. Get heldur ekki sagt nei við svona hressum Rudd.

thessi

Besta senan:
Þegar óvæntu skoti var hleypt af brenglaðist ég úr hlátri.

2 athugasemdir við “They Came Together

  1. Fílaði hana svo sem og margt var algjörlega on-point. Hinsvegar fann ég enga tengingu við persónurnar og fannst allt mjög kalt. Ég veit að það er hugsunin en það dró mig úr myndinni og húmornum. Endirinn var samt æðislegur.

  2. Heimir:
    Mér finnst einmitt svo frábært að sjá grínmynd þora að taka persónurnar nákvæmlega ekkert alvarlega, en þá er hún auðvitað meira meðtekin sem ‘sketsamynd’.
    En ef við ættum að taka persónurnar alvarlega þá fengjum við ekki helminginn af þessum þroskaheft fyndnu aðstæðubröndurum („mömmuprófið“, headshot’ið o.fl.).

Sammála/ósammála?