Horrible Bosses 2

Hér kemur þetta hundleiðinlega trend sem fylgir oft því þegar vinsæl gamanmynd hefur hlotið gagnslaust, örvæntingarfullt framhald: persónurnar eru skyndilega orðnar helmingi heimskari en þær voru áður og verður það eitt að mest ofnotaða brandaranum. Þá fer í gang ákveðin innræn tímasprengja sem ákveður hvenær þetta hættir að vera fyndið og byrjar að taka á.

Horrible Bosses var hin fínasta gamanmynd sem hefði getað leyft sér að vera eins dökk í sér og söguþráðurinn bauð upp á en í staðinn sætti hún sig við mildari, klisjukenndari og ófyndnu leiðina. Leikararnir gerðu að vísu heilmargt fyrir hana. Jason Bateman, Charlie Day og Jason Sudeikis spiluðu í botn með fastaeinkenni sín í hlutverki þriggja hversdagslegra aula og mynduðu stórfínt teymi innan um aðra leikara sem stálu af þeim senunni (Kevin Spacey, Jamie Foxx og Colin Farrell).

Það var aldrei ætlunin að meðtaka þessa þremenningu sem einhverjar últra-raunsæjar manneskjur, en það er vandræðalegt og meira til hvað hefur orðið um þá í framhaldinu, þó það eigi meira við um Sudeikis og Day. Bateman sleppur fyrir horn, og sér sig lukkulega um að kommenta á það reglulega hvað hinir tveir eru miklir fábjánar, því þeir hljóta að hafa margsinnis dottið á hausinn á milli mynda.

kim4

Þetta er svipað vandamál og kom fyrir Dumb & Dumber To (afleita eplið sem hún var) – þar sem áberandi munur var á stórhættulegri lækkun í greindavísitölu helstu persóna, og handritsgerðarinnar – og það kemur alls ekki á óvart að Horrible Bosses 2 skuli hafa verið „skrifuð“ af akkúrat sömu mönnum. Gamla leikstjóranum hefur sömuleiðis verið skipt út fyrir annan af pennunum, Sean Anders, þessum sem óskiljanlega tókst að fara frá fersklega fyndinni og vanmetinni klisjugrínmynd eins og Sex Drive, yfir síðan í Sandler-skítinn That’s My Boy… og svo þessa.

Horrible Bosses 2 hefur þennan fráhrindandi væb sem lofar fullmikinn skammt af því sama en bara með latari úrvinnslu, sem setur beinlínis ekki meira bit í neðanbeltishúmorinn. Plottið er sem betur fer ekki skömmustulegt afrit og ég verð að gefa myndinni það litla kredit að hugsa aðeins út fyrir rammann með það, en á sama tíma hrifsa ég það kredit af henni þar sem atburðarásin eltir hvort sem er sömu brandara þegar upp er staðið. Enn hef ég ekki einu sinni almennilega hugmynd um hvar þessi húmor átti að vera, og ef mér tókst að finna hann þá festi hann sig bara í mega-þreytandi masi hjá öllum leikurunum. Allt það góða liggur í völdum one-linerum, og þeir bestu koma frá þeim takmarkaða tíma sem Kevin Spacey fær.

horrible_bosses_2

Hressleiki og orka getur komið leiðingjörnu gríni langar leiðir og hvort tveggja er til staðar hjá liðinu á skjánum en líka ákveðinn rembingur á sjálfsstýringu. Það keppast allir um að gera handritið fyndnara en það er en með bitlausum árangri. Chris Pine er sérlega líflegur í gríninu og lítur ekkert út fyrir að reyna eins mikið á sig og hinir, en fyrir trylltari kómíska frammistöðu frá honum mæli ég miklu frekar með nýju Joe Carnahan-myndinni Stretch. Síðan er Christoph Waltz vannýttur í hel og persónulega sá ég engan tilgang í því að draga Jennifer Aniston inn í farsann aftur þegar hún hefur litlu við að bæta með sama þreytulega brandara sinn, þó hennar karakter vekji reyndar upp skondna þráhyggju sem Bateman leikur sér skemmtilega að.

Með betra, meira krisp og bítandi handriti (og helst öðrum leikstjóra) hefði ábyggilega verið hægt að moða meira úr þessu en seint mun ég skilja hvernig Day og Sudeikis leyfðu sér að breytast úr glæpaheftum meðaljónum í kærulausa þöngulhausa sem þurfa að láta stafa allt fyrir sér sem þeir gera vitlaust. Þeirra dýnamík gerir Horrible Bosses 2 að átakanlegri setu í versta falli sem er aðeins ætluð hörðustu aðdáendum nr. 1, þó ég viti ekki nákvæmlega hvort þeir séu svo margir. Ágætis kaflar hér eða þar og því ekki alrotin afþreying, en þó á pari við langan og vandræðalega smekklausan gamanþátt, stöðugt leitandi að sínum eigin húmor, sem hefði að auki átt að vera dekkri.

thrir

Besta senan:
Bið í miðjum eltingarleik.

Sammála/ósammála?