The Hunger Games: Mockingjay – Part 1

Þó að moldríkur galdrastrákur hafi eitt sinn komist upp með það að fá sína lokasögu sagða í tveimur einingum er orðið merkilega pirrandi hversu auðveldlega aðrir framleiðendur halda að þeir komist upp með það sama, þá haldandi að gæðin verða eitthvað betri heilt yfir… eða undir þeim ranghugmyndum á meðan þeir telja seðla aðdáendanna.

Ég er einn af þeim sem kann ávallt að meta það að sjá góða sögu taka sinn tíma á skjánum frekar en að hlaupa of hratt yfir efnið, en í fleiri, fleiri áratugi hefur það verið vanmetin list að taka bókahlunka og útbúa úr slíku þokkalega og þjappaða bíóaðlögun án þess að þurfi að ýta heildarkjarnanum til hliðar.

Þegar peningaþefurinn er annars vegar svona dóminerandi fær maður þá tilfinningu að minna sé verið að vanda til verka (og nota bene, ég fílaði báðar Hunger Games-myndirnar, Catching Fire sérstaklega í tætlur) og meira verið að passa það að unglingsstúlkurnar væli ekki of mikið yfir atriðum sem var sleppt. Niðurstaðan breytist þess vegna í hálf-vandað verk, enda bara hálf bíómynd tæknilega séð, eins og tilfellið er hér. En góð svosem.

horrible_bosses_2

Þrátt fyrir að vera u.þ.b. 80 mínútum of löng er Mockingjay – Part 1 undarlega (og ég get ekki teygt betur á þessu ‘undarlega…’) sterk og taktísk mynd. Hún fyllir þægilega vel upp í tímarammann sem hún hefur með persónusköpun, passlega mikilli örvæntingu, niðurrifum og nýtur sannarlega góðs af því að efniviðurinn er kominn í allt aðra og dekkri átt, en sem „sjálfstæð“ eining lýður hún fyrir það að vera viðburðarlítil og útteygð. En viljinn fyrir því að stækka heiminn töluvert meira hefur að minnsta kosti verið til staðar.

Af þremur myndunum hingað til er þessi kafli minnst spennandi og skilur ekki nóg eftir sig til að hægt sé að stimpla hana sem annað en langa upphitun. Samt, stærsti kosturinn við það að fá hálfa Mockingjay er að gamli strúktúrinn sem fylgdi báðum forverunum er alveg farinn, enda Hungurleikarnir sjálfir allir að baki og fókusinn kominn á stöðugt rísandi byltingu. Súbtextinn, eins og hann er nú allt annað en lúmskur, bætir helling við og snýst allur að sinni um pólitískan áróður og meira brútal þemu í stað þess að hamra inn aftur ádeilunni á raunveruleikasjónvarp (ímyndið ykkur Wag the Dog fyrir 14 ára stelpur). Þetta gefur myndinni ekki bara vægt bit með innihaldsleysinu, heldur setur hana í stöðu sem óvenjulega þung og kjörkuð „unglingamynd.“

1-sin-city

Annað hefði svosem verið glæsilega þegið en Katniss Everdeen er eina fígúran sem fær tímann sinn nýttan í einhverja auka persónudýpt. Eðlilegt þykir það þess vegna að allt sem Jennifer Lawrence hefur fram að færa í hlutverkinu gerir myndina þess virði að tóra yfir, enda eftirminnilegur og áhugaverður karakter og hæfileika Lawrence þarf ekki lengur að efast um fyrst hún hefur græjað sér eina Óskarsstyttu og tvær tilnefningar í heildina síðan hún lék í fyrstu myndinni.

Greyið Liam Hemsworth virðist ómögulega takast að gera eitthvað athyglisvert úr sínum karakter. Hann stendur bara flatur, flottur og vonast innilega eftir því að fleirum en þeim sem finnst hann mega-heitur sýni honum einhvern lágmarksáhuga. Mockingjay – Part 1 hefði þ.a.l. getað stórgrætt á því að gefa fleirum meira svigrúm en ég læt það vel duga að sjá smá aukaljós skína á Philip Seymour Hoffman og Julianne Moore (ómeðvitað vakna þarna upp minningar af þeim úr Boogie Nights og Magnolia), sem markar enn einu kærkomnu leikaraviðbótina í seríuna. Elizabeth Banks og Woody Harrelson eru að auki svo skemmtileg að meira hefði mátt vera af þeim, svona fyrst að uppfyllingarmyndin hefði alveg mátt á meiri uppfyllingu að halda. Donald Sutherland fær líka loksins að sýna tennurnar sínar meira í rísandi alvarleikanum, alveg kominn tími á það. Josh Hutcherson er að öðru leyti í langri kaffipásu, en sinnir því með ágætum að dúkka upp annað slagið.

kim4

Mockingjay – Part 1 er mátulega fullnægjandi frústrering; ágæt á meðan líður, faglega gerð (Francis Lawrence virðist enn vera rétti maðurinn fyrir þetta efni), vel leikin, með eitthvað að segja en molnar alveg í sundur á eigin fótum. Ég kann að meta innslagið sem aðdáandi heimsins en fórnin hefði verið þess virði að sjá atburði þessarar myndar þjappaða niður í 40 mínútur í epískari bíómynd. Kannski er það bara ég en trílógía hefur bara miklu meira sexí stimpil við sig heldur en útteygður fjórleikur. Kostirnir rétt svo rífa hana upp í örláta sjöu, og Hanging Tree söngurinn er í alvörunni gullfallegur.

thessi

Besta senan:
Katniss tekur Billy Boyd á þetta.

Sammála/ósammála?