Tusk

Þetta er það sem gerist þegar útreyktur kvikmyndagerðarmaður með sterkan (…en smækkndi) aðdáendahóp ákveður að vippa sér í spontant-gír og búa til eitthvað algjörlega absúrd á engum tíma fyrir lítinn pening… bara vegna þess að hann gat það.

Hugmyndin að Tusk er fyrir mér alls ekki eitthvað til þess að dissa strax, því hún er eiginlega svo súr og sérstök að hún breytist ósjálfrátt í gubbandi snilld á einhverju Cronenberg-ísku stigi. Vandinn er bara að Kevin Smith hefur aldrei verið góður kvikmyndargerðarmaður og með þessa mynd þarf meira til en bara að henda út viðbjóði, mónólógum, litríkum leikurum og persónulegri útreið til að allt smelli. Á stórskringilegan hátt má segja að þetta er persónulegasta myndin hans í mörg ár… þá kómísk rostungshrollvekja, af öllu!

1409685118000-tuskÞegar Smith, vel undir áhrifum, að venju – var í miðjum SMODcast-þætti með góðvini sínum Scott Mosier las hann „auglýsingu“ um einhvern furðufugl sem leitaði að leigjanda í Kanada. Díllinn var sá að umræddur nöttari bauð upp á fría leigu framarlega sem viðkomandi bregði sér í (öö…) „rostungsbúning“ reglulega og leiki eftir dýrinu. Smith fattaði ekki fyrr en seinna að auglýsingin var grín en maðurinn var langt kominn með áhugann að kvikmynda þessa hugmynd.

Hálfsorgleg er sú hugsun hversu margir eyða mörgum mánuðum ef ekki árum í að semja sínar sögur áður en þær verða kvikmyndaðar (eða ekki) á meðan Smith kastar út úr sér næstum fullbúnu djók-trítmenti í einu hlaðvarpi og fyllir seinna upp í eyðurnar í flýtt unnu handriti. Reyndar er það minna handrit og meira hann að snara saman löngum samtölum/einræðum og teygja illa lopann úr því sem hann hefur.

n-WTFARK-CENSORED-largeNálgun Smith á atburðarás er taumhaldslaus, eins og einhver táningur sé ropandi út fyrsta uppkasti í einum rykk, haldandi að það dugi bara að henda út atburðum. Handritið á hinni vægast sagt frústrerandi Red State var byggt upp á þessari hugsun og hélst hún þess vegna engan veginn saman sem heild, að neinu leyti.

Tusk er töluvert skárri, en hún reynir að vera alltof margt í einu: body-horror að hætti Human Centipede, freðin grínmynd og eitthvað sem þykist taka persónur sínar alvarlega í nærmynd. Smith er hins vegar ófær um að jafna út þessa tóna og að mínu mati eru það mistök að setja hljóðbút af hlaðvarpsþættinum þar sem hann heyrist hlæja sig máttlausan yfir öllu þessu. Þetta stangast allt saman á við það sem myndin reynir að gera á mannlegri nótunum. Sjúki húmorinn er til skiptis æðislega ruglaður og voða þurr og bjánalegur. Förðun og… tja… „búningahönnunin“ er þó eitthvað sem fær kredit fyrir að gefa manni eitthvað sem aldrei verður hægt að afsjá… með besta hætti. Það er stærsti sigur myndarinnar. Smith hlær kannski hæst, en útvaldar litlar senur hér eru pissfyndnar.

Kaflarnir sem virka eru nógu góðir til að gera myndina, a.m.k. fyrir þá sem kunna að meta svona steikarskít, að allt öðru en tímasóun og hefði ekki verið mikið mál að gera hana talsvert einbeittari. Michael Parks er dýrmætur, skemmtilegur og ógnandi sem fríkið með rostungsblætið og Justin Long gerir heldur betur ógleymanlega hluti í sínu hlutverki. Þrátt fyrir að vera stimplaður skýrt sem über-skíthæll selur hann sannfærandi sympatíu þegar hann er orðinn að fórnarlambinu. Hann er eiginlega of góður fyrir myndina því Smith vill að við hlæjum að honum. Á annan veg er illa farið með Genesis Rodriguez, sem er extra fúlt miðað við hversu góð hún er, og Haley Joel Osment er skemmtilegt skraut en hans karakter er eintóm, einkennislaus uppfylling.

51377230Hvað andrúmsloft varðar lítur myndin betur út en flestar aðrar Smith-myndir. Andrúmsloftið gengur en eitthvað flatt á sama tíma, og margar senur eru hreinlega bara illa lýstar. Með betri klippingu hefði líka verið hægt að bjarga miklu. Flæðið er rykkjót en bærilegt. Atburðarásin heldur þó athygli að mestu. Kanada-grínið verður fljótt úldið en Long og Parks halda mestum dampi uppi með því einu hvað þeir virðast vera til í allt og með botnlausu afli.

Síðan gerist hið ótrúlega að myndin skransar samstundis þegar ákveðinn „leynigestur“ treður sér inn og virðist sem stiginn úr allt, allt annarri bíómynd. Sá ónefndi (og næstum því óþekkjanlegi) stórleikari virðist njóta sín en er voða máttlaus, ófyndinn og gerir ekkert nema að tefja og bætir voða litlu við. Smith hefur verið alltof ánægður að fá hinn aðilann til þess að pæla í hlutum eins og byggingu eða flæði, frekar en venjulega.

Tusk rétt nær að hífa sig upp með endaspretti sem þarf bókstaflega að sjá til þess að trúa. Á þeim nótum er ég forvitinn að vita hvort fólk fíli almennt myndina betur eða verr þegar það hefur fyrirfram hlustað á podcastið eða komi blákalt að henni. Hugmyndin er því miður bara mun fyndnari en framkvæmdin í heildina, en ógleymanleg þó og í réttu stemmningunni er alveg þess virði að sjá myndina, allavega einu sinni, þar sem menn eru ólíklegri til að finna betri pyntingar(grín)mynd með svona miklu dálæti á rostungum.

fimm

Einhvern veginn get ég samt ómögulega sett mér háar vonir fyrir næstu mynd Smiths í þessum Kanada-bálki þar sem hún á víst að snúast mest í kringum þá tilteknu aðila sem voru þeir allra verstu í þessari mynd; dóttir leikstjórans, leynigesturinn og dóttir hans. Vei…


Besta senan:
Við matarborðið.

Sammála/ósammála?