Exodus: Gods and Kings

Ef það er einhver kvikmyndagerðarmaður sem fer létt með það að hnerra út úr sér flottri epík (nefnið það: sögu-, fantasíu-, stríðs-, glæpa- og núna biblíuepík), þá er það Ridley Scott. En ef það er einhver sem hefur átt það gjarnan til með að týna sér í fókuslausri óreiðu hvað slíkt varðar inn á milli… þá er það Ridley Scott.

Mikill reynsluhestur og enn meiri fagmaður þegar kemur  að umgjörð og starfsskildum leikaranna, það vantar ekki. Scott heldur sér svo virkum, pungandi misstórum myndum næstum árlega, að oft er eins og sögurnar á stærri striganum séu meira flottar heldur en grípandi eða heilsteyptar hjá honum (Deckard, Gladiator og Kingdom of Heaven DC eru þarna sterkar undantekningar). Ansi lengi hefur mér fundist hann bestur þegar hann gerir eitthvað smærra og óvenjulegra (enda myndir eins og Matchstick Men, A Good Year og The Counselor djöfull vanmetnar) og Exodus: Gods and Kings gerir lítið til stuða nýju gæðalífi í ferilskránna hans.

interview_tout_large

Nú sturtar hann í sig á ný umfangsmikilli fegurð og útliti eins og ekkert sé heilagt, en hér er heildarupplifunin meira í ætt við eitthvað eins og Robin Hood (’10) heldur en The Ten Commandments – sem reyndar var aldrei neitt sérstaklega góð bíómynd til að byrja með, en hingað til besta bíóútfærsla á frelsissögu Móses úr gamla testamenntinu. Margir myndu skjóta þarna inn að The Prince of Egypt ætti meira þann heiður skilið en hún er í sjálfu sér ekkert meira fullnægjandi heldur en Exodus. Hins vegar gæti ég næstum fært rök fyrir því að Deliver Us atriðið eitt og sér úr þeirri mynd vekji upp meiri gæsahúð heldur en allt sem er hér.

Exodus skríður áfram og hittir á alla frásagnarpunkta sem hún þarf en án þess að maður hugsi varla neitt annað en: „vó, þetta er ansi flott!“ Það er afrek út af fyrir sig að skapa svona mikla óreiðu úr tiltölulega línulegri en mikilfenglegri sögu, og þá á 140 mínútum. En eins og bæði teiknimyndin og Cecil B. Demille sýndi fram á, þá er þetta saga sem krefst mikils tíma ef á að segja hana vel. En þá kemur upp sú spurning um hvort væri eitthvað hægt að bjarga þessu með lengri leikstjóraútgáfu, eins og hefur áður reddað Scott ótrúlega vel, þó ekki alltaf.

Exodus

Það er aldrei sérstaklega ánægjulegt að fá litla tenginu við lykilkaraktera í mynd sem er tæpur tveir og hálfur tími, ekkert síður þegar maður veit alfarið hvert efniviðurinn stefnir – og líða samt eins og miklu meira vanti. Í þessu tilfelli er skimað beint yfir alla pólitíkina, hellingsþjáningu og ekki síst samband Móses við Ramses, uppeldisbróður sinn. Það kemst til skila að þeir eru farnir að stangast á, en myndast viðbjóðslegt tómarúm þar í kring þar sem áhorfandinn á að sitja spenntur yfir hverjum orðasamskiptum þeirra. Aukin lengd gæti hugsanlega bætt úr illa unnum persónusamböndum eða sköpun þeirra en aldrei er það að fara að lagfæra hið ólagfæranlega.

Christian Bale (hversu viðeigandi nafn?) hefur sýnt fram á að hann getur gert hér um bil hvað sem er, umbreytt sér hvernig sem er og leikið nánast hvern sem er: Batman, Bateman, Bob Dylan jafnvel, hvort sem hann er feitur, mjór, mjórri, skemmdur, skapstór. En fyrir utan kannski John Connor er Móses – eins og hann er sýndur hér – á meðal þess sem passar ekki inn á listann, og það er alveg ótengt kynþætti hans eða hversu hæpið er að kaupa hann sem gyðing. Bale er einfaldlega kominn í ákveðna „default“ dramastillingu (geltandi alvarleiki, mikil öskur) þegar hann er kominn með illa skrifað hlutverk á milli handa. Hér fylgir honum óþægilega nútímalegur og óeftirminnilegur taktur en a.m.k. gefur hann sig allan fram – ekki nema hann sé bara alltaf svona góður á sjálfsstýringu. Af öllum hlutverkum ætti hann samt skilið meira bit.

exodus_12

Joel Edgerton er töluvert skárri og smellpassar sem Ramses, að hluta til útlitinu hans að þakka, en sleppur hvergi undan því að breytast í einhliða skopfígúru. Ef það hefur ekki orðið eftir á klippigólfinu hefði verulega þurft að bæta meiru við prófílinn hans.

Lítið fer betur fyrir aukaleikurum myndarinnar, þar á meðal Aaron Paul og glæpsamlega sóaðri Sigourney Weaver. Bæði tvö skipta sögunni miklu máli en sitja uppi með hnefafylli af setningum og fá lítið annað að gera en að skjóta upp kollinum í mögnuðum búningum og með alvarleg augnaráð. Þetta gildir um flesta, ef út í það er farið en væri ekki helmingur liðsins með þekkt andlit væri miklu auðveldara að gleyma þeim. John Turturro og Ben Mendelsohn eru meðal fárra sem gera meira en að fara með frasana sína og leyfa Scott og handritshöfundinum Steve Zallian að sjá um rest. Zallian hefur átt bæði miklu betri daga (Schindler’s List) og mun slakari (All the King’s Men). Sumir þeirra skrifast meira að segja á Scott sjálfan (Hannibal).

Scott reynir að finna sterkan milliveg svo það sé einhver jarðbundinn raunveruleikafiðringur til staðar í stað þess að tapa sér alfarið í brelluvænni ofurfantasíu sem t.d. gerði Noah frá Aronofsky umtalsvert einkennilegri og betri. Fólk getur hraunað yfir Noah eins og það vill en aldrei er hægt að neita því að hún fann sig í einbeittri og súrari nálgun sem skildi eitthvað eftir sig. En þessari til varnar þá hafði Exodus mun meira efni til þess að þjappa sér með heldur en Aronofsky. Engu að síður er klárt hvor leikstjórinn skaraði fram úr með sínu biblíuævintýri.

Exodus-God-Kings-red-sea-wave

Þessi millivegur í nálgun Scotts skilar sér þó m.a. í sniðugri og ferskri útfærslu á kaflanum þar sem Rauða hafið er klofið en að öðru leyti gefur hann myndinni bara bragðlaust yfirbragð sem stórglæsilegar sviðsmyndir og brellur eru í lítilli aðstöðu til þess að bjarga. Það fylgir því líka ákveðin kaldhæðni að mest grípandi atriðin fylgja þeim Móses sem kemur sögunni minnst við; þegar plágurnar tíu t.d. eigna sér miðbik myndarinnar. Akkúrat á þeim tímapunkti er hlupið fullhratt yfir hryllingsatburði og sjálfur Móses tekur sér langt frí frá skjánum, fær ekkert annað að gera en að fylgjast með. Lokasenurnar eru fjandi góðar en eftir það er eins og handritið hafi ekki hugmynd um hvernig skal loka sögunni eftir það.

Fúlt er að Ridley missti af góðu tækifæri til að vanda sig meira, varla síður að því gefnu að hún er tileinkuð bróður hans heitins. Exodus: Gods and Kings stendur sig í að bæta fallegu lúkki á sögu sem er hreinlega of merkileg og áhugaverð til þess að vera hreinlega eitthvað leiðinleg (og þetta kemur frá fýldum trúleysingja), en of margt vantar upp á epíkina til að innihaldið heilli mann. Ég get þó allavega mælt með myndinni fyrir alla sem vilja takmarkaða tilfinningatengingu við efnið og séu búin að steingleyma þessari sögu. Hún græðir líka mest á útlitinu þannig.

fimm

Besta senan:
Tíunda plágan.
PS. Undirtitillinn í heitinu er þremur númerum of ljótur.

Sammála/ósammála?