John Wick

Allir sem elska flottar B-hasarmyndir eiga að eðlisfari ekki erfitt með að segja nei við góðum hefndarþriller. Hann þarf ekki einu sinni að vera svo góður, bara naglharður, helst vel gerður (best þá þannig að fyrirgefa klisjurnar) og helskemmtilegur. John Wick kemur þar eins og kallaður, tryllir og skemmtir með fókuseruðu reiðinni og sérsetti af hæfileikum sem á besta degi gæti ábyggilega útrýmt öllu Expendables-liðinu fyrir hádegi.

Fljótt kemst það hér til skila – og dásamlega svo – hversu ógeðslega vond hugmynd það er að abbast upp á sorgmæddan Keanu. Líka er bara eitthvað svo gaman að sjá einhvern viðkunnanlegasta og áhugsamasta manninn í bransanum rísa aftur upp og vera megasvalur á skjánum, eitthvað sem hefur ekki gerst síðan Contantine eða The Matrix. Löngu var sumé kominn tími á svoleiðis eftir katastrófuna sem hét 47 Ronin en með John Wick hefur Keanu Reeves aldrei fyrr verið einbeittari í töffarahlutverki.

Þessi mynd er hans útgáfa af Taken, Payback og – á vissu leveli – Shoot ‘Em Up (bara alls ekki eins einhæf). En utan þess að fá fullt af gömlum hráefnum lánað héðan og þaðan eða út um allt, þá virkar hún samt sem áður fersk, stútfull af orku, með geggjaðan takt (þessi músík…!) og er óneitanlega faglega samsett yfirhöfuð og kóríógröffuð.

51377230

Reeves er rétt aðeins einn þriðjungur þeirra sem fær kreditið á allri þessari geðveiki – ekki það að sé ekki nóg af öðru fylgdarliði hérna sem bara betrumbætir. Hinir meistarnir á bakvið John Wick eru (hinir sorglega lítt þekktu… þar til nú) Chad Stahelski og David Leitch. Stahelski er margreyndur áhættuleikari, slagsmálaþjálfari og second-unit leikstjóri – auk þess að vera gaurinn sem framkvæmdi öll hættulegustu áhættuatriðin sem Neo í Matrix 2 og 3 (giskið við hvern hann bondaði við þá…). Hann einn er titlaður sem leikstjórinn en í rauninni er myndin samvinnuverkefni hans og Leitch, sem sjálfur er þrælvanur áhættuleikstjóri og margt, margt fleira. Ofbeldisveislan sem þessi flotta þrenning fagmanna heldur nýtur sín í tætlur með allt púðrið sem hefur verið lagt í slagsmálin, byssubardagana, eins-manns árásirnar á hvern vesalings lífvörðinn á eftir öðrum… og byssuslagsmálin!

Myndin er ferlega stílísk, sprettir látlaust, kemur sér beint að efninu og treður nægilega mikið af óvæntum uppákomum – bæði í hásarkláminu og þess á milli  – til að myndi beri einkenni sem hún getur alveg kallað sín eigin. Hún er líka bara andskoti flott skotin, hljóðsett og okkar eigin Elísabet Ronaldsdóttir (Contraband) gerir stöku sinnum algjör kraftaverk með þessa klippingu, sem og maníuna sem hún þarf að sjá um í skotheldu og þægilegu flæði en innan margra ofbeldissena sem aldrei skippa of hratt milli ramma. Annað en margar slagsmálaóðar spennumyndir sér maður alltaf hvað er í gangi hér, og hefði sársaukasprengjan Raid 2 ekki plantað sínu flaggi fyrr væri John Wick harðasta hasarmyndin á árinu. Kaflinn í skemmtiklúbbnum er heill og sér bara míkró hasarmeistarastykki.

51377230 (1)

Söguþráðurinn hefur líka svo magnað og einfalt „húkk“, og þó myndin hefði ekki fjallað um annað en brotinn, „vondan“ gæja sem hefnir sín á verri mönnum sem drepa hvolpinn hans, þá er mjög auðveldur vegur fyrir sympatík og stuðning áhorfandans. Sem betur fer hefur John Wick sér aðeins fleiri hluti í huga og í öllu líkfallinu hefur vel tekist að byggja úthugsaðan glæpaheim í kringum aðalkarakterinn. Allir aukaleikarar skipta miklu máli þar og eru margir furðu eftirminnilegir, eins og Adrianne Palecki, John Leguizamo og Ian McShane. Willem Dafoe og Mikael ‘Millenium’ Nyqvist eru fantagóðir, Nyqvist er þar með loksins orðinn ekki bara sannfærandi heldur skemmtilegur á enskri tungu. Hann gat allt eins verið sofandi í Abduction og var lítið eftirminnilegri Ghost Protocol. Allt annar bragur á honum nú.

Myndin hefur líka mikinn húmor fyrir sér en á til í vissum tilfellum að hrasa og jaða við hallærisleika, allra helst þegar tekin er upp gömul manó-a-manó klisjuhefð (hugsið um Lethal Weapon 1) sem Jack Reacher brenndi sig seinast á. En í svona 80% tilfellana á móti er þessi mynd of örugg með sig og fjúríus til að vera of lengi hallærisleg.

4072

Hasarunnendur hljóta að vera í einhverju verra skapi ef þeir kunna ekki að meta John Wick. Handritið m.a.s. hæpar hann svo yndislega upp í kynningarhlutanum og leggur talsverða væntingarþyngd á þessa óstöðvandi drápsvél sem Wick er („He’s not exactly the Boogeyman… He’s the one you send to kill the Boogeyman.“). Reeves er kannski ekkert alltaf fullkominn í dramahlutanum frekar en vanalega en hann leggur allt á sig og stendur hann undir öllum loforðum sínum á sýningartímanum.

John Wick er klárlega myndin sem hún vill vera, og ruglað góð er hún.

atta

Besta senan:
Klúbba-raid’ið. Tær hápunktur.

Sammála/ósammála?