Fury

Óhjákvæmilegt er að búa til stríðsmyndir sem gerast í opnum víglínum án þess að þrennt fylgi með: það hversu ógeðfellt helvíti stríð er, áhersla á bræðrabönd hermanna og hvernig ljúfir sakleysingjar geta auðveldlega breyst í drápsvélar undir réttum kringumstæðum.

Því eru þetta engar nýungar sem Fury fæst við en hún má eiga það að vera ein af merkilega fáum stríðsmyndum sem fjallar sérstaklega um skyldur og tengibönd hermanna í skriðdreka, skriðdreka sem myndin er nefnd eftir í þessu tilfelli. Og myndin stendur undir nafni. Það vantar ekki.

bane-vs-batman-the-dark-knight-rises-4102David Ayer hefur alltaf verið hrifinn af hráu ofbeldi með kjaft og visst raunsæi en í flestum tilfellum með áhuga á alvöru manneskjum, og þetta segi ég sem gæi sem hefur aldrei verið sérlega hrifinn af hans myndum. Það býr yfirleitt eins konar ferskleiki í þeim en ég tengdi mig allavega lítið við Training Day (sem hann eingöngu skrifaði – og fær þess vegna ekki á sig alla sökina), Street Kings og End of Watch. Sabotage á ég eftir en heyrði ekkert voða góða hluti. Það sem Fury markar annars vegar er risastórt skref í áttina að vissri fjölbreytni og í fljótu bragði er erfitt að ímynda sér að þessi sami leikstjóri kom að þeim titlum sem ég taldi upp.

Burtséð frá því að vera pínu grimm og með mannlegt eðli í huga stendur það upp úr þessari mynd hvað hún er útlitslega flott, vel samsett og með mátulegt tillit til leðjunnar (meira en venjulega í stríðsmyndum) og fínt jafnvægi á milli kaótíkinnar og kyrrðinnar í flottu andrúmlofti. Skriðdrekahasarinn er sérstaklega vel gerður, og er það smámunasamri skipulagningu og miklum klippingartöfrum að þakka að sé hægt að halda blóðinu gangandi þegar skepnan keyrir svona hægt.

Hver og einn karakter í skriðdrekanum gegnir sínu lykilhlutverki og Ayer kemur okkur inn í lokaða rými tækisins líkt og hann væri að tækla mjög, mjög afmarkaða kafbátamynd, með smá innifalinni innilokunarkennd. Ayer hefur vaðið af fullu afli í myndina og græjar til sín plúsa fyrir það, en meira má dást að henni heilt yfir eða í skömmtum frekar en að festast í henni tilfinningalega. Innihaldslega er hún meingölluð.

Brad Pitt;Logan Lerman

Leikararnir eru allir góðir. Shia LaBeouf, af öllum, ber mest af; trúaður, kaldryfjaður og með eðalmottu til að stimpla sig betur inn. Mér skilst að drengurinn hafi verið martröð á settinu í hreinlætisleysi sínu en hvaða taktík sem hann notaði virðist hafa skilað sér mest. Logan Lerman, með bláu augun og barnaandlitið, er hæfileikaríkur náungi en fær dæmigerðasta hlutverkið í öllu handritinu og þessi leikari er hættulega nálægt því að detta í þennan „alltaf eins“ pakka. Fínn en almennt óeftirminnilegur, sem er ákveðinn bömmer þar sem hann er í næststærsta hlutverkinu, á eftir stórstjörnunni.

Brad Pitt er nokkrum skrefum frá því að endurtaka Aldo Reine rulluna sína án Tarantino-yfirbragðsins. Pitt eyðir að vísu hálfri myndinni sitjandi að sinni og leyfir sér að hverfa í karakterinn sinn, og sannfærandi þar. Drifinn af ómenguðum drápsþorsta gagnvart óvininum en öflugur leiðbeinandi. Besta senan í myndinni tengist hvergi árásum eða skiðdrekum heldur en óvenjulegum morgunverði þar sem persóna Pitts leyfir sér að reyna að upplifa gamla tíma og siði sem minna hann á lífið fyrir stríðið, en framhaldið fer ekki alveg eins og áætlað var. Það er í svona smáatriðum þar sem karakterdýptin nýtist best þó mætti vera talsvert meira af henni. Ég myndi segja að í þessari deild þyrfti myndin að vera lengri en seinasti hálftíminn á henni er þar sem hún dettur mest í sundur.

Lokabardaginn verður langsóttari og bjánalegri því lengra sem á hann líður, þrátt fyrir að vera tæknilega vandaður. Seinasta senan í myndinni gerir henni heldur ekki neina greiða og skilur ekki eftir mjög jákvætt eftirbragð. Skilaboðin í myndinni eru að auki frekar simplísk og margendurtekin.

Stálharðir stríðsmyndanöttarar finna sér ábyggilega ýmist við hæfi í Fury, en fyrir utan ákafan áhuga fyrir krafti og mannlega þættinum er fátt hérna sem ekki má finna í miklu betri myndum. Umgjörðin og skriðdrekahasarinn gerir samt eiginlega útslagið og vinnur hún sér þannig inn stimpilinn að sé ágætlega þess virði að sjá hana.

fin

Besta senan:
Morgunverðurinn í íbúðinni.

Sammála/ósammála?