Annabelle

„Dúkkan er krípí.“

„Dúkkan er krípí…“

„Finnst ykkur hún ekki krípí?!?“

Svona ímynda ég mér hugarfarið hjá framleiðendum og markmiðið sem þeir settu sér. Hugmyndin að tengja saman tvær sjálfstæðar hrollvekjur er sniðug og skemmtileg en ekki ef eitt standard færibandseintak fer síðan bara að fóðra einhverju öðru slíku eintaki sem tekur lausan forsöguvinkil.

The Conjuring var ágæt en hlaut einhverra hluta vegna eins konar kóngatitil og hæp-hjúp innan geira síns. Fyrir mér segir það bara minna um hennar gæði og meira um ástandið á hinum vestræna horror í dag, þeim sem oftast gengur út á að fá smástelpur (og smástelpuna í körlunum) til að skjótast úr sætum sínum. Posulínsdúkkan Annabelle kom satt að segja miklu, miklu betur út í örskömmtunum í hinni myndinni heldur en í sinni eigin, en flestir í kjarnahópnum sækjast meira eða minna eftir ódýru draugahúsi og heppnari eru þeir sem eru svo óreyndir í svona myndum að stuldurinn verður hvergi allur eins áberandi.

Einhvers staðar þarna má finna fyrir því að reynt sé að leggja einhvers konar effort í óhugnaðinn og múdið, og myndin má eiga það að hún pikkar sig talsvert betur upp um leið og alvöru demóni er kominn til leiks. Að auki er mest truflandi kaflinn sá sem kemur litlu yfirnáttúrulegu við, heldur bara dæmigerðri heimainnrás. Brögðin (og bregðurnar) – ná stundum að trufla létt til en samt aldrei neinum ásættanlegum spennuhæðum, sem gerist líka þegar þær eru alflestar fyrirsjáanlegar, eins og flest annað.

Meiriháttar fagra aðalleikkonan með viðeigandi nafnið Annabelle (…Wallis) stendur sig reyndar prýðilega, og laus við nokkurra niðurlægingu. Mesta ábyrgðin lendir á henni þegar kemur að hræðsluköstum og öskri en óttinn í augum hennar er sannfærandi og tekst henni hér um bil að yfirstíga það hversu týpískt bæði hlutverkið og handritið er. Nota bene, þetta er sú dama sem ungi Charles Xavier reyndi fyrst við í X: First Class.

Sérlega ósjarmerandi maður að nafni Ward Horton leikur eiginmanninn sem lætur sig hverfa hálfa reglulega svo móðirin og nýfæddi krakkinn fái helst að kenna á því. Ákvörðunin að hafa pabbann svona mikið fjarverandi, þ.a.l. fókusinn meira á leikkonuna, var klárlega sú rétta því þessi Horton skaðar bara á sekúndu-basis með stífum flutningi og auðgleymanlegu nærveru sinni. Aukaleikararnir eru töluvert skárri en allir sem einn eru tímastilltar klisjur. Og því dúllulegra sem barnið er í myndinni, því auðveldari verður hræðslu- og bregðubeitan.

annabelle-movie-4-600x405

Leikstjóri Annabelle, John Leonetti, ætti að hafa lært eitthvað af trixunum við það að horfa á James Wan segja sér fyrir verkum enda sá hann um kvikmyndatökuna í Conjuring (…en merkilegra þykir mér að þessi sami maður gerði draslepíkina Mortal Kombat: Annihalation). Það sem þessi mynd hefur fram yfir sambærilegar týpur er ágætis ímyndunarafl í myndatökunni en margt af vinnubrögðum Leonettis er beint tekið upp úr foreldramyndinni. Með því að feila samt tókst aðstandendum því ætlunarverki að láta þegar ofmetna hrollvekju líka helmingi betur út í samanburði. Þar gat grunnhugmyndin að lágmarki tollið í bíómyndalengd.

Annabelle er rútína fyrir allan aurinn, og hefur ákveðinn takt við sig eins og framleiðendur ákváðu bara flýta henni sem allra fyrst í gegnum framleiðsluna. Leikfangið fyrst, síðan meinta hræðslan, svo innihaldið – áður en áhorfendur gleyma tengingunni. Utan þess að ég mun ég aldrei skilja hvaða sjónskerta manneskja (þrátt fyrir aðra períódu og það allt) sér ekkert rangt við óbjóðinn sem það er að gefa ungabarni dúkku af þessari gerð, og hvað þá nota sem æpandi skraut í herbergi þess. En eins og áður nefndi er dúkkan – eða hennar tilheyrandi djöflar – bara ekki nóg til að halda effektinum út í einn og hálfan tíma. Persónulega fannst mér meiri hræðsla og betri spennubygging fylgja saumavélinni sem móðirin notaði.

fjarki

Besta senan:
Martröð í nágrannahúsinu.

Sammála/ósammála?