Afinn

Þegar einleikur er færður upp á hvíta tjaldið í nýjum búningi er ósköp eðlilegt að niðurstaðan sé meira eða minna sett saman úr uppfyllingum. En þó titlaði afinn megi og eigi að vera gamall, áttavilltur og lúinn er það ekkert sem skipar því að húmorinn þurfi að vera það líka.

Alveg er nógu erfitt líka að jafna út sannfærandi „drama“ með svona kómík (til að lauma inn boðskap og gefa þessu öllu einhverja samantekt) en í tilfellinu hér er fyrirsjáanlegi og ótrúverðugi farsagangurinn ekki að gera neitt auðveldara hvað svoleiðis varðar.

Það er eitthvað hálfskrítið við það að sjá svona alíslenska mynd sem þráir svo grimmt að festa sig við amerískar formúlur, slíkar sem virðast beinteknar úr litríkum en rembingslegum grínþætti. Bjarni Haukur er víst eitthvað voða hrifinn af þessu formatti. Hann útbjó smáseríuna Martein í kringum slíkan grunn, en trúlega vegna þess að enginn sá þá þætti (eða viðurkennir að hann hafi séð þá – ojbara) endurtekur hann sig í þessu.

Að mörgu leyti er Afinn eins og skandinavísk „Fockers“ mynd sem dauðþráir að vera nær Alexander Payne-verkunum; sneisafull af gervirjóma, ófyndnu, úreltu aðstæðugríni en á móti reyndar ljúfum, sannleiksríkum spekingskornum í boði Sigga Sigurjóns. Bara nokkrum.

afinn-matarboð
Siggi er kostulegur og trúverðugur, vandræðalaus þegar púðurslausir brandarar hrapa í gólfið og ber sig fínt í alvarlegri gírnum, sjálfsagt betur. Handritið er annars vegar honum, hans persónu og flestum öðrum að algeru falli. Leikarar eins og Steini Bach, Steindi Jr., Tinna Sverris og Pálmi Gests eru rétt valin í staðalhlutverk, aðrir koma bara og fara án ummerkja. Stemninguna vantar annars ekki hjá liðinu, bara djókana sem bjóða ekki oftast upp á það að einhver bæti klassískum krybbuhljóðum seinna inn í senurnar.

Formúlurnar toga þar að auki hvern einasta karakter og ýmsa brandara á svo asnalega, tilviljanarkennda staði, og sumar ákvarðanir persóna eru alltof pínlegar til þess að vera fyndnar. Kannski er það að hluta til vegna þess að seinnipartinn er í alvörunni ætlast til þess að líta á sandpappírs-þunnu karakterana sem þrívíðar, elskulegar týpur. Sá eini sem sleppur þar er vesalings afinn, sem er oftar en ekki málaður sem algjör skíthæll innan um fólk sem leyfir honum aldrei að eiga skoðun fyrir sig, þó hann gjarnan tali oft án þess að hugsa. Svo loks þegar hann tekur jákvæða, raunsæja og þroskandi breytingu snúast annaðhvort allir gegn honum eða hrasar hann niður í enn meiri aulaskap. Eiginkonan í myndinni fór sérlega í mig, þó ég hafi ekkert út á leikkonuna að setja. Merkilega er lítið sem ekkert gert úr tengslunum við afabörnin.

afinn-siggi-sig-spítali
Siggi er annars vegar alltaf verulega helgaður vinnunni sinni; á skjá, sviði, í gríni eða alvöru, sama hvert hann fer og hvað hann hefur í höndunum. Afslappaður, ávallt viðkunnanlegur en kann að tapa sér í sínu. Sorglegt er þess vegna að sjá Afann ekki verða að neinu öðru en bragðlausri uppskriftarmynd, þegar hana langar að hafa eitthvað merkilegt að segja og hefur jafnvel flesta burði til þess í grunninum. Meira að segja upptökustíllinn hefur einhvern einkennilegan tón við sig eins og sé búið að soga einhverja lífsáru út úr römmunum, minnir mig svolítið á hvernig Ófeigur var tekin upp; ekki of amatör-legt (sjá t.d. Jóhannes), en þó of þurrt fyrir svona létt efni.

Afinn er annars gerður til þess að hitta í mark hjá þeim sem gera kannski ekkert of háar kröfur til hans. Þreyttir og hugmyndasnauðir brandarar, hvort það varði niðurgang, Viagra eða þvaglátsvandamál, skera sig annars miklu meira úr þeim sem eru eitthvað óvæntari, og ég reyndar játa að allt visual-grín með líkbílnum sem stöðugt eltir afann er nokkuð fyndið. En eins vel og upplífgandi skilaboð myndarinnar meina þá er erfitt að móta ‘fílgúdd’ mynd þegar reynt er lítið og mikið er reynt á sig til skiptis. Útkoman er því ekki nema meinlaus ómerkilegheit, og eina leiðin til þess að mæla með henni er að taka það fram að velja skal hana alltaf fram yfir undanförnu gamanmyndirnar með Ladda. Afinn sjálfur er næstum því þess virði, myndin ekki.

mehh

Vill annars svo til að fyrir mig persónulega sviptir enginn eina sanna afatitlinum af Erni Árna.
Eitthvað kynslóðadæmi held ég…

Besta senan:
Pálmi Gestsson í bullandi stuði í kínverskum náttslopp.

Rönner up:
Þegar Vilhelm Neto sást steinsofandi í kennslustundinni. Þar sem ég man ekki hvenær ég horfði seinast á íslenska mynd án þess að sjá hann (þ.e.a.s. Mitrovik) dúkka upp í ramma held ég að hann sé orðinn uppáhalds statistinn minn.

Sammála/ósammála?