Interstellar

Þegar Christopher Nolan gefur út nýja kvikmynd er það brjálað tilhlökkunarefni á meðal umtalsvert margra kvikmyndaáhugamanna. En það á reyndar við um alla leikstjóra-handritshöfunda sem hafa gert það að sinni atvinnu að kortleggja út sögur með stórum hugmyndum, gáfulega ofnum og flæktum framvindum með sterkum þemukjarna. Leitt bara hversu fáir komst upp með að gera slíkar myndir fyrir svona fjallaupphæðir af peningum.

Þess vegna er það ekki lítið sagt að Interstellar sé ótvírætt sú metnaðarfyllsta mynd sem Nolan hefur merkt sjálfum sér hingað til, einmitt þegar einhverjum hefði þótt skynsamlegra að þrepa sig aftur niður í smærri myndir eftir tröllvaxna lokahnykkinn á Dark Knight-trílógíunni sinni núna síðast (og ég – annað en furðulega margir – dýrka Rises enn). En með Interstellar horfir Nolan hátt upp til himins, beinir athyglinni að svo mikið sem örlögum mannkynsins og stígur svo langt út fyrir hnöttinn í stórglæsilegum óði til gamaldags vísindaskáldsagna. Úr verður látlaus og hugrakkur tilfinningarússíbani með hausinn þétt skrúfaðan á og beina tengingu við hjartarætur sínar. Líka vill svo skemmtilega til að hún á fullt innihaldslega sameiginlegt með Inception utan þess að spila óhefðbundið og effektívt með klukkuna sem spennugjafa.

interstellar_aVissulega fylgir sú kurteisisregla að forðast of mikið af spillum, svo ég fer ekki út í nein sérstök smáatriði. En látum okkur sjá… yfirvofandi útrýmingarhætta, svarthol, ormagöng, einangrun, máttur og mikilvægi ástarinnar (ekki gubba samt), existensíalískar krísur, hvað það þýðir að vera mannlegur og alls konar fleira eðlilegt eða abstrakt gúmmelaði fær hér Nolan-trítmentið. Afstæðiskenningin breytist t.a.m. í kveikiþráð fyrir pakkað og veraldlegt hugmyndaflipp og poppkornsbíó hjá Nolan-bræðrum.

Interstellar er geimdramatryllir af eðalsort sem flýgur skjótt hjá á löngum tíma. Hún setur markmiðin brandaralega hátt, grípur fast en krefst meira af áhorfendum sínum en bíómyndir gera oftast af svona stærð – eitthvað sem má alltaf fagna. Heldur er hún ekkert að fela það að hafa fengið ýmist virðulega lánað úr 2001, 2010 varla síður Contact  (önnur mynd með Matthew McConaughey um geimferðalag sem borin var undir eðlisfræðinginn Kip Thorne…) og fleirum en kvikmyndagerðarmaðurinn kemst sem betur fer ekki hjá því að brennimerkja þetta allt með sínum föstu einkennum.

Nolan er annars í harðri baráttu við bæði sína björtustu og svartsýnustu hlið til skiptis, og áhorfendur gætu lent í því sama. Hann hefur ávallt verið andlega svolítið kaldur leikstjóri og stígur hann þess vegna ný skref og hefur aldrei vaðið í tilfinningaþyngri og mannlegri sögu fyrr. En niðurstaðan er uppfull af sál og þemukjarninn er áhrifaríkur þó hann æpi dálítið á meðan daðrað er við þessar stóru pælingar og enn stærri spurningar. Allt tilheyrir þetta lítilli, sjarmerandi fjölskyldusögu um eftirsjá, fórnir, von og ýmislegt annað úr mannlega eðlisbankanum með það markmið að maukfylla heilann af skilaboðum.

interstellar.thm_ (1)

Með epík má alltaf reiða á það að Hans Zimmer helli sig alveg út. Hér logar hann af óðri, háværri dramaorku með miklu orgelhamri en kemur sennilega hvað mest sjálfur í veg fyrir það að sumir rólegir partar verði of væmnir (mikið er ég feginn að Spielberg leikstýrði ekki myndinni…) en ýtir sömuleiðis undir gæsahúðina, spennuna og andrúmsloftið þegar flott klipping og gullfalleg kameruvinna tvinnast saman. Nýi upptökumaður Nolans, Hoyte van Hoytema (Let the Right One In, Her) stendur sig með þvílíkum stæl, og alveg var kominn tími á aðskilnað hjá leikstjóranum og Wally Pfister, tilbreytingunnar vegna, en honum hefur að vísu ekkert dafnað of vel. Annars er allt með tölu, frá settum, tökustöðum til saumlausra tölvubrellna eða praktískra, í toppstandi. Ég er þó á báðum áttum með hljóðblöndunina.

Fáir leikarar hafa að öðru leyti komið illa út hjá leikstjóranum og grafalvarleika, og í þessari mynd er sko enginn skortur á grátandi fólki – og ekki alltaf með ósmitandi hætti. Matthew McConaughey er hér upp á sitt besta sem örugga og sultuslaka kúrekatýpan sem hann hefur lagt undir sig í gegnum árin en fylgja honum að vísu fleiri tilfinningastillingar en vanalega. Hér býr hann til alveg sérstaklega heillandi karakter, með stíft sannfærandi túlkun á foreldra sem er hlaðinn eins þungri andlegri pressu og má ímynda sér í samhengi sögunnar.

o-jessica-chastain-interstellar-facebook

Jessica Chastain sér einnig um mikilvægt burðarhlutverk, og hittir á allar réttu nóturnar í umdeilanlega vannærðri rullu. Anne Hathaway, grátmeistari mikill, er alltaf frábær, og Michael Caine, David Gyasi, Casey Affleck, Ellen Burstyn og reyndar fleiri – þar á meðal stúlkan sem lék afbrigðið úr Breaking Dawn – fá öll sín tækifæri til að hafa eitthvað að segja og skilja eftir sig. Gervigreindarróbotinn TARS (Bill Irwin) er sömuleiðis þrælskemmtilegur fylgihlutur og lífsnauðsynleg undirstaða fyrir að bæta smá húmor í allt örvæntingarpartíið, með óvenjulegri, óldskúl hönnun eins og Nolan hafi neglt út afsprengi R2-D2 og guðdómlegu steinsúlunni úr Space Odyssey.

Í stjarnfræðilega háa metnaði sínum biður myndin og leikstjórinn mann um að hlaupa yfir nokkrar frásagnarholur sem kannski sumir gætu átt erfiðara með að taka í sátt en aðrir, sérstaklega þegar svona mikil smámunasemi er lögð í að halda eins sterkri samhæfingu við eðlisfræði- og vísindalegar staðreyndir og í boði er. Handritið er snjallt, skýrt og merkingarfullt en skiljanlegt er þó að margir klóri sér eitthvað í hausnum á meðan eða eftirá, hvort sem það varðar skilning eða lógíkina sem á helst ekki að ofstúdera.

gone-girl-movie-still-14

Það er of margt til að dást að í Interstellar, og kallar hún eftir að maður sjái hana aftur og ræði við næsta sessunaut. Hún er umfangsmikil, þrælspennandi – jaðrandi við dáleiðslu og úthugsuð. Vissulega ekkert ofurdjúp, stafar m.a.s. sumt meira út en hún þarf að gera og mætti heilt yfir vera ögn óútreiknanlegri. En flest svoleiðis smáatriði bætir hún upp með bombandi kraftinum sem henni fylgir, og hann heimtar það að myndina á að sjá á stærsta mögulega bíótjaldinu sem þú finnur.

niu

Besta senan:
Skilaboðin. Docking-senan. Svartholið.


PS.
Ég sá myndina algerlega ‘blindur’ fyrirfram. Horfði ekki á einn einasta trailer. Erfitt, en þess virði.

Sammála/ósammála?