Snowpiercer

Snowpiercer er ekki fullkomin mynd, en mynd sem ég get endalaust hrósað auk þess að fagna látlaust tilvist hennar sem aðdáandi sci-fi dystópíumynda, og ef aðrar slíkar myndir eru dregnar inn í umræðuna er þessi með þeim öflugri og meira ‘júník’ sem við höfum fengið í dágóðan tíma. Eins er þetta að öllum líkindum besti „Hollywood“ tryllir þessa (eða síðasta) árs sem Hollywood kom hvergi nálægt, eða svalt dæmi um hvernig vestræni markaðurinn mætti oftar gera sínar myndir.

Hugmyndarík, metnaðarfull, stórfenglega yfirdrifin, faglega gerð fyrir allan aurinn, vel skrifuð og segir þér aldrei of mikið í einu með framvindunni. Snowpiercer býður einnig upp á drungalega framtíðarsýn, heldur þrusukeyrslu, er hlaðin spennu, hasar, ruglaðri fjölbreytni og reglulega óvæntum stefnum. Það finnst mér ekki vera lítið merkilegt afrek þegar sögusviðið stígur hvergi út fyrir eina tæplega tveggja kílómetralanga lest, og plottið lýsir sér í sjálfu sér með ekkert flóknari hætti en uppreisnarmenn sem þurfa að komast frá afgirtum bakenda hennar til framhlutans.

Á yfirborðinu fylgir þetta allt æpandi en sterkri allegóríu og ádeilu á stéttamismunun, með inngróin skilaboð um vistkerfi okkar og hringrás lífs. Má eiginlega segja að hún sé allt það og meira sem t.d. Elysium reyndi að vera. Það er svolítill Terry Gilliam-bragur þarna innifalinn en sjálfsagt er það engin über-tilviljun fyrst ein af lykilpersónum sögunnar ber nafnið Gilliam.

chris

Allir sem hafa spilað Bioshock sjá fljótt mikið af sambærilegum einkennum en auk þess að vera löguð upp úr franskri myndasögu finnur maður alveg fyrir fingraförum kóreska meistarans Bong Joon-ho, sem hefur hér tekist á við sína fyrstu enskumælandi mynd. Eins og gildir um aðrar (reyndar að mínu mati betri) myndir hans (þá helst Mother og Memories of Murder) fær hann mikið svigrúm notar hann til að leika sér með ólíka tóna og hefur hann aldrei gert neitt í líkingu við Snowpiercer áður. Hefði í raun verið óskandi að fleiri asískum kvikmyndagerðarmönnum hefðu gengið eins vel að koma sér inn í mainstream-ið eins og honum án þess að röddin glatist eitthvað í þýðingunni. Sjáið bara hvernig fór fyrir Jee-won Kim með The Last Stand

Bong fær að leika sér með alls konar absúrd, gjarnan súrrealísk en hentug mótíf í fjölbreytninni sem fylgir mismunandi vögnum lestarinnar; litaþemu, andrúmsloft og slíkt svo eitthvað sé nefnt. Hrós fær hann líka fyrir að sviðsetja stórspennandi atriði í innilokunarkenndinni sem fylgir lokaða rýminu sem sagan gerist öll í, á meðan honum samtímis tekst að fullhanna stærri epík í veröldinni utan frá. Maður finnur ávallt fyrir þrengslunum en Bong finnur alltaf sniðugar og ferskar leiðir til að gera eitthvað með kameruna og rýmið. Sviðshönnunin er líka grípandi, vönduð, og þó það hljómi klisjulega virkar lestin eins og heill karakter út af fyrir sig, eða réttar sagt lítill heimur – burtséð frá því að myndin beri sama titil. Tónlistin frá Marco Beltrami snarar einnig saman stóru hasar- sem og lágstemmdari eða súru elementum sögunnar með miklum stæl og geggjuðum árangri. Þessi meinti „Hollywood“ fílingur er svolítið í hans höndum, eða aðstoðar að minnsta kosti grimmt við það.

chris

Chris Evans hefur viðkunnanlega nærveru sem getur rifið slöppum myndum á ögn æðra plan en lumað á sér meiri tilþrifum í smærri, dekkri myndum. Áður en hann ákvað að nýta allar betri hliðar sínar í Snowpiercer var hann akkúrat bestur seinast í Sunshine, sem er annar stórlega vanmetinn sci-fi þriller þar sem framtíð mannkynsins í hans og annarra manna höndum. Hetjuhæfileikar Evans fá hér annars að njóta sín hér sem forystumaðurinn í byltingunni, einstaklingur sem þarf að eiga við stöðugar móralskar deilur við sjálfan sig í baráttu sinni á milli vagnanna.

Það er meira en nóg af eftirminnilega einföldum persónum og fjölbreyttum leikurum til staðar. Hverjum og einum tekst að gegna mikilvægu hlutverki og gera gott úr því, m.a. Song Kang-ho og Ko Ah-sung (sem bæði hafa áður unnið með leikstjóranum) ásamt John Hurt, Jamie Bell, Ed Harris, Octavia Spencer og Ewen Bremner. Tilda Swinton ber annars vegar af með stórar framtennur og dóminerandi brussustæla. Fyrirlítanlegt og fyndið grey er hún en ómögulega tekur maður augun af skjánum þegar hún eignar sér hann. Tómas Lemarquis sér einnig til þess að vera eins ógleymanlegur og hægt er með þann litla tíma se hann fær.

snowpiercer-train4

Það er ekkert alvarlegt út á framleiðslugildið að setja. Fjármagnið hefur nýst glæsilega fyrir utan viss stór brelluskot hér og þar, en mögnuð kameruvinna bætir það rétt um bil upp. Handritslega séð eru einnig sumir hlutir í lokahlutanum sem ganga ekki alveg upp. Bláendirinn er þar mest ófullnægjandi (segjum fáeinum römmum of stuttur eða of langur) í annars sólid heild sem flettir af svörin á hárréttum tímum og bregður með passlegu magni af „hólí sjitt“ mómentum. Öll lógík víkur líka oft fyrir metafórunni allri og þýðir þess vegna að lengi sé hægt að pota í plottholur en gagnast það lítið þegar grunnhugmyndin er þegar nógu út úr kú, en matreidd þó með sannfærandi krafti og mátulegum alvarleika án þess að loka fyrir kómískum absúrdleika við og við.

Það er engu að síður undarlegt hvernig myndinni tekst bæði að vera gáfuð en samt biður hún nánast um að slökkt sé á heilanum, eða rökhugsun i það minnsta, til að klikkaði rússíbaninn virki til fulls, en frá mínum enda er hann stöðugt spennandi, óútreiknanlegur og kjarkaður. Skuggalega töff brautarskipting fyrir Bong.

attaBesta senan:
Night-vision villimennskan.

Sammála/ósammála?