Big Hero 6

Eftir að Disney keypti allan Marvel-pakkann eins og hann leggur sig var það aðeins tímaspursmál um hvenær stórhausarnir tveir myndu sameina krafta sína með einhverjum hætti. Útkoman er Big Hero 6 (eins asnalegur titill og það er), svona „Disney-fæjuð“ týpa af ofurhetju-upphafsmynd, með innbyggðu gestahlutverki frá Stan Lee og alles. Hún dregur bæði ýmsa kosti og helstu galla sem fylgja hvoru merkinu þegar þau vaða í eitthvað áhættulaust en dúllulega svalt á sama tíma.

Sérkennilega útlitssýnin hér er skært blikkandi bræðingur af hinu vestræna og asíska, og gerist það ekki augljósara en þegar sögusviðið er framtíðarlega stórborgin San Fransokyo! Kúltúrsblandan virkar hreint prýðilega, svona eins og það renni þarna einhvers staðar heltöff anime-mynd í þessum æðum. Myndin lítur frábærlega út, með bjart og skýrt auga fyrir smáatriðum, litagleði og 3D-dýnamík springandi út í allar áttir. Áherslan er að fjörið taki alla forystu í sögu sem hefur fínan Disney-boðskap um mikilvægi vina, samvinnu og hugvitsins ekkert síður.

Í grunninn fjallar hún að vísu hlýlega um hetjudrenginn Hiro (fattið?) og hvernig hann tekst á við náinn missi og vinnur sig í gegnum hann. Minna krúttað verður þetta ekki þegar einstaklingurinn sem hjálpar honum í gegnum sína örk er brjálað ómótstæðilegur, uppblásinn róboti sem kallar eftir faðmlagi og kemur með skemmtilegustu „fist-bömp“ sem ég hef séð í teiknimynd. Það er hann Baymax (snilldarlega talsettur af Scott Adsit úr 30 Rock), og lítið er hægt að fegra það að Big Hero 6 væri algjörlega langt dottin í miðjumoðssarpinn ef þessi bráðsnjalli sykurpúði væri ekki viðstaddur til þess að rétt svo bjarga henni. Hann er æði.

Big-Hero-6-03

Það er ágætlega haldið utan um kjarnasöguna, sem sigtar út ágæta samband Hiros við vélmennið sitt. Upphafssena myndarinnar, þar sem drengurinn er fyrst kynntur í róbotaslagi, er meiriháttar! Hún gefur alveg tóninn fyrir húmorinn og málar sólid mynd af því hvernig hann sem aðalpersóna myndarinnar hefur ofurmannlegar gáfur og uppfinningarhæfileika (…bara ef Tony Stark væri hálf-asískur, 14 ára og teiknimyndafígúra!). Út fyrri hlutann heldur myndin skítsæmilegum dampi þangað til að kemur að því að fjölga persónunum upp í heila ofurhetju(stuðnings)grúppu. Þá flækjast hlutirnir meira – á meðan klisjum fjölgar – og þó hver skilji eitt eða annað eftir sig er meirihluti titilhópsins býsna óeftirminnilegur og grunnt teiknaður. Allir hafa sitt hlutverk að gegna en öll sú þátttaka kemur meira út eins og uppfylling í handritinu heldur en náttúruleg persónusköpun sögunnar. Að þessu utanskyldu er allur rútínubundni klæmaxinn – og tilfinningabeitan sem hann sækist í – stórfenglegt „cop out“, m.a.s. á Disney-skalanum .

Big Hero 6 er passlega skemmtileg saga og flækt vörukynning í kaupbæti. Hún hefur ofvirkt skemmtanagildi fyrir flesta í yngri kantinum en sárvantar meiri hnyttni og betra skipulag á sína heild til að ná ferskleikahæðum mynda eins og Wreck-It Ralph eða (enn síður) The Incredibles. Enginn yrði skammaður fyrir að muna lítið eftir þessari mynd eftir nokkra mánuði, nema þá undir nafninu „Baymax-myndin“.

fin

Besta senan:
Baymax og Hiro á flótta undan míkróbottum… áður en Baymax verður „fullur.“

Sammála/ósammála?