Nightcrawler

Jake Gyllenhaal er búinn að vera á ótrúlegu róli seinustu ár. Reyndar hefur maðurinn alltaf sýnt fram á truflaða hæfileika, en nýlega, í smærri myndum eins og Enemy og (sérstaklega!) Prisoners, hefur hann fundið nýja míkróþætti til þess að mastera í grípandi í hlutverkavali. Síðan kemur eitthvað eins og Nightcrawler, og gaurinn hefur barasta aldrei verið betri, eða hingað til átt betra hlutverk! Minnisstætt kombó, vægast sagt.

Hér er mynd sem annaðhvort rís eða fellur með lykilframmistöðunni einni og karakternum sem hún snýst öll í kringum. Gyllenhaal er kominn í svaka Taxi Driver-legan performans-trans í hlutverki eins athyglisverðasta og skemmtilegasta sósíópata ársins, og, eins og sjá má á kinnbeinunum og augunum, hefur hann grennst skuggalega fyrir rulluna (10 kíló eða svo…). Það hversu vel hann virkar í ágengu, víruðu og magnandi hegðun sinni og metnaði sem allslausi en upprennandi glæpafréttamaðurinn Lou Bloom – og að auki hvernig leikarinn hættir aldrei að verða spennandi til áhorfs  – sýnir aðeins fram á hversu frábærlega þetta handrit gengur upp.

Samtölin eru skörp, skilaboðin skýr og úrvinnslan bítandi. Örugg leikstjórn snarar þessu betur saman í eitthvað sem skilur fullt eftir sig, og það sem truflar mig ef til vill mest við þetta allt er hvernig Bloom er alls ekki svo óviðkunnanlegur eða ógeðfelldur náungi á yfirborðinu. En á móti er hann erfiður, örvæntingafullur og andar að sér kapítalismanum eins og trúarbragði. Hann þekkir heiminn, skipuleggur sig í hel, drífur sig áfram í raunhæfum markmiðum með makalausri orðheppni en ófær um alla mannlega samkennd. Með öðrum orðum: óstöðvandi í sínu fagi.

old-couple

Nightcrawler er leikstjórafrumraun handritshöfundarins Dan Gilroy (litli bróðir Tonys Gilroy, sem gerði Michael Clayton m.a. og átti stóran hlut í Bourne-seríunni, eflaust fullstóran). Með aðstoð snillingsins Robert Elswit á kamerunni kvikmyndar Gilroy næturveröld L.A. borgar með ákaflega stílískum hætti án þess að ofgera neitt og James Newton Howard skilar af sér flottri tónlist sem rammar inn andrúmsloftinu og gefur kalda tóninn. Það er einmitt tónninn í heildina sem er svo brothættur fyrir Gilroy, að hluta til vegna þess að myndina má umfram allt sjá sem kolsvarta gamanmynd, en leikstjórinn samstillir sig alveg við Bloom og leyfir honum svolítið að stjórna ferðinni. Ekki síður aðdáunarvert er hvernig Gilroy sleppir aðalmanninum sínum lausum í ýmsum löngum tökum þar sem honum er leyft að mónólóga yfir sig án erfiða.

En þó Gyllenhaal slái hvergi feilnótu má heldur ekki rífa því undan aukaleikurunum hversu miklu þeir bæta við. Rene Russo hefur ekki í mörg ár fengið að skína af viti en sökum þess að vera spúsa leikstjórans fær hún skemmtilegan karakter og díalog til að leika sér með. Meira að segja er hún sjálf við það að hreppa senunni frá Jake á vissum tímapunktum og tekur sig frábærlega út sem blaðakona sem virðist óhóflega mikið vera undir valdi aðalpersónunnar. Riz Ahmed er líka þrælgóður sem týndi, treggáfaði „lærlingur“ Blooms, ein af nokkrum röddum skynseminnar, í faginu sem er öruggt að segja að sé ekki allra. Bill Paxton er sömuleiðis ógleymanlegur sem helsti keppinautur Blooms með „swagger-ið“ sitt alveg á hreinu.

Screen-Shot-2014-10-22-at-3-29-30-PM

Hver áhorfandi metur í raun fyrir sig hvort hér sé létt og ljót harmssaga á ferð eða stórfyndin mynd um velgengni og metnað, ef hún skautar ekki þarna einhvern milliveg þ.e.a.s. Bloom er málaður út frá öllum hliðum til að gefa honum réttu dýptina sem þarf til að halda sögunni og mótiveringum hans á þægilegu floti en handrit Gilroy gætir þess að aldrei kjafta frá meiru en þarf. Það er ýmislegt óútskýrt við Bloom, sérstaklega með baksögu hans og annað, en myndin og handritið verður einungis betra fyrir vikið því það sést langar leiðir hvert þetta allt stefnir hjá honum.

Af neo-noir mynd að vera er Nightcrawler kannski ekki hröð í hefðbundinni merkingu en flæðið er 100% fitusnautt og rennur hún suddalega bratt í gegn, og þrælskemmtileg allan tímann. Gilroy og Gyllenhaal hafa í sameiningu, með ómetanlegum liðsauka, skapað dökka, geðbilaða, óhugnanlega realíska, sjúklega kómíska mynd og með djúsí ádeilu á sjokk-áráttu fjölmiðla ofan á það. Gone Girl er sumsé ekki eina (magnaða) ræman í haust sem hlýtur akkúrat sömu lýsingu, þó hér sé meira sótt í eitthvað í takt við Network frekar en annað. Heldur er ekki af ástæðulausu að dregnar séu líkingar við Taxi Driver. Fyrir mitt leyti er Nightcrawler flugbeitt, titrandi af ákveðinni orku og merkilega brilljant. Kvikmyndaárið 2014 verður tilbeðið með enn meiri maníu ef þessi lendir ekki einhvers staðar á topplistanum.

brill

Besta senan:
Þær eru nokkrar, en valkvíðans vegna segi ég ‘Veitingastaðurinn.’

Sammála/ósammála?