Bestu (og verstu) myndir ársins 2014

2014 var skömmustuleg ofhleðsla á góðgætum. Frábær hlutur, en gerir það ekkert auðveldara að týna saman lista og smella númerum sem segja „afhverju“ önnur myndin er betri en hin, þegar margar þeirra gætu ekki verið ólíkari. Fjölmargar indí-myndir skiluðu sínu, ýmsar hreðjafullar stórmyndir en heildarhlaðboðið litríkt og flott, helst þar sem við fengum ekki aðeins hálfar bíómyndir. Árið rauk samt af stað þar sem sjaldan leið of langt á milli einhvers góðs auk þess að sjá fullt annað hrasa einnig á milli, hvort sem það var frá t.d. Hollywood almennt, Íslandi, Sony eða Wally Pfister…

Eins og staðan er á mér þegar þetta er ritaðá ég enn eftir að sjá „mögulega kandídata“ eins og Leviathan, A Most Violent Year eða Tammy. Þarna á ég að sjálfsögðu við um báða listana, þar sem minna fjör væri í þessu ef ruslupptalning ársins væri ekki með En ef einhver þeirra (eða allar) skarar eitthvað ógeðfellt fram úr þá edita ég þær bara inn eftirá. Það kæmi smekklegra út frekar en að reyna að finna upp einhverja afsökun að setja ’14 myndir á lista yfir myndir þessa árs. Absolút undantekningar eru leyfðar en annars reyni ég alltaf að miða við framleiðslu- eða jafnvel IMDb-merkta árið.

ÞÆR BESTU…

Runner-up myndir: Mommy, Force Majeure, Dawn of the Planet of the Apes, The Lego Movie, Noah, Vonarstræti, The Imitation Game, The One I Love, The Tribe, The Tale of Princess Kaguya

10. The Grand Budapest Hotel

The-Grand-Budapest-Hotel-WeLiveFilm-Review-1Wes Anderson kemur með bestu lifandi ‘pop-up’ bókina sem hann hefur gert hingað til. Hann er einn þeirra stílista sem hefur ekki alltaf hitt í mark en í The Grand Budapest Hotel fannst mér öll sérkennilegu, symmitrísku útlitsbrögð og einkenni hans ganga fullkomlega upp ásamt nokkrum nýjum. Ég elska alvarlegu undirtónana í þessu farsakennda sprelli, dýrka listrænu hönnunina og ef leikararnir eins og þeir leggja sig eru ekki frábærir, þá er Ralph Fiennes samt sem áður dúndursnilld sem ofurmannlega kurteis hótelstjóri með „thing“ fyrir eldri konum.  Einstaklega fyndinn og gordjöss konfektkassi.

9. Guardians of the Galaxy

IFÉg tel mig ekki vera einn af þeim sem tilbiður allt skilyrðislaust sem Marvel dælir út – en Guardians of the Galaxy, sem er eiginlega sjálfstæðasta myndin þeirra til þessa, er ekkert minna eða meira en toppskemmtun; alveg stjórnlaust æði í formi léttrar og pínu furðulegrar geimóperu sem vinnur mann til sín með persónunum, sálinni, húmornum, hasarnum og stemningunni almennt. Tónlistin gerir líka helling fyrir hana og James Gunn setur algjörlega sinn stimpil á allt yfirbragðið. Alltaf er gaman að sjá þegar einhver einn leikstjóri nær því í gegnum svona stóra brellumynd, ekkert ólíkt því þegar Joss Whedon og Shane Black brennimerktu sín Marvel-innslög áður fyrr. Guardians er hingað til með best heppnuðu myndunum frá þessu ofurfæribandi.

8. Interstellar

interstellar.thm_ (1)Bíóupplifun ársins, alveg klárlega, og hugrakkasta eyðslan á miklum Hollywood-peningum frá árinu ásamt hinni eðlilega umdeildu Noah. Gullfallegur og kröftugur tilfinningarússíbani með gamaldags sjónarspili og hlass af metnaðarfullum hugmyndum sem hún daðrar við. Christopher Nolan sækir í sterkan innblástur frá guðföður allra geimmynda (Space Odyssey) og klæðir upp melódramatískri (en ekki of væminni) sögu föðurs og dóttur á epískum skala, í miklum stíl við The Right Stuff og Contact. Hvort sem það komi mest við tárin hjá McConaughey, Hathaway eða Chastain, smámunasemi Nolan-bræðra eða orgelfullnægingu Zimmers, þá er Interstellar mögnuð nýting á bíóforminu. Gölluð heild, og ekki alveg meistaraverkið sem hún vill vera, en engu að síður flott, áhrifarík og framúrskarandi sci-fi afþreying á allan hátt sem hugsar bæði stórt og manneskjulega.

7. The Raid 2: Berandal

the-raid-2-image-4Alltaf þegar ég hélt að þessi mynd gæti ekki orðið geðveikari, þá tókst henni að toppa sig – aftur og aftur! Á meðalgóðu hasarmyndaári heldur The Raid 2 toppsætinu með enga samkeppni í sjónlínu (John Wick kemur þarna í öðru sæti). Stútfull af sársauka, ofvirkum og mögnuðum áhættuatriðum, sífellt pumpandi adrenalíni þannig að áhorfandinn gerist fullur þátttakandi í öllu sem er á seiði.

Ég elska fyrri myndina en fyrir minn smekk er hún þéttpakkaður (en borderline einhæfur) veisluforréttur í samanburði við þessa. „Meira af því sama“, „Less is more“ eða „Overkill“ eru hugtök sem eru þessari mynd algjör útlenska, og frekar en að stimpla sig sem einungis beina framhaldsmynd er The Raid 2 aðalpartíið í staðinn; miklu ljótari, stílískari bíómynd, öðruvísi í tón, miklu flóknari í innihaldi, dramatískari og slettir öllu blóði sínu á 300% stærri striga, með miklu meiri fjölbreytni og klukkutíma lengri. Söguþráðurinn er breiðari, dramatískt margslungnari og meira spennandi. Eftir myndina sat ég í óhuggulegri sæluvímu; útkeyrður, andlega ónýtur og meðvitaður um að þarna var liðin ein best gerða hasarorgía allra tíma.

6. Life Itself
sundance-2014-movies-we-should-look-forward-to-life-itself-1390238388-gp
„We all are born with a certain package, we are who we are… We’re kinda stuck inside that person, and the purpose of civilization and growth is to be able to reach out and empathize a little bit with other people.  And for me the movies are like a machine that generates empathy. It lets you understand a little bit more about different hopes, aspirations, dreams and fears. It helps us to identify with the people that are sharing this journey with us.“
– Roger Ebert

Life Itself hefst á þessum orðum og get ég samviskusamlega tekið 110%  undir þau. Roger Ebert var kannski umdeildur en sögulegur gagnrýnandi engu að síður og óneitanlega stórmerkilegur. Leikstjórinn Steve James (Hoop Dreams) hefur sett hér saman alveg hreint dásamlega heimildarmynd sem er hreinskilin, fræðandi, fyndin, skemmtileg, brútalt hjartnæm og inspírerandi eins og Ebert var nú sjálfur í augum fjölmargra. Þessi myndbrot af seinustu vikum hans taka á og heildina myndi ég kalla ómissandi, alveg sama hvort menn voru oft sammála ritverkum mannsins eða ekki. Vandaður fögnuður um kvikmyndir, ástina og feril manns sem ég bar persónulega mikla virðingu fyrir.

5. Nightcrawler

Screen-Shot-2014-10-22-at-3-29-30-PMBráðskemmtilega „létt“ og fyndin saga um dökkan og ógeðfelldan mann. Lou Bloom er einn af mínum uppáhaldskarakterum frá öllu árinu (ásamt Mr. Gustave og Amazing Amy). Viðkunnanlegur og markviss tækifærissinni í bland við sósíópata, með kapítalískan metnað og hegðar sér eins og rándýr. Það er nærri því allt sem gengur upp í Nightcrawler (t.a.m. myndatakan, tónlistin, leikstjórnin…) en það sem gerir hana og þ.a.l. herra Bloom svo brilliant liggur í handritinu og bestu frammistöðunni frá Jake Gyllenhaal til þessa. Tággrannur, dáleiðandi í löngum skotum og blikkar sjaldan augum. Það að Óskarinn hafi sleppt því að tilnefna hann sýnir bara að aldrei á að taka það sem sjálfsagðan hlut að halda að akademían þekki sig alltaf til um gæði.

4. Whiplash

WhiplashimgÁ marga vegu er Whiplash ekkert síður rússíbanareið heldur en t.d. Interstellar en þarf ekkert að vera að vesenast út í geim til að halda áhorfendum á tánnum. Heldur sýnir hún hversu óbærilega tens það getur verið að eltast við frábærleikann og gera kröfuhörðum skrímslakennara til geðs á sviði djasstónlistar. Óaðfinnanlega leikin, vel skrifuð, fitulaus í flæðinu og sett saman snilldarlega fyrir utan einstaka hnökra. En lokasenurnar eru algjört brill. Miles Teller og J.K. Simmons eru mest afberandi skjátvíeyki ársins að mínu mati.

3. Gone Girl

gone-girl-movie-still-11Enn einn níhilistagrauturinn frá David Fincher (eða réttar sagt, í samvinnu við rithöfundinn Gillian Flynn) en að þessu sinni sá öflugasti, margslungnasti og fyndnasti síðan hann matreiddi Fight Club. Hnífbeitt, spennandi og hrikalega skemmtilegt handrit (sem er blanda af þriller, satíru og biturri hjónabandskrufningu) með stíl og úrvinnslu sem veldur engum vonbrigðum miðað við fullkomnunaráráttuna sem fylgir vinnubrögðum Finchers, gæjans sem skýtur 100 tökur fyrir eina senu ef þörf þess eru. Í heildina meistaralega gerð aðlögun á klikkaðri bók, og mynd sem tapar heldur engu gildi í fleiri glápum þó maður viti allar flétturnar. Snilldin er í súbtextum hennar. Auk þess hefur Ben Affleck aldrei komið betur út, ekki einu sinni í sínum eigin myndum, og Rosamund Pike er eldfim og ógleymanleg. Tyler Perry er einnig frábær. Það er nýtt.

2. Boyhood

boyhood_aBoyhood er svo miklu meira en bara „gimmick-ið“ á bakvið hana. Hún er ekki ótrúleg mynd bara vegna þess að henni tókst að framkvæma magnaða tilraun sem aldrei hefur áður verið prufuð. Hún er ótrúleg vegna þess að hún er manneskjuleg og grípandi í einfaldleikanum og það að hún skuli hafa verið tekin upp á 12 ára períódu ýtir einungis undir áhrif hennar og trúverðugleika sem var þegar til staðar á blaði (þó eflaust mikill díalógur hafi verið spuni). Þetta er ein af þessum myndum sem ég skil fullkomlega hvernig öðrum getur hundleiðst yfir en Richard Linklater finnst mér algjörlega hitta naglann á höfuðið með þessari uppeldissögu, sem öll snýst um „litlu mómentin“ og ekki síður brattleika tímans. Ýmis lítil atriði byggja upp önnur smáatriði og heildarsýnin er uppfull af dýpt, pælingum, einlægni og huggulegheitum. Hversdaglegi takturinn á henni er, fyrir mér, ómótstæðilegur og leikararnir eru sterkir, sér í lagi vegna þess að maður finnur ekki fyrir því að þau séu að leika. Eins gott að Patricia Arquette fái sínar styttur. Með fullri virðingu fyrir stráknum Ellar Coltrane, þetta er hennar mynd.

1. Birdman or (The Unexpected Virtue of Ignorance)
BirdmanDökk, óstyrk, meinfyndin og alvörugefin ádeila og stúdering á geðveiki, leiklist og umfram allt einstök sýn á baráttu eins manns við eigið egó og mikilvægi, og hann er leikinn af Michael Keaton sem er sérsniðinn í hlutverkið – og ekki bara af augljósu, Batman-tengdu ástæðunum. Hann er samt umkringdur jafningjum, sama hvort þeir heita Edward Norton, Emma Stone eða Zack Galifinakis jafnvel. Þetta er öruggasta, mest trippí og eftirminnilegasta myndin frá Alejandro González Iñárritu, og mynd þar sem ýmsar furðulegar áhættur hafa borgað sig.

Einna-töku ‘handheld’ stíllinn eftir stórmeistarann Emmanuel Lubezki bætir við mikilvægum tens-leika í andrúmsloftið og gefur myndinni heilmikið líf, auk þess að blörra skemmtilega út allt tímaskyn um leið og fikta með senuskiptingar á hugmyndaríkan máta. Öll myndin er eins og lifandi bíóleikhús… sem hefur að auki margar hressar skoðanir á tilgerðarlegheitum leikhússins og heimskuvæðingunnar í Hollywood. Birdman hefur klær, hún er vægðalaus, snilldarlega leikin og sérlega vönduð. Ekki mun öllum finnast hún vera meistaraverk, en þetta er mynd sem allir unnendur kvikmynda eiga að sjá og er meira en þess virði að ræða um hana eftirá.

 

Og næst:

ÞÆR VERSTU…

Runner-up myndir: Grace of Monaco, Borgríki II, Hateship Loveship, Hercules, Walk of Shame, Sex Tape, Into the Storm, Rio 2, Annabelle, 3 Days to Kill

10. Blended

blended1Ég skal gefa leikstjóranum Frank Coraci það að hann er og verður aldrei eins slæmur og Dennis Dugan, en eins og allir vita hefði Sandler átt að vera löngu búinn að átta sig á því að vanda til vals með hverjum hann vinnur með eða bara gefast loksins upp. Í sanngjörnum heimi ætti hann að vera enn í menningarbanni eftir J&J eða GU(BB)2 en alltaf birtist hann aftur, og aftur. Nú dró hann með sér Drew Barrymore í skömmina til þess að reyna að ná sömu kemistríu og í betri myndunum sem þau gerðu saman… en það var ferlega langt síðan. Blended er alveg jafn vond og sjarmalaus og maður býst við þegar stjörnur gera bíómyndir í fríinu sínu. Og almenningur heldur áfram að leyfa honum að míga á peningana þeirra.

9. Transformers: Age of Extinction

Transformers-4-Autobot-CarsEin dýrasta og lengsta mynd sumarsins sem hafði ekki neinn annan tilgang í heiminum en að selja leikföng og græða pening í Kína… auk þess að sjá til þess að landið yrði dýrkað með látum í vörunni í kaupbæti.

Sem einstaklingur sem virkilega fílaði Dark of the Moon á guilty-pleasure skala finnst mér aldrei hafa verið meira áberandi hvað Michael Bay hættir ekki að endurtaka sig (og versnar bara þrefalt, ef eitthvað) og hættur að nenna þessu… án þess að fatta það sjálfur. Drasl4mers hefði sennilega ekki verið neitt betri flugeldasýning þó hún væri 40 mínútum styttri, en meira að segja hinir hörðustu Bay-aðdáendur áttu ekki einu sinni skilið þessa refsandi tæp-þriggja tíma setu. Þú veist að þú gengur út af bíómynd örlítið óþroskaðri og heimskari þegar þú horfir á svona langt „ekkert“ sem er sprengt upp ótakmarkað oft, drukkandi svo í auglýsingum og klisjum sem jafnvel Bay á að vera búinn að læra að forðast. Ég vissi ekki það væri hægt að langa svona mikið að skipta út Mark Wahlberg og vilja Shia LaBeouf aftur í staðinn.

8. Horrible Bosses 2

horrible_bosses_2Árið 2014 var ekkert sérlega sterkt fyrir grínmyndir, og fyrir hverja frumlega, skarpa og skemmtilega mynd eins og What We Do in the Shadows eða They Came Together fylgdu kannski þrír stúdíó-viðbjóðir í líkingu við Sex Tape eða – ef maður var extra óheppinn – Horrible Bosses 2. Það jákvæðasta sem ég get sagt um hana er að gerðar voru því miður ennþá verri framhalds-„tvistar“ á árinu en hún dró með sér voða fáa kosti út ágæta forvera sínum. Myndin er lin, þreytandi og gekk svo langt í heimskuhúmornum að Jason Sudeikis og Charlie Day – tveir grínarar sem ég vanalega fíla – gerðust óbærilega óþolandi.

The-Other-Woman-2014-Main-Reviwe7. The Other Woman

Cameron Diaz hefur aldrei átt vandræðalegra ár. Fyrst þessi, svo Sex Tape og síðan Annie (sem að mínu mati var ekki svo slæm en Diaz var algjör hörmung í henni…).  The Other Woman sækist í ódýran hlátur og virðist standa á sama með það að kvenpersónurnar í henni eru illa skrifaðar og ömurlegar. Hér áður tókst Nick Cassavetes að gera mjög fínar myndir (The Notebook, Alpha Dog) en ég veit ekkert hvað gæinn hefur verið að hugsa hér og gæti hann ekki staðið fjær föður sínum heitnum núna. Steindauð og böggandi mynd á alla fronta.

6. Dumb & Dumber To

dumb-and-dumber-to-jeff-daniels-jim-carreyTrailerinn var rusl, og myndin verri en ég bjóst við. Það er óneitanlega eitthvað pínu gaman við það að sjá Jim Carrey og Jeff Daniels njóta sín svona saman aftur eftir allan þennan tíma en að sama skapi grátlega niðurdrepandi þegar lokavaran gerir ekkert annað en að eltast við nostalgíu áhorfenda sinna. Fyrri myndin er enn sprenghlægileg en Dumb & Dumber To er úrelt, flöt og ódýr eftirmynd sem óútskýranlega féll í kramið hjá mörgum áhorfendum. Opnunaratriðið er viðurstyggð og skána djókarnir lítið út næstu 100 mínúturnar. Erfitt á ég með að muna hvenær Carrey var seinast SVONA pirrandi.

maxresdefault (1)5. A Haunted House 2

Einu sinni var sú tíð þar sem Wayans-bræður gátu af sér eitthvað sem var þess virði að hlæja af, en henni lauk umdeilanlega fyrir aldamótin. Fyrri Haunted House-myndin var stórlega ófyndin en þó reyndar skárri en pínda, óumbeðna framhaldið sem hún fékk.

4. Brick Mansions

Brick-Mansions-David-Belle2Skömm og særindi. Paul Walker nýdauður og þá kemur ein latasta og lélegasta spennumyndin frá honum síðan hann byrjaði. Eins og District B13 er nú stórskemmtileg er það einhvers konar móðgun fyrir hana hvað Brick Mansions gerir ekkert rétt. Hvert einasta hasaratrði drukknar í slow-mo endurtekningum, leikararnir allir ónýtir og keyrslan flöt og leiðinleg. Menn eru að eyðileggja virkilega fína hasarupplifun fyrir sjálfum sér ef þeir sjá þessa á undan hinni. Það er virkilega fátt sem ég get ímyndað mér sem er ekki skynsamlegri hugmynd að nota þennan pening í. Mikið sniðugra að veðja Walker í einhverjum af öðrum myndum hans. Running Scared kannski?

red3. Winter’s Tale

Ryan Gosling, Wally Pfister og handritshöfundurinn/-framleiðandinn Akiva Goldsman áttu það allir sameiginlegt að floppa hart með sínar frumraunir í leikstjórasætinu. Goldsman lenti samt verst í því og miðað við reynslu hann í bransanum og (óverðskulduðu) Óskarsstyttuna á hillunni (fyrir A Beautiful Mind) var a.m.k. hægt að búast við einhverju öðru frá honum en epísku athlægisefni. Winter’s Tale er aðeins of leiðinleg mynd til þess að sé hægt að horfa nógu oft á hana til að hlæja af, en almáttugur á priki hvað ein dýr mynd með frægum leikurum getur verið væmin, absúrd, yfirdrifin og óskiljanlega lúðaleg á tveimur klukkutímum. Russell Crowe leikur eins og hann hafi misst vitið og sjónin að sjá Will Smith taka sig alvarlega sem Lúsífer er eitthvað sem er betra að sjá til að trúa. Þannig er Winter’s Tale í hnotskurn. Hvílíkur viðbjóður, en mikið er ég feginn að þessi mynd sé til.

2. The Legend of Hercules

the-legend-of-hercules-exclusive-clip-1092199-TwoByOneBrett Ratner getur bærilega huggað sig við það að honum tókst ekki að gera verri Herkúlesarmyndina frá árinu, þó hans hafi alls ekki verið góð heldur. Renny Harlin var sá heppni og tókst honum nú að gera verri mynd – sem ætti minna skilið að fara beint á vídeó- heldur en The Covenant, og neita ég að trúa því að þessi eitt-sinn-ágæti leikstjóri (sbr. Ford Fairlane, Die Hard 2 og Long Kiss Goodnight) sé kominn á þetta level. Kellan Lutz er ekki alslæmur náungi, bara rangur maður í ömurlegri mynd. Það er ódýr keimur af henni og gæti maður þurft að sprengja úr sér æð til að reyna að standa ekki á sama um allt sem skeður í henni.

1. I, Frankenstein

frankenstein_aSvona gerist þegar þú reynir allt, alltof mikið að reyna að vera kúl, eða meira þegar þú reynir að vera eins „kúl“ og eitthvað í líkingu við Underworld. Mary Shelly hefur enn eitt skiptið þurft að snúa við í gröf sinni, eins og hún hafi ábyggilega ekki gert það nóg eftir viðbjóðinn sem tilheyrði Van Helsing. Aaron Eckhart hefur gert alveg frábæra hluti á sínum ferli (förum yfir það… Thank you for Smoking, The Dark Knight, ) og hérna er hann algjörlega týndur og reynir sitt besta til að halda andlitinu. Annars er hann bara pikkfastur í ofkeyrðu rusli, umkringdur tölvuleikjabrellum, asnalegu sló-mói og söguþræði sem myndi fallast í yfirlið af leiðindum ef myndin væri ekki svona hröð.

 

Og smá að lokum – vonbrigði ársins:
Transcendence, The Amazing Spider-Man 2, The Monuments Men, Edge of Tomorrow, Exodus, A Long Way Down, The Interview, Foxcatcher

Sjá einnig:
Vanmetnu/ofmetnu myndir ársins

Ein athugasemd við “Bestu (og verstu) myndir ársins 2014

  1. verð að vera ósammála með vonbrigðin.. fannst Foxcatcher með eindæmum góð og Carell alveg frábær í henni… og ekki er ég neitt sérstaklega hrifinn af glímu.. Reyndar var ég gríðarlega ósáttur við að Ruffalo var myrtur, enda mikill Ruffalo maður og á hann skilið að lifa út heila mynd ;) einnig Edge of Tomorrow.. sem er líklega það langbesta sem hefur komið frá Tom Cruise í mörg ár. Mun betri en þessi þarna M:I 4/5/6 mynd þarna þar sem hann var að sjúga Burj Khalifa í Dubai.

Sammála/ósammála?