Dumb & Dumber To

Í æsku horfði ég á Dumb & Dumber ábyggilega svona 3,082 sinnum. Enn í dag stendur hún fyllilega undir nafni sínu jafnt og prinsippum sem algjört barn síns tíma. Mökkfyndin og aðalleikararnir tveir áttu nákvæmlega allan þátt í öllu skemmtanagildinu. Gott dæmi um það hvernig á að gera vel heppnaðan aulahúmor án þess að þér líði sjálfum heimskari eftirá. Nú hef ég aðeins einu sinni séð (varla langþráða?) framhaldið, og mun út restina af mínu æviskeiði reyna að halda því þannig.

Þó það sé löngu orðin venja finnst mér varla vera hægt að biðja um pínlegri framhaldsgrínmynd – hvað þá þegar hún mætir tuttugu árum seinna – ef það eina sem hún hefur áhuga á er að endurgera þá fyrstu, og verra er þegar hún hangir saman á gömlu bröndurunum án þess að finna upp á mörgum nýjum. En hér er absolút enginn skilningur er á því hvað er úrelt, ósmekklega barnalegt eða alltof fyrirsjáanlega aulalegt til þess að kveikja ekki á þreföldum kjánahrolli.

dumb-and-dumber-to-jim-carrey-jeff-daniels2

Aulastillingin var áður mátulega yfirdrifin en Dumb & Dumber ‘To’ stendur við þau hættumörk að breytast í beinan teiknimyndafarsa. Þegar Farrelly-bræðurnir gerðu fyrstu myndina voru þeir augljóslega allt aðrir kvikmyndagerðarmenn en þeir eru í dag, eins mikið og þeir virðast halda annað. Allt „edge-ið“ þeirra er langt að baki og hér fylgir með smá Three Stooges-eftirbragð frá þeim auk þessarar þvílíkt despó þarfar fyrir því að feta í fyrstu sporin sín aftur, líklegast eftir að hafa hrasað svona oft eftir aldamótin.

Fyrir utan aðkomu Peters Farrelly að ógeðinu sem kallaði sig Movie 43 er þetta það versta sem komið hefur frá bræðrunum, en það segir sig líka sjálft að svona hugmyndaleysi og flóð endurtekninga hindri allan möguleika á því að ná sambærilegri orku og áður. Sumum bröndurum er viðbjargandi en til þess að fá þessa góðu þarf að þola hryllilegt hlass af uppfyllingarefni. Bræðurnir nota ekki bara sömu atriði og brandara heldur oft lög, frasa, þvingaðar tilvísanir eins og þeir séu hnippandi í öxl þína spyrjandi hvort þú munir ekki örugglega eftir þessu eða þessu mómenti… en hætta svo aldrei að hnippa!

dumb-and-dumber-to-jeff-daniels-jim-carrey

Í fyrri myndinni var krakkaskapurinn í mátulegu hámarki, og eins miklir apar og Harry Dunne og Lloyd Christmas gátu verið fann maður samt stundum fyrir votti af næstum-því-trúverðugum fígúrum, sumsé ekki alfarið sálarlausum. Því getur maður öllu GLEYMT í þessari og fyrir mér er ómeðvitað rekið ófyrirgefanlegum miðfingri framan í áhorfendur þegar í ljós kemur hvað erkiaularnir hafa brallað seinustu 20 árin. Bæði er djókurinn sársaukafullt ófyndinn, í takt við alla framleiðsluna og heldur í engu samræmi við endi síðustu myndar. Auk þess er hver setningin eða ákvörðunin á eftir annarri nóg til að skapa þungar pælingar um hvernig þeim tókst óútskýranlega að hverfa 40 ár aftur í þroska. Áður en kreditlistinn kom (og nuddar hann aldeilis salti í sárið með því að sýna klippur úr nr. 1) var ég löngu hættur að skilja hvernig og hvers vegna þessir menn væru með svo mikið sem ökuréttindi, eða göngugetu.

Einu sinni var tíð þar sem Jim Carrey tók harðan stans gegn því að leika í framhaldsmyndum. Ace Ventura 2 var undantekning því hún fór bókstaflega í allt aðra átt en sú sem á undan kom. En nú, tveimur áratugum, fáeinum mögnuðum leiksigrum en ýmsum feitum floppum síðar hefur hann skipt um skoðun og styður þessa nostalgíusprengju hvað mest. Og ég hristi algjörlega hausinn yfir því hvernig hann getur afneitað mynd eins og Kick-Ass 2 en vaðið í Dumb & Dumber To af góðu geði, og ég man ekki einu sinni hvenær hann var seinast svona óþolandi eða fyrirlítanlegur. Samúð mín fer hins vegar til Jeff Daniels, hann sem er nýbúinn að brillera með flugbeittan Aaron Sorkin-díalog í The Newsroom og tætir síðan í sig svona skítlélegum hamagangi sem sækist eingöngu eftir aurnum og gömlum minningum.

Sakleysislega einlægu viðbrögð Daniels geta verið skemmtileg og sama hvernig maður tekur í húmorinn er auðsjáanlegt að þeir Carrey hafi skemmt sér mikið í tökum við að spila hvor af öðrum. Ég efa ekki um góða móralinn á settinu, sama hversu mikið hann hefur ofmetið sig, en mér líður samt eins og flestum hafi leiðst þarna í aukahlutverkum. Ef einhver kemur best út úr myndinni er það að vísu óþekkt pía að nafni Rachel Melvin sem meintur afkomandi Harrys. Trúlega er samt Bill Murray bestur á skjánum, og nógu skarpur til að passa að hann þekkist ekki þessa hálfu mínútu sem hann fær.

Dumb And Dumber To

Persónulega hefði ég haldið að betra væri að fá lélegt framhald af Jim Carrey-mynd með honum á svæðinu en án hans, og þrátt fyrir að það sé í flestum tilfellum satt er ég ekki svo viss um að Dumb & Dumberer: When Harry Met Lloyd sé eitthvað verri bíómynd en ‘To’. Hún átti allavega ekki kost á öðru en að prufa eitthvað öðruvísi þó hún greinilega elskaði að of mikinn innblástur í frummyndina, en tengdist henni ekki nógu beint til að saurga fínu minningarnar af henni.

„Comedy is all about timing“ segir Lloyd snemma í myndinni, og það þykir mér fyndnara í kaldhæðninni heldur en margt, margt annað. Auðvitað er Dumb & Dumber To ekkert nema einfaldur prumpfögnuður inn við beinið. Köllum þetta óð til groddaralega einfaldleikans sem ber sig eins og eldmóðurinn sé þarna en velur ódýrustu leiðina til þess að gefa nútíma áhorfendum ástæðu til þess að fíla þessa aula í botn á ný í allt öðrum aðstæðum. Vandræðalegt er líka að sjá hvernig mynd eins og 22 Jump Street tókst stórkostlega að gera grín að formúluletinni sem fylgir akkúrat mynd eins og þessari.

Varla má svosem útiloka það að myndin gæti eitthvað hitt í mark hjá þeim sem finnst nr. 1 vera grín-meistaraverk og finnst ekkert að því að sjá sömu myndina aftur, hrukkóttari og helmingi örvæntingarfyllri. Jafnvel þó svo að aðalpersónurnar þurfi ekki að vera með margt annað en loft á milli eyranna þýðir það ekki að aðstandendur eigi að komast upp með það sama.

thrir

PS. Meira að segja plakatið er ein stór nostalgíublekking. Hundabíllinn sést í mesta lagi í eina mínútu samtals.

Besta senan:
„Áfangastaðnum“ náð.

Sammála/ósammála?