The Babadook

Hér er (drama)hrollvekja sem virðist vita nákvæmlega hvað hún er að gera, hvað alla nálgun varðar; blessunarlega laus við amerísku gildrurnar (enda áströlsk), þar á meðal óðar áherslur á bregður – sem hér eru fáar sem engar – og mokar aldrei innihaldi eða persónusköpun til hliðar til að upplifunin selji sig út og breytist í 90 mínútna draugahús.

Nei, The Babadook er ein af þessum góðu, sjaldséðu og eftirminnilegu sem hefur ákveðna sögu í huga og eitthvað að segja, t.d. um uppeldi og erfiðleika missis í þessu tilfelli. Hún tekur sinn tíma í byggingu sinni og treystir á andrúmsloft ásamt ótrúlega sannfærandi, lúmskt lagskiptum leik. Helmingurinn þar er m.a.s. í eigu stráks, Noah Wiseman, sem var aðeins sex ára í tökunum. Þegar þessum dreng tekst að vera óþolandi – og svo innilega tekst honum það – er það langt í frá að vera unga leikaranum að kenna, heldur handritinu að þakka.

Tónlistin virkar, hljóðvinnslan hjálpar auk hugmyndaríkrar kvikmyndatöku. Leikstjórnin er almennt meira en traust og afhjúpar sagan ýmsum óútreiknanlegum litlum sjokk-mómentum, þrátt fyrir að stefnan og stærstu „flétturnar“ séu fyrirsjáanlegri en þær ættu að vera. Ég viðurkenni líka að hræðslufaktorinn féll oft dálítið flatur fyrir mér, eins ferskur og útúrsnúningurinn er á þær klisjur sem teknar eru fyrir. Tilraunirnar til að stíga út fyrir kunnuglegu bregðubrögðin eru impressívar á sinn hátt en gæsahúðin greip mig aldrei, fyrir utan fáeina truflandi ramma og langflestir þeirra fylgdu sennilega ógeðslegustu pop-up „barnabók“ allra tíma.

Merkilega fúlt að afgangurinn nái aldrei þeim sömu hæðum, þar af leiðandi virðist forsmakkið lofa meiru en fengið er. Myndin hefði alveg mátt ganga lengra með óhugnaðinn og geðveikina sem býr yfir henni, og helst brjóta sig ekki upp með smotteríssenum sem framkalla meiri hlátur heldur en annað á völdum stöðum í miðjum alvarleikanum. Annars vegar myndi ég allan daginn og öll kvöld velja brögð Babadúksins fram yfir framlög til geirans síðustu misseri í líkingu við The Conjuring, Insidious 2, Deliver Us from Evil, Annabelle og annað, jafnvel vanmetna hrollvekju sem þessi á ýmist sameiginlegt með, Oculus. Þessi á a.m.k. skilið að lifa í einhvern tíma, sem ég efa alls ekki um að hún muni gera.

(Nú kemur spoiler-umfjöllunin… lesist á eigin ábyrgð)

Babadook-578x200

Þrátt fyrir að The Babadook gangi ekki eingöngu það að fá áhorfendur til að drulla á sig þegar öflin illu eru komin af stað þá gengur hún að mínu mati miklu betur upp sem metafóra heldur en nokkurn tímann hrollvekja. Að hluta til er það vegna þess að myndin felur það ekkert sérlega vel að titlaða „skrímslið“ er í raun bara vaxandi táknmynd innri djöfla einmana og þjáðrar móður. Hennar barátta og bæling við hreint viðbjóðslega minningu hefur tekið sinn ljóta toll á uppeldi sonar hennar og lífið í kringum hana. Umrædda móðirin, Amelia, er leikin af Essie Davis, og tvímælalaust frábærlega, og það er bæði kredit til hennar og leikstjórans hversu viðeigandi hörmulega hún lítur út allan tímann, útlitslega sjúskuð og ber öll merki þess að hafa ekki náð að festa svefn dögunum saman.

Í fyrri hluta myndarinnar er lítið vitað um alla söguna hjá Ameliu, heildinni í hag. Sonur hennar er sýndur sem óagað, stjórnlaust djöflabarn með villt ímyndunarafl en handritið flettir hægt og rólega af innra ástandinu sem vísar beint á það að vanda barnsins má beint rekja til móðurinnar. Frestunarárátta hennar við það að kljást við þessi issjú sín, vanrækslan sem foreldri og stressið við það að reyna að lifa eðlilegu lífi enda með því að stofna líf sonarins í hættu. Inn í myndina stígur þá tilbúna kvikindið með fyndna nafnið, Mr. Babadook. Ímyndunarveiki Ameliu heltekur hana og athyglisvert er hvernig sympatíkin skiptist á milli lykilkarakterana beggja. Erfiði og árásargjarni sonurinn er skyndilega búinn að vinna sér inn alla samúð, eitthvað sem fyrirfram virtist vera ógerlegt markmið.

hellEndirinn „óljósi“ kemur vel út og segir óbeint að þó hægt sé að sigra þessa andlegu djöfla þá þarf að lifa með þeim og feisa þá áfram eftirá. Handritið finnst mér alveg hafa mátt spilað meira úr hinu yfirnáttúrulega og leyfa sér að vera miklu meira ‘bipolar’ en aftur á móti er best geymda leyndarmál myndarinnar sú uppgötvun sem fylgir þessari bældu minningu Ameliu. Og loksins þegar áhorfandinn sér hvað hún gekk í gegnum öðlast persónuköpun hennar allt aðra þyngd. Myndin lokar sögunni glæsilega og ég virði ákvörðun leikstýrunnar Jennifer Kent að hænsna hvergi út með þennan endi og stilla upp framhaldi af engri annarri ástæðu en til að fylgja föstu hefðum geirans. Lukkulega hefur hún sjálf útilokað allan möguleika á slíku.

Kent hefur getið af sér nokkuð klikkaða frumraun, sem byggð er á hennar eigin stuttmynd. The Babadook er í hnotskurn hvorki neitt sérlega frumleg né ógnvekjandi, en fantavel heppnuð saga skemmdra mæðgina, hugsuð út og þess vegna hlakka ég til að sjá hvað Kent tekur að sér næst. Hún á klárlega ferilinn frammi fyrir sér.

Annars væri ég mikið til í að eiga þessa skrattans pop-up bók!

thessiBesta senan:
Fyrsti upplesturinn – þó ég fatta ekki alveg hvers vegna hún hélt áfram að lesa úr bókinni fyrir krakkann…

Sammála/ósammála?