Dracula Untold

Stærsti kosturinn við Dracula Untold frá byrjun er að hún gæti ekki með neinu móti vanhelgað goðsögn Brams Stoker meira heldur en margar, margar vondar bíómyndir hafa gert í gegnum árafjöldann (Dracula 2000, 3000, 3-D eftir Argento, Legacy, Blade 3, Van Helsing… svo örfátt sé talið), eða vampírur yfir höfuð, ef út í það er farið.

Burtséð frá því að líta út eins og óformlegi, karlmannlegri tvífari James McAvoy, þá kemur Luke Evans bara alls ekkert svo illa út og reynist vera stórfínn ‘Drakúla,’ í reyndar skelþunnri, óeftirminnilegri poppkornsmynd sem beint má henda í „Origin 101“ sarpinn þar sem hver og einn í salnum veit nákvæmlega hvert allt stefnir. Eini tilgangurinn er að stilla öllu upp fyrir enn fleiri ósögð ævintýri – sem ætla síðan að snara saman þekktustu Universal-kvikindin í sameiginlegan bíóheim, að hætti Marvel. Í miklu betri mynd hefði samt öll atburðarás þessarar myndar getað verið sýnd í korters-löngu flassbakki.

2428_TPF_00008R

Það er ekkert sérstaklega merkilegt eða ferskt við þessa „ósögðu“ útgáfu. Aðalkarakterinn er gerður að gallaðri hetju með grimma fortíð sem tekst á við umskiptingu sína, kosti og galla nýji kraftana og hann elskar konu sína og barn alveg yfirnáttúrulega mikið… Beisik. Lengra nær ekki persónusköpunin hjá honum. Og hvergi fær neinn annar neinn einhvern betri díl, getur hver kallað sig heppinn ef hann er nafngreindur oftar en einu sinni. Sumsé ómögulega góð mynd, en ekki síður svöl gegn hverjum kjánahrolli og rennur svo notalega hratt hjá, og hlaðin svo ágætum brellum, að voðalega erfitt er að kalla hana leiðinlega. Endaspretturinn er ákaflega líflegur og á fullu, mér til ánægju. Framleiðslugæðin skríða líka alveg yfir meðallag, eins og ég hefði nú verið til í að hlæja að þeim, en Dracula Untold er ekki nægilega mikil B-eða-C mynd í sér til þess.

Myndin tekur sig verulega alvarlega og tónninn er einhvers staðar grafinn í Underworld-fílingnum en ætlaður meira áhorfendum sem misstu sig yfir Snow White and the Huntsman. Leikararnir sem betur fer sýna einhvern smá lit á meðan þeir tala í klisjum og glíma við einhliða rullur. Dominic Cooper lætur það t.d. ekkert stoppa sig að vera persónuleikalaus og beint tekinn af lagernum frá því að sökkva sér í illsku sína af ánægju. Stórfurðulegt samt hvernig myndinni virðist ekkert geta verið meira skítsama um nánari tengingu hans við aðalkarakterinn, eða forsögu þeirra. Þetta á við um alla.

Að vísu er erfitt að dæma heimapiltinn hann Þorvald Davíð, því þó hann síist vel í umhverfi sitt og virðist vera mátulega einbeittur þarna, standandi oft nálægt Cooper, er hlutverkið ekkert annað en uppfylling, eins og flest eru. Gísli Örn upplifði svipað í Prince of Persia nema hann fékk þann heiður að leika sér oftar einn í rammanum, ekki það að Þorvaldur fari ekki prýðilega með allar þær fjórar setningar sem hann fær í heildina. Sarah Gadon (Cosmopolis, Enemy) er að öðru leyti ekki laus við allan sjarma sem eiginkona Drakúla, og sonur hans fær líka að sleppa. En á móti verður það bara meira fúlt að ekki skuli verið meira gert við þessar persónur.

Dracula Untold gæti vel móðgað marga bíópjúrista með einfaldleika sínum en fyrir mér svífur þessi miðaldar-meðalmennska á milli myndar sem er næstum því nógu sakleysislega skemmtileg til að kalla ágætis afþreyingu og blóð- og bitlausrar froðu sem hefði átt að gefa aðalleikaranum meira til að vinna með. Vonandi gefst betra tækifæri þá bara á því næst, en í besta falli er þessi er hundrað sinnum þolanlegri en I, Frankenstein.

fimm

Besta senan:
Liðsaukinn hjálpar.

 

*UPPFÆRT*
Universal er víst búið að skrappa þeim pælingum um að leyfa þessari mynd að vera með í þessum „Shared universe“ pælingum sínum. Fyrsta myndin í þeim flokki verður víst The Mummy með Tom Cruise.

Hjálpi okkur.

Ein athugasemd við “Dracula Untold

Sammála/ósammála?