Whiplash

Hversu auðveldlega getur tens drifkraftur breyst í brenglaða þráhyggju? Hvaða afleiðingar fylgja með fullkomnunaráráttunni? Þarf kannski á brengluninni að halda til að snilligáfan í sumum nái sínu marki? Hversu hart myndir ÞÚ annars leggja að þér til þess að vera nær stóra draumnum? sérstaklega ef þú setur þig í spor ungs, vinalauss manns með hæfileika og metnað til þess að skara langt fram úr, en Whiplash kafar út í allar stóru spurningarnar á bakvið þetta allt með sínum marglaga, hnyttna, brútal og magnaða hætti. Einbeitt í einfaldleikanum og meiriháttar spennandi.

Laumulega er hún dulbúin sem hver önnur „íþróttasagan“ um lítilmagnann með stóru draumana í farmi, nema hér bætist við innlit til kröfuharðs tónlistarkennara sem keyrir nemanda sinn alveg út að ystu mörkum til að sjá hvort eitthvað mikilfenglegra skíni í gegn. Kemur það í rauninni niður að áhorfandanum hverjum hvort megi sjá þetta sem átakanlega sigursögu eða léttan harmleik, ef ekki hvort tveggja í einu.

Whiplash-5570.cr2

Það vantar ekki það að sé áþreifanlega persónulegur tónn á þessu öllu, sem er bara kredit til þess að enginn annar en hinn 28 ára gamli Damien Chazelle (sem skrifaði einnig hina feiknagóðu Grand Piano) hefði getað fangað þessa úrvinnslu. Fyrir utan það að vera byggð á samnefndri stuttmynd hans sækir hann bæði sem leikstjóri og handritshöfundur miskunnarlaust í gamlar minningar frá tónlistarskólaárum sínum. Kannski segir Whiplash eitt eða annað til um hvers vegna hann hélt ekki því námi áfram en á sinn hátt skiptir engu máli hvort viðkomandi eigi sér tengingu við hljóðfæraspilun, djassmúsík almennt eða ekki. Allt eins gæti þetta verið allegoría fyrir metnað í kvikmyndageiranum, hvað sem er.

Aðalpersónan Andrew þarf ekki lengi að þruma kjuðunum sínum til að mynda sína óslítandi tengingu við áhorfandann. Djasstónlistin býr líka til skemmtilega líflegan og notalegan tón innan um tensjónið í loftinu. Músíkin græðir líka á því að þola allar þessar endurtekningar. Chazelle passar síðan upp á það að sé nóg pláss fyrir húmor í handritinu til að andrúmsloftið verði aldrei of íþyngjandi. En fyrir utan það að vera, skv. minni upptalningu, eitt ef ekki eftirminnilegasta bíódúó ársins 2014 þá eru þeir J.K. Simmons og Miles Teller í sínu sitthvoru lagi sama og fæddir í hlutverk sín hér.

Whiplash-6

Teller hefur sýnt öfluga takta í t.d. The Spectacular Now og Rabbit Hole (auk þess að sýna lit í auðgleymdari myndum eins og Footloose, 21 & Over, That Awkward Moment og Divergent), og Simmons hefur áður getað staðið sig frábærlega í hér um bil öllu sem hann er í. Allir sem hafa horft á hann í OZ gera sér vel grein fyrir því að hann getur verið nett óhugnanleg viðvera, með dass af J. Jonah Jameson kannski. Það er einhvers staðar líbó og meistaralega þjáð manneskja sem blundar í kröfuharða kennaranum sem hann leikur, Fletcher, sem leynir helling á sér með þessum pókersvip sínum, háskerpuæðum, órgum og dæmalaust frábærum frösum („There are no two words in the English language more harmful than ‘good job.’”).

Whiplashimg

Andrew hefur vægðalausa, drífandi orku sem djasstrommuleikari og lætur gjörsamlega ekkert stoppa sig nema það sem smátt og smátt byggir hann sjálfan upp en oft við hættuleg mörk. Hann á huggulegt en ónáið samband við föður sinn og leynir það sér lítið að hluti af orkugjafa Andrews sé að reyna að forðast það mest að líkjast honum, eða nokkrum öðrum „hversdagslegum“. Teller er átakanlega góður til gláps og sannfærandi á trommunum og hefur mikið gagnast honum að hafa kunnað á þær fyrir.

Í aukahlutverkum er hvergi flöt nóta, gamli Paul Reiser sem pabbi hans eða Melissa Benoist (hún er úr Glee. Hata Glee) sem viðkunnanlega flörtið, en fyrst að allt snýst bókstaflega um blóðið, svitann og tárin sem myndast í þessari leit Andrews að fá samþykki frá kennara sínum og eiga sína eigin flóknu og sálrænt athyglisverðu örk, er eðlilegt að allir aðrir séu úr fókus, þar með í takt við hvernig Andrew sjálfur heldur þeim.

Nærmyndir spila mikinn hluta í stíl Chazelles, og þegar takturinn eykst fór hjartað að pumpast því meira sem fésinu er beint að leikurunum eða hljóðfærinu, en snilldarklipping á mikinn þátt þar. Í besta falli festist maður við hvern takt og hangir á hverju orði þegar hitnar í andrúmsloftinu. Whiplash verður aldrei of fyrirsjáanleg í framvindunni, kannski í versta falli bara vibbalega langsótt á köflum (þá helst í tengslum við mótiveringu Fletchers í lokaatriðunum ásamt öðru), eins og hún fylgi reglum góðra spennumynda og verður svo tryllt grípandi þegar hæst rís að maður rúllar með litlu svindlunum í handritinu.

Whiplash er örfáum trommusláttum frá því að vera helbert indí-meistaraverk. Kraftmikil, klár, glæsilega samsett, hrá, með æðislegt tempó, óaðfinnanlegt leikarasamspil og lokanótu sem á skilið fyrir að láta klappa fyrir sér. Beint í safnið með hana…
brill

Besta senan:
Seinustu tvær mínúturnar, sem fylgdu á eftir gjörsamlega brillerandi 10 mínútum þar áður.

Ein athugasemd við “Whiplash

  1. frábær mynd í alla staði að mínu mati.. og líklega besta mynd ársins 2014 fyrir mitt leiti.. var alveg hugfanginn! hef sjaldan séð jafn flottan leik og hjá meistara J.K. Simmons!

Sammála/ósammála?