The Hobbit: The Battle of the Five Armies

Ein bók. Þrjár myndir. Hellingsfita. Þessu má lengi tuða yfir, og réttlætanlega. Að kalla The Battle of the Five Armies góða mynd er erfitt því hún þjáist greinilega af því syndrómi að geta fyrst og fremst varla kallast ‘alvöru’ bíómynd. Hún hefur hvorki alvöru byrjun né miðju, heldur er hún næstum því bara samansafn klæmaxa í 8 (+) klukkutíma heildarepík sem byggð er á 300 blaðsíðna „barnabók“ með viðbættum uppfyllingum og rembingsfullu nostalgíukitli.

Án þess að það þurfti endilega mikið til þá nær þessi tvímælalaust vera sú skemmtilegasta og brattasta í þríleiknum, en það hefur minna með almenn samsetningargæði hennar að gera og þykir meira vera einn af fáeinum kostum sem kom úr þessari þriggja-eininga skiptingu: hún er tveggja tíma hasarmynd… sett í Miðgarði. Ergó, loksins er eitthvað farið að gerast í þessu annað en sífelld töf, hlaup, göngutúrar og uppbyggingar sem leiða að engu. Á sama tíma er það pínu grátlegt hve lítill kraftur fylgir með öllum sjónræna glaðningnum.

The-Hobbit-Th

Vel má vera að Tolkien-fjölskyldan sé sjálf ekkert brjálað sátt með meðhöndlun Peters Jackson en ekki einu sinni pjúristarnir geta neitað því að maðurinn leyfir sér að lifa sig í þennan magnaða heim af botnlausri ástríðu. Þó hefur áhuginn því miður stangast á við þessa vaxandi tilhneigingu hans til að vita ekki alveg hvenær eða hvar á að hætta. Í nýja þríleiknum hefur maðurinn gefið skít í útitökur, vönduð líkön og reitt sig á tölvureddingar og græn tjöld meira en aðdáendur hafa kært sig um. Heilt yfir hafa myndirnar þjáðst jafnmikið fyrir það og þær hafa grætt á því.

Tölvubrellurnar eru ómótstæðilegar þegar þær tilheyra fígúrum eins og Smaug, stórum hópskotum og öðru punti, en þegar of mikið hrúgast í eitt hverfur ekki þessi fráhrindandi tölvuleikjataktur. Ég skil heldur engan veginn hvers vegna þessi mynd gekk svo langt með að skapa heilan, mikilvægan dvergakarakter alveg frá grunni í tölvu (er þá viðeigandi að hann skuli heita Dáinn?), eins og ekkert sé sjálfsagðara, en þegar veröldin nær að toga mann inn er ekki mikið sem þarf til að dást að umgjörðinni. Á annan veg hefur Howard Shore tónlistinni alls ekki tekist að ná sömu hæðum og í hinni trílógíunni. Smá bömmer þar.

3-the-hobbit-3-the-battle-of-the-5-armies-what-to-look-forward-to

Jackson hefur tekist sómasamlega að binda saman trílógíurnar en Hobbit-þrennan hefur engu að síður mest liðið fyrir það að vera of háð Hringnum. Allur viðaukinn dregur rosalega úr sögu, mikilvægi og persónusköpun titilpersónunnar og að mestu leyti hefur þetta bara verið stefnulaus uppfylling eða leið til að depla stöðugt öðru auganu framan í aðdáendur. Það er ósanngjarnt að bera saman sitthvoru sögurnar of mikið, þ.e.a.s. Hobbit og LOTR, því þær eru merkilega ólíkar í tón, og tæknilega séð ætti það sama að eiga við um myndirnar. En Jackson leyfir manni ekki að komast hjá því þegar hann er búinn að ákveða að þetta eigi að vera sex-mynda megasería þegar upp er staðið.

An Unexpected Journey tók sinn blessaða tíma, The Desolation of Smaug gerði margt stórt og langdregið úr mjög litlu. Þessi þriðji hluti, eins og honum er háttað, kemst alveg upp með að mjaka sér aðeins í grimmd og dauðsföllum, en er meiriháttar flæktur í sinni eigin forgangsröð. Eins frábær og bókin er misstígur hún sig sjálf í alltof ‘episodic’ strúktúr en á þessum útteygða lokahluta er a.m.k. kominn tími á harðari ef ekki athyglisverðari ágreiningar persóna, og loksins fær maður að sjá nokkrar þeirra upplifa dramatíska örk. Því miður er Bilbo annars vegar ennþá ýttur til hliðar í sinni eigin sögu, og hann hefur mér alltaf þótt vera mun skemmtilegri en nokkurn tímann Frodo.

THE HOBBIT: THE DESOLATION OF SMAUG

Dvergaleiðtoginn Thorin kemur lang best út sem karakter að þessu sinni. Richard Armitage hefur gætt stóíska hlutverkinu mikið líf en fær miklu meira að skína en fyrr. Luke Evans ber sig einnig mjög vel með þægilega góðan skjátíma sem Bard, enda fljótt búinn að stimpla sig sem svalasta hetja myndarinnar í upphafsatriðinu einu. Orlando Bloom reynir ofsalega mikið að hreppa slíkan titil, og honum til varnar þá vælir hann minna en í síðasta kafla. Hann hoppar enn og skoppar í bardögum, ósigrandi með svo hlægilega yfirdrifnum árangri að ég var farinn að hafa alltof gaman af honum, og hvernig Jackson virðist láta ekkert stoppa sig með það að breyta sumum senum í pjúra teiknimyndaflipp. Lee Pace hefur einnig fengið ýmist gott til að vinna með sem pabbi hans.

Eins mikið og ég kann við Evangeline Lily og persónu hennar þá hefur hún reynst vera heldur gagnslaus viðbót, étandi bara upp tíma frá öðrum, betri karakterum (aumingja Bilbo). Ástarþráður hennar við dverginn Kili hefur absólút ekkert vægi miðað við hversu mikið er ætlast til að finna til með þeirra kemistríu og tilfinningum. Það er enn góður hluti af öllum 13 dvergunum sem situr eftir í minningarmóðu án þess að mér hefur tekist að persónugreina þá eftir alla þessa klukkutíma. Martin Freeman fær eitthvað af góðum senum, sem betur fer, en á augljóslega meira skilið. Sama með Ian McKellen, þó hann heldur auðvitað áfram að gera frábæra hluti. Skrípalegi mörðurinn Alfrid, leikinn af Ryan Gage, hefur óskiljanlega fengið allt í einu mikla athygli. Allt í góðu að skella inn einu fyndnu fífli í mið átökin en þessi tiltekni fantur varir óvenju lengi og hverfur síðan bara úr myndinni eins og hann hafi aldrei skipt neinu máli…

watch-the-eerie-new-teaser-trailer-for-the-hobbit-the-battle-of-the-five-armies

Allur seinni helmingurinn er helgaður stóra bardaganum og Jackson gætir þess að drekkja honum aldrei í langdreginni eða einhæfri kaótík, þó mér þætti alveg vænt um það að vita hvers vegna hinar undarlegustu skepnur birtast bara upp úr þurru og hverfa síðan sporlaust (t.d. þessir undrahrútar!). Orrustan jaðar kannski við það að vera þreytandi, en hún er ágætlega uppbyggð, leyfir mörgum að njóta sín eitthvað í einvígum og afmarkaðri rýmum. Fram að þessu stríði er ekki dauð mínúta í allri uppstillingunni þegar svona mikið af hjólum snúast. Opnunaratriðið er þó tær hápunktur en miðað við hvað Smaug gamli er fljótt afgreiddur er það enn meiri synd að sú mynd sem á undan kom tók ekki á sig þessar auka 10 mínútur. Ýmsir flæðistengdir gallar úr henni virðast hafa einungis betrumbætt lokamyndina. Vei?

Engin Hobbit-mynd hefur betra rennsli eða meiri hasar en The Battle of the Five Armies. Hvergi áður hefur annars verið eins auðvelt að finna fyrir sleikjandi kjánahrolli í Miðgarði. Sumt er ofgert, annað bara hreinlega máttlaust eða vandræðalegt (þessar lokasenur með Thranduil eru sértýpa af viðbjóði) og fókuslausi endirinn sýnir best hvað Jackson var ógurlega sama um Hobbitann sem sína eigin sögu og í staðinn upptekin við að gefa þessu meira forsögubragð. En þríleikurinn klárar sig a.m.k. af með flottum pixlahvelli frá byrjun til enda, ríku afþreyingargildi og ómetanlegum mómentum á milli þeirra slöku. Fúlt og fjörugt.

finBesta senan:
Byrjunin, satt að segja.

PS. Það tók sinn tíma að hnoða umhyggjuna en ég er í alvörunni svekktur að fá ekki fleiri stórmyndir í 3D HFR á næstunni. Þessi hefur best fengið að njóta sín þannig.

Sammála/ósammála?