Taken 3

Þegar Pierre Morrel gerði fyrstu Taken-myndina þá tókst honum bæði að stuða svo mikilli orku og hörku í óttalega standard, heilalausa B-spennumynd og gera úr henni eitthvað aðeins meira en það. En líka var það því að þakka að Liam Neeson fann þarna einhvern hvata til að breyta sér í einn svalasta bíópabba nýju aldarinnar. Eftir fáein missterk ár sem hasarstjarna er orðið núna fulláberandi að hann er einungis skokkandi eftir launaseðli og eftir að Olivier Megaton tók við með bæði framhöldin var hvort sem er búið að mergsjúga allt saman úr uppskriftinni sem gerði fyrstu myndina svo grimmt skemmtilega.

Neeson má nú eiga það að hann er í aðeins líflegri gír núna en seinast. Kannski hafði sturlaða launahækkun hans eitthvað um það að segja ($20 milljóna tékki, halló!) en gæti tengst því að Taken 3 er ekki alveg sama rusl-endurtekningin á fyrstu myndinni og fylgir aðeins meira adrenalín og reiði í plottinu að þessu sinni, en gæði plottsins og úrvinnslunnar er allt annað mál.

coff

Hefndarfílingurinn er tekinn á nýtt stig á meðan splæsað er smá Hitchcock/Fugitive-takti þarna líka. Naglinn okkar Neeson er hundeltur, brjálaður, í hefndarhug, fókusaður og með hæfileikana uppi, og Forest Whitaker leikur skarpan lögreglumann sem er aldrei of langt á eftir honum. Allt þetta myndi hljóma svo miklu skemmtilegra ef væri ekki fyrir eitt… eða margt – það að myndin skuli vera næstum því jafnslæm og Taken 2. Öðruvísi jú, meira lifandi og flæðir betur en heilt yfir alveg jafnmikið táningavænt högg í fésið ef á að bera hana saman við frumeintakið.

Hægt er að ímynda sér að handrit skipti varla of miklu máli í svona mynd en það á eingöngu við um þegar skemmtanagildið ryðst fyrir. Hér er handritið bara einfaldlega lélegt, klisjukennt, sykrað, flækt og makalaust hlægilegt (og þarna er nauðsynlegt að undirstrika það að ofurmennið Bryan Mills lifir skrámulaust af fleiri en eina ruglaða bílveltu!). Hugmyndin er ekki allslaus en þetta er umfram allt skothelt dæmi um hvernig á ekki að vaða í svona afþreyingarmynd. Uppfyllingarefnið í kringum hasarinn allan er nógu aumt fyrir, en verra er það þegar hröðu eltingarleikirnir, byssubardagarnir og slagsmálin byrja þá gerast þær senur ekki meira þreytandi en þegar maður sér stundum ekki hvað í andskotanum er í gangi.

Öll taka og klipping jafngildir verstu eftirhermurnar af Paul Greengrass og seinni-ára Tony Scott á sínu yfirdrifnasta. Megaton virðist vera eðlilega sannfærður um að það betrumbæti tensjónið að klippa saman þrjú/fjögur nötrandi sjónarhorn í eina sekúndu þegar lætin fara af stað. Ofan á þau vonbrigði að þessi leikstjóri kann varla að setja saman nógu effektíva senu af neinni gerð þá bætist við sá harmleikur að ofbeldið hefur verið ritskoðað til að lokka fleiri unglinga. Bæði Taken 2 og 3 eiga það sameiginlegt að fjarlægt allar tennur úr hasarnum og í staðinn gert meira úr rjómalagaðri melódramatík. En eins og gerðist seinast eru engar líkur á því að grófari högg og brák í beinum séu að fara að ýta volgu hlandlyktinni frá. Hún er svo máttlaus og óspennandi þessi mynd að ég var farinn að finna til með öllum sakleysingjunum sem Neeson drepur ómeðvitað á meðan hann þýtur í gegnum allt og alla til að sanna sitt sakleysi.

ried

Whitaker er ásættanlegur en alveg út á þekju, með ekkert til að vinna með og nýtur aðallega góðs af því að gefa skipanir og éta beyglur. Mest undrandi leikaravalið er annars vegar Dougray Scott, í sama hlutverki og Xander Berkeley lék í nr. 1, eins og áhorfandinn eigi bara að taka það náttúrulega í sátt að þessi karakter hafi skyndilega yngst um 10 ár og fengið hárið sitt aftur að auki, burtséð frá því að hegða sér allt, allt öðruvísi. Scott er feykilega vandræðalegur en meira velti ég fyrir mér hvort það sé virkilega svona erfitt að fá Xander Berkeley eða hvort sá gæi hafi þá horft á fyrri myndir leikstjórans. Síðan er það Maggie Grace. Fín leikkona stundum en stendur uppi sem trúlega ein verst skrifaða kvenpersóna sem ég hef séð í spennuseríu, en gerir ekkert að gera annað en að væla, láta leiðbeina eða bjarga sér.

Seinast var það Non-Stop sem sýndi hversu auðvelt er fyrir hetjuna okkar Neeson að breytast ómeðvitað í litla sjálfsparódíu, þó það sé alltaf óneitanlega gaman að sjá hann lúberja illmenni – svo framarlega sem maður sjái hvað er á seiði. Neeson getur því miður ekkert bjargað ‘Tak3n’, eins mikið og hann reynir að vera ekki eins skítsama um allt og síðast. Það leynist samt einhvers staðar ágætis afþreying í þessari mynd sem hefði kannski ekki getað orðið að svona auðgleymdri blóð- og taktlausri travestíu eins og í höndum Megatons.

Bryan Mills fékk sína sénsa og klúðraði því, þannig að upp úr þessu væri skynsamlegra að heilsa frekar aftur upp á John Wick í staðinn.

thrir

Besta senan:
Mills nær „flugi.“

Sammála/ósammála?