Borgríki 2

Vel má vera að myndir eins og Borgríki 2 séu ekki á hverju strái á Klakanum (ekkert síður vegna þess að þetta er eina íslenska framhaldsmyndin sem er ekki úr gamanmynda- eða barnageiranum) en það er svo sannarlega nóg til af þeim á heimsvísu, sér í lagi frá Bandaríkjunum.

Oft höfum við séð þetta í sjónvarpsþáttum eða bíómyndum, bara ekki héðan, eins og hinn gígantíski klisjusarpur sem fylgir þessu sé fyrst núna að grafa sig inn í okkar kvikmyndagerð. Ímyndið ykkur ef Blóðhefnd hefði verið með 500% hærra fjármagni. Leitt að enginn hafi séð hana þó.

Ég hef kynnst því í gegnum samræður við ótalmarga að fyrri Borgríkismyndin er ekki séð sem mikið meira en stílíserað miðjumoð, kannski trúverðug og töff á einvern máta en stuttu seinna kom síðan Svartur á leik og valtaði yfir hana með því að sýna hvernig skal rétt fara að því að gera undirheimainnlit í Reykjavík, og gera það með miklum stæl.

Sennilega er ég hrifnari af fyrri mynd Olafs De Fleur heldur en flestir því ég kann verulega að meta hvað kvikmyndagerðarmanninum tókst að gera fyrir lítinn pening, hvernig hann bar fram gífurlega óreiðu með ýmum spennandi senum, karakterþróunum og öðru. Ekkert stórbrotin mynd neitt, en ótvíræður Eddusigurvegari við hlið framhaldsmyndarinnar sem trekkir upp hvern kjánahrollinn á eftir öðrum þegar ég er viss um að þetta átti að vera harðsoðið, grípandi og víst voða tilfinningaþrungið.

Klisjurnar virðast skrifa sig sjálfar. Darri Ingólfs leikur nýliðann í löggunni sem er illa liðinn af harðari, reyndari gæjanum (Hilmir Snær) bara því að pabbi hans er „legend“ (orðrétt kvótað) í sama fagi. Við bætast svo kunnuglegu persónurnar og upphefst stöðugur eltingaleikur og létt kómískar endurtekningar á yfirheyrslum, árásum, hótunum, mútunum, hugrænum typpakeppnum og ráfi vændiskvenna. Það er ekki langsótt að segja að Borgríki 2 sé meira af hinu sama, bara grynnra, óðara og leiðinlegra.

Handritið svipar til ritgerðarsmíðar sem hefur unnið alla heimildarvinnu sína en með klúðurslegum efnistökum. Senur fara ekki margar til spillis sökum þess að heildarrennslið er bratt og loftþétt, og ég skal gefa Olaf það að vera með talsvert einbeittari strúktúr heldur en í nr. 1. En Borgríki 2 yfirstígur sig samt í A-B formúlum. Markmiðin eru sem betur fer skýr hjá hverjum karakter en merkilega aðhlátursefnið liggur í ,,exposition“ ofhleðslu (þar sem allt er sérstaklega stafað út fyrir áhorfandann, hér á kostnað trúverðugleikans eins og hann leggur sig…). Alltaf er frábær tilbreyting að sjá íslenska mynd sem er ekki stefnulaus eða drollandi í hversdagsblús en ekki þegar hún er farin að módela sig eftir þegar margnotuðum fyrirmyndum með lítið sem ekkert hugmyndaflug né organísk einkenni til að skera sig úr.

Það er varla senu að finna sem á sér ekki rætur að rekja til miklu betri mynda, að hluta til vegna þess að formúlurnar eru tuggðar svo makalaust oní mann. Stærsta gryfjan sem hún dettur í er að mestu hvað hún tekur sig óhemju alvarlega, eðlilega, með slettuóðu samræðum sínum. Allt í einu er þarna smávægilegur vandi úr fyrri myndinni búinn að breiðast út allan sýningartímann á „sjálfstæða“ framhaldinu.

Eins og sú fyrri hafi ekki átt í nægum erfiðleikum með að gefa stórum persónufjölda tíma til að skína til fulls þá bætast við ýmis ný nöfn núna. Darri Ingólfsson er t.a.m. nýi frontmaðurinn og algjörlega persónuleikasnauður út fyrir „intense“ augnsvipinn sem hann hefur æft sig í alveg síðan Boðberi leit dagsins ljós. Siggi Sigurjóns og Ágústa Eva eru mjög fín og gera allt sem hægt er úr standard efnivið. Serbneski bifvélavirkinn Zlatko Krickic er enn sá besti á skjánum; náttúrulegur, áreynslulaus en dekkaði meira eða minna allan karakter sinn í fyrri myndinni og endurtekur sig því óskaplega, að vísu faglega. Hefði alveg hjálpað að fókusa meira á konuna hans, svona einu sinni.

Ingvar E. fær aðeins að reyna meira á berskjölduðu hlið sína og spilar mikilvæga rullu í söguþræðinum en gerir varla neitt allan tímann (nema sé verið að byggja hann upp fyrir Borgríki 3?), og það gerir það eiginlega enn óskiljanlegra að hann gegni hlutverki „sögumanns“ í fyrstu og síðustu senunni. Hilmir Snær er eins og gangandi klisja, rennd svo í gegnum Google Translate og gæti allt eins verið partur af Fóstbræðrakets. Ekki slæmur, bara semí lúðalegur þegar hann á að vera allt nema það. Ég er mikill aðdáandi Þorbjargar Helgu úr Málmhaus og Tedda Júl og þau skipta sögunni hellingsmáli en handritið kemur fram við þau eins og uppfyllingar sem eiga að undirstrika alvöruna.

Útlitslega séð er Borgríki 2 í fínum málum. Hún nýtir fjármagnið sitt vel, áhættuatriðin koma vel út, skorið fínt og sæmilegt högg í flestum ofbeldissenunum. Kvikmyndatakan er annars vegar mjög upp og niður, þreytulega stjórnlaus í hristingnum út mest alla lengdina. Olaf reynir sitt besta að draga út sinn innri Paul Greengrass fyrir efnivið sem dauðlangar að vera Scorsese-eskur. Í eltingarleikjunum er hristingurinn sérlega þreytandi, og ég trúi því heldur ekki að það sé komið 2014 og enn á íslensk spennumynd eftir að toppa bílaeltingaleikinn úr Löggulíf.

Trúlega er Borgríki 2 betri en sjálfsagt ruglingslegri ef viðkomandi hefur ekki séð fyrri myndina, nema hann sé mikinn gefinn fyrir að festast skilyrðislaust í ýmsum spennu- og dramaþáttum þar sem óþokkar og réttlætissinnar stangast á. Væri þessi mynd manneskja væri hún standandi með öxlina við vegg, sólgleraugun uppi að kvöldi til og smjattandi tyggjói tautandi ,,Ég er sko alvöru gangster!“. Tilkomumikil á marga vegu, stórar tæknilegar framfarir fyrir De Fleur en gangverkin eru steríl og svikamyllurnar fyrirsjáanlegar. Ef budget-ið er strípað burt er hér einfaldlega ekkert annað en fínustu leikarar í Löggu- og bófaleik sem fer beint eftir reglubókinni.

fjarki

Besta senan:
Hammer time!
Ái.

Sammála/ósammála?