Gone Girl

[Ath. Ef þú veist nákvæmlega EKKERT um þessa mynd, burtséð frá hver leikstýrir henni og hverjir leika, og vilt halda því þannig (því þú ættir sko að gjöra svo vel og halda því þannig), ekki þá lesa umfjöllunina, þótt séu í raun engir svakalegir spillar í henni. Skrollaðu bara að einkunninni og drattastu til að sjá myndina!]

Þegar David Fincher „feilar“ með myndum sem eru ekkert alltof frábærar (sbr. Alien 3, The Game, Panic Room, Benjamin Button og The Girl with the Dragon Tattoo), þá rís hann yfirleitt stoltur upp með nýja eftirá sem er þvílíkt framúrskarandi, ef ekki algjörlega brilliant.

Þannig hef ég verið svolítið að upplifa hann gegnum árin, miðað við óforskömmuðu ást mína á sterkustu verkefnum hans. Í hverju einasta tilfelli er þó vandað til verka hvað leik, stíl, áferð og smámunasemi varðar (t.a.m. er gæinn allt annað en sparsamur á tökufjölda), en þegar svartsýna snilligáfa hans mætir grípandi, marglaga efnistökum er hann óstöðvandi. Gone Girl er enn eina þyrnda en ógleymanlega rósin í hnappagatið hjá honum; djörf, sjokkerandi, umhugsunarverð og á meðan sú prakkaralegasta sem skrifast á manninn síðan hann gerði Fight Club.

gone-girl-movie-still-11

Gone Girl er ýmislegt í einu; dramatryllir, sakamálasaga, erótísk spennusaga að hluta til, hárbeitt ádeila á fjölmiðla, dómskerfið, sviðsljóssgrímur, þær yfirborðskenndu væntingar sem eru oft gerðar til hjónabanda, til dæmis þráhyggju meginstraumsins að sjá allt hnýtt með silfurslaufu, hlutverk kynjanna og annað. Stórt, hnyttið hlass en umfram allt er hér að ræða meistaralega skoðun á niðurrifi hjúskaparlífs, kynjahlutverkum og manipúleringu. Bæði kemur þetta eins og ítarleg krufning hjá bókahöfundinum og tilraun til að gera skepnulega grín að því. Það er dökki húmor Finchers, aginn hans, óhuggulega (hér um bil kynkalda…) andrúmsloftið, tóneyrað, tök á krefjandi leik og hráa raunsæi sem ávísar að hann sé fullkominn kvikmyndagerðarmaður til að færa þessa hreinskilnu, rugluðu og stórspennandi skáldsögu hennar Gyllian Flynn á skjáinn.

Flynn sér sjálf um að laga sína eigin bók að kvikmyndahandriti, og tókst glæsilega til að þjappa og e.t.v. betrumbæta. Á rausnarlegum sýningartíma missir atburðarásin aldrei dampinn og dælast stanslaust nýjar upplýsingar sem leyfa efninu að taka krappa beygju í allt aðra átt en lá að augum. Ekki eru allar stefnur ófyrirsjáanlegar en flestar svo hugmyndaríkar og úthugsaðar að þær ganga upp í heildinni. Frásögninni er almennt snilldarlega stillt upp, sérstaklega hvernig hún nær tökum á „Hann segir/hún segir“ skiptingunni, og fylgir ekki snefill með af fitu til að draga efnið út eða fylla upp í. Fyrri helmingurinn er viljandi byggður upp eins og dæmigerð formúla en fyrr en varir eru byrjaðar að tínast inn útúrsnúningar. Ný svör eða plottþróanir kastast að manni eins og laukur sem stöðugt má flétta nýjum lögum af og grefur húmorinn sig mjög lúmskt oft á milli lína.

gone-girl-movie-still-14

Má nefnilega vera að atburðarásin sé fjarstæðukennd og á tíðum kómískt langsótt en tilgangurinn þar þjónar bara samantektinni betur, og andlega þrumusparkið sem lokakaflinn skilur eftir varir ekki stutt, frekar en öll sagan, vísandi á það hversu grimmt og lengi er hægt að ræða allegoríurnar og persónurnar eftirá. Tæknileg vinnsla, útlit og annað er – fyrirsjáanlega – óaðfinnanlegt. Múdið er alveg týpískt/klassískt Fincher, eins og alltaf sé slökkt á einhverjum ljósaperum í hverri senu. Hrá og dökk palletta en smellpassar fyrir efnið og tónlistin styrkir á allan veg.

Annað sem þarf ekki að hugsa tvisvar um er að Ben Affleck hefur aldrei verið betri á ferlinum – og það kemur frá manni sem lengi litið á hann sem rangan mann í réttum hlutverkum. Í Gone Girl er persóna hans sama og sérsniðin, þó enginn eigni sér myndina í líkingu við hana Rosamund Pike. Ef Óskarstilnefning bankar ekki að hennar dyrum hefur gleymst að múta einhverjum mikilvægum í Akademíunni, en að því frátöldu er leikkonan bara ótrúleg, drifin af ýmsum einkennum í flóknum persónuprófíl, fyrir utan auðvitað hversu pjúra gaman er að fylgjast með hennar karakter, hliðum og óútreiknanlegu málum. Sama má að vísu segja um Affleck en hennar hlutverk hefur skiljanlega betra „edge“ við sig. Í sitthvoru lagi endalaust sannfærandi en saman smella þau sterkt; með kemistríuna, kemistríuleysið þegar þess þörf er á og allt tilheyrandi sem sýður í kolli beggja aðila. Hér nefnilega saga sem undirstrikar það á mjög svo krassandi máta að við getum aldrei vitað nákvæmlega hvað betri/verri helmingur okkar er að hugsa hálfan daginn.

gone-girl-movie-picture-3Ýmsir sjónvarpsleikarar – og aðrir sem snúa hressilega upp á föstu ímyndir sínar – fylla sömuleiðis gallalaust upp í smærri en ekki síður mikilvæg hlutverk, þar á meðal Tyler Perry og Neil Patrick Harris. Báðir tveir gætu ekki virkað þarna betur. Perry gæti vel verið einn svalasti karakter sem stigið hefur fæti í Fincher-mynd, á hann líka eina bestu setninguna í allri myndinni sem súmmar skothelt upp helstu karakterana í henni. Carrie Coon og Kim Dickens eru líka frábærar, m.a.s. Patrick Fugit er merkilega minnisstæður í aukarullu sem hefði allt eins getað orðið að uppfyllingu.

Ef þú veist fyrirfram hvað gerist í Gone Girl sést það bara enn betur hvað púslin leggjast þétt að saman og ef ekki er þetta snargeðveik, fullorðins rússíbanareið sem skilur haug eftir sig. Myndin er reyndar ekki fyrir hvern sem er en ef sagan grípur þig snöggt og allir undirtónar eða „súbtextar“ meira svo á það sér engan líka hvað hún er truflandi, dáleiðandi, snjöll, ljúffenglega bitur og djöfullega vönduð. Þarna þekki ég þig, Fincher!

ficht

Besta senan:
Loka-confrontið.

Ein athugasemd við “Gone Girl

  1. Góð grein. Gone Girl er að mínu mati besta mynd 2014 hingað til og besta mynd Finchers.

Sammála/ósammála?