Vanmetnu/ofmetnu myndir ársins 2014

Stundum er maður með í hæpinu, stundum ekki. Stöku sinnum hrúgast almúginn á myndir sem eiga það ekki skilið og gerist það líka að maður hristir hausinn yfir einhverju sem er stanslaust ausið lofi…

Fyrst koma…

VANMETNUSTU MYNDIR ÁRSINS

Noah

noah-2026-hd-screencaps1

Íslendingar, af öllu fólki, voru sérlega reiðir út í þessa mynd. Fólki fannst hún of spes, leiðinleg eða bara hreinlega asnaleg. Þetta eru lýsingarorð sem ég skil ekki því myndin sem ég sá (oftar en einu sinni í bíói) er heimskulega djörf, falleg, ljót, melódramatík, tens og fer algerlega eftir sínum eigin reglum – svona Cecil B. Demille á sýru.

Vitað var það frá upphafi að Darren Aronofsky væri að henda sér út í eitthvað umdeilt, hugsanlega eitrað, bæði vegna þess að hann tók sinn eigin dramatískt ruglaða fantasíusnúning á biblíusögu og líka vegna þess að hann gerir ekki beinlínis bíómyndir fyrir hvern sem er. Noah hefur sína galla en umgjörðin og samsetningin finnst mér vera frábær, tónlistin geggjuð og leikararnir ekkert síðri. Ef horft er framhjá þessum fjallaháa framleiðslukostnaði og PG-13 merkinu, þá má finna hér að Aronofsky hefur ekkert verið að selja sig út.

Margir rammar í Noah eru hreint og beint listaverk og ég, annað en flestir, sá návæmlega ekkert neikvætt við t.d. það að fá grjótskrímsli í mjög, mjög grimma sögu sem dílar við fórnir, ógeðfelldar ákvörðunartökur og geðveikisköst. Það eitt hvernig handritið breytir aðalpersónunni – hetjunni sem við höldum upp á – í „illmenni“ eftir miðbikið, er stórmögnuð tilbreyting í Hollywood bíói.

Eins hef ég aldrei séð landið okkar nýtast betur í svona stórri rullu án þess að það kallist túristakynning.

RoboCop

gary

Enginn bjóst við góðri mynd hér, en ég er tiltölulega opinn þegar kemur að svona löguðu. Ef endurgerð er léleg þá lítur frummyndin bara enn betur út en ef hún er í lagi og helst óháð þá eru til tvær ólíkar útgáfur komnar á borðið vandræðalaust. RoboCop ’14 tók kannski ódýrari, söluvænni vinkil á gamlan efnivið sem hin ávallt stórskemmtilega Verhoven-myndin byrjaði með, en myndin gerði hins vegar líka eitthvað sem alltof fáar endurgerðir gera að mínu mati; hún prufaði eitthvað nýtt með hugmyndina á sama tíma, með því að smella öðruvísi tón og meiri fókus á gangverkin á þessu öllu og prufa að djóka ekki með það. Hvar endar manneskjan og hvar tekur vélin við? Senan þar sem búningur Murphys er strípaður burt er virkilega töff.
Sumum leið eins og þeir voru að svíkja lit með því að kalla þessa mynd fína. Hún hefði átt að vera og getað orðið hræðileg en aðstandendur (þar helst leikstjórinn sem gerði Tropa De Elite-myndirnar) voru greinilega eitthvað að reyna að gera úr þessu prýðilegt bíó. Og ef ég meðtek þessa mynd sem sci-fi spennumynd (með meiri áhuga á karakterum og mannlega þættinum heldur en hasar) á eigin fótum í stað þess að bera hvort tveggja saman, þá er hún bara nokkuð sólid.

Svarti búningurinn er samt viðbjóður. Það er allt Keaton að kenna að sá klassíski fékk ekki að halda sér.

Sin City: A Dame to Kill For

sin-city-a-dame-to-kill-for-is-both-good-and-disappointing-5a0c249c-4b29-437a-b393-12c8de72458a

Öllum var sama. Bæði gagnrýnendur og áhorfendur ypptu flestir öxlum – þeir fáu sem lögðu í hana – jafnvel þeir sem elskuðu fyrri myndina. En eftir 9 ár voru þeir Rodriguez og Miller bara orðnir alltof grimmir við sína aðdáendur og hefðu hiklaust mátt vanda sig meira. Þeir hefðu þurft nánast að finna hjólið upp á ný og gera eitthvað stórmagnað til að vekja aftur athygli eftir þessa bið. En Sin City 2 átti aldrei séns á því að vera eins byltingarkennd í dag og forverinn var á sínum tíma (enda ein fyrsta myndin í heiminum til að vera öll skotin á grænum tjöldum). Rogdriguez og Miller mega samt eiga það að vera fyllilega trúir hráefninu,

Sem dyggur aðdáandi myndsagnanna (70% þeirra allavega) og fyrstu myndarinnar átti ég von á því að hata þessa mynd, sérstaklega eftir að ég sá The Spirit og síðar meir Machete Kills. Í ljós kom bara hin prýðilegasta pre-/sequel/systkinamynd sem smellir asskoti vel við hina myndina – burtséð frá einni risastórri continuity-gloppu…

Sögurnar eru ekki nærri því eins sterkar allar, hún lýður líka fyrir margt og helling annað en sjónrænt séð er hún geðveik og stílíseraði noir-andinn er áfram akkúrat eins og hann á að vera. Góð tónlist og fullt, fullt af góðum leikurum að njóta þess að vera ýktir og yfirdrifnir í miðju skrípó-ofbeldi. Eva Green átti dásamlegt Miller-ár með þessum dúndrandi kynþokka sínum.

Ég mæli samt framvegis með að þegar horft er á myndirnar saman að þá sé byrjað á A Dame to Kill For.

They Came Together

Það er ekkert nýtt að rífa rómantískar gamanmyndir í sundur, hlæja að þeim og benda á gallana þeirra en aldrei hef ég séð það gert með eins grillaðri nákvæmni og hér, frá teyminu sem gerði Wet Hot American Summer og Role Models. Margir horfðu á They Came Together og áttu annaðhvort von á því sem hún er einmitt að skjóta á, eða meta-húmorinn bara ekki skilað sér í gegnum vitleysuna. Fyrir mér minnir þessi mynd mig á allt sem góðar spoof-myndir voru einu sinni, þegar þær höfðu eitthvað að segja um geirana sem þær voru að stæla. Þetta er það næsta sem við fáum í líkingu við gömlu góðu Zucker-Abrahams myndirnar. Spoof-geirinn er kannski ónýtur í dag en ég myndi alveg setja They Came Together á hilluna með myndum eins og Black Dynamite og MacGruber. Hún er steik en hún er virkilega, virkilega hress og meðvituð um sig sjálfa. Húmor er auðvitað einstaklingsbundinn og allt það blabla en sumt í þessari mynd er frussandi snilld.

Lucy

lucy-scarlett-johansson-picture

Það er skiljanlega erfitt að búa til afþreyingarmynd um ofurgáfur og Lucy er furðuleg blanda af nautheimskri hasarþvælu og filósófíubulli sem hefur í alvörunni eitthvað að segja. Aðdáendur höfnuðu margir myndinni… tja… vegna þess að hún er alveg mökkbrjáluð; óhefðbundin en samt svo absúrd. Scarlett Johansson hefur aldrei átt betra ár en þetta árið – frábær í leðrinu og tilsettum leiktilþrifum í Winter Soldier, djörf og áhrifarík í Under the Skin og í Lucy lumar hún á sér fjölbreyttum dramatilþrifum, sem varpar enn meira ljósi á hversu furðuleg hasarmynd þetta er. Luc Besson hefur ekki gert neitt svona athyglisvert og fjörugt síðan The Fifth Element og ég kann að meta það hvað hann missir sig „eipsjitt“ mikið því lengra sem á líður. Handritið verður heimskara og heimskara eftir því sem titilpersónan verður sífellt gáfaðri en miðað við hversu stutt ræman er má alltaf tryggja það að nóg sé andskoti um að vera allan tímann. Fíl’ana.

The One I Love

onei

Ein af betri myndum 2014 fannst mér, allavega ein af óvæntustu perlunum sem ég rakst á án þess að vera skít um hana, annað en hverjir léku í henni (og myndin er aðeins borin uppi af tveimur leikurum – þeim stórskemmtilegu Mark Duplass og Elizabeth Moss) og lauslega það sem hún fjallar um. En meira var það ekki og – með akkúrat tilliti til þess að halda óvissunni – get ég vel sagt að hver sena eftir fyrstu 20 mínúturnar hélt mér í sjokkerandi óvissu um framhaldið.

The One I Love er fyndin, sérstök og undarlega marglaga mynd um sambönd. Frábært dæmi um hvað þú getur gert mikið við fáa leikara, eina staðsetningu og djúsí handrit. Það þurfa miklu fleiri að sjá þessa mynd, því það er heill hellingur af tvísýnu stöffi til þess að ræða um eftirá – eins og þessi endir…

PS. Leikstjóri myndarinnar er sonur appelsínunöttarans Malcolm McDowell.

Aðrar: Earth to Echo,  Cheap Thrills, Grand Piano, Locke, Oculus, TMNT, Dead Snow 2, Odd Thomas, Godzilla?

ÞESSAR OFMETNU…

American Sniper

jingo

Ef nafnið hans Clints Eastwood fylgdi ekki þessari mynd hefði hún trúlega aldrei fengið allar þessar tilnefningar frekar en Lone Survivor á sínum tíma. The Hurt Locker finnst mér m.a.s. nógu ofmetin en hún er helmingi betri en þessi og batnar bara í samanburðinum. Kannski náði hún bara mikið athyglisverðri dýpt úr lykilpersónu sinni og tens aðstæðum hennar en American Sniper er einfölduð, sundurlaus í heildarsýninni (þó ýmis góð atriði séu í boði að ógleymdri frammistöðu/eftirhermu Coopers) og löðrandi í dulinni hetjudýrkun og svokölluðum „jingo-isma“. Saga leyniskyttunnar Chris Kyle býður upp á margt hrátt og gott á bardagavellinum en handritið mistekst alveg í því að gera hann að athyglisverðum eða flóknum karakter á tjaldinu – ekki nema hann lifði bara í svona mikilli klisju (en skráðar staðreyndir benda virkilega til þess að stærstu gallar þessa manns voru strípaðir hér burt). Hvernig sem á það er litið, sem og pólitíkina, þá fann ég ekki fyrir mörgu í American Sniper sem er ekki auðfundið í töluvert sterkari og bitastæðari myndum um stríð og eftiráhrif þess.

The Babadook

Betur heppnuð sem krípí metafóra heldur en nokkurn tímann hrollvekja. Óaðfinnanlega leikin (og það er mikið sagt þegar annar aðalleikarinn er sex ára), öflug í andrúmsloftinu en sparsöm á gæsahúðina. The Babadook er innihaldslega séð allt það sem ég sækist eftir í mynd af þessari týpu… fyrir utan ástæðu til þess að sofa með ljósin kveikt. Hún skildi ekkert hroðalega mikið eftir sig þó mig hlakki til að sjá hvað leikstýran Jennifer Kent gerir næst, en ég tel það vera meira merki um glatað ár fyrir geirann heldur en lof um gæði Babadúksins þegar hann er farinn að dúkka stöðugt upp á fjölmörgum topplistum, og hvað þá þegar fleygð eru orð í hann eins og „Besta hryllingsmynd til margra ára…“
Jánei.

Big Hero 6

BIG HERO 6

Skemmtileg „japamerísk“ blanda, svindlar reyndar smá í lokin og er ekkert brjálað eftirminnileg í heildina fyrir utan auðvitað besta karakterinn, Baymax. Við elskum öll Baymax af ástæðu („fist bump“) en ímyndum okkur hvernig Big Hero 6 væri án hans. Ekki mikið. Disney og Marvel eiga að geta miklu betur en þetta í sameiningu.

All You Need is Kill/Edge of Tomorrow/Live.Die.Repeat

Ég elska að sjá Tom Cruise deyja brandaralega oft – og neyðarlega – jafnmikið og næsti gaur, og Edge of Tomorrow fær fullt af punktum fyrir gott rennsli og fína orku, en handritsholur, aumur lokakafli og enn verri endir varpa meira ljósi á það hversu miklu er stolið úr betri myndum. Þarna tek ég það ekki einu sinni inn í málið að hún er byggð á myndasögu. Hana hef ég ekki lesið en ég á erfitt með að ímynda mér það að hún dragi með sér sömu klisjugalla og myndin. Grunnhugmyndina fíla ég en úrvinnslan stenst ekki skoðun. Afþreyingargildið hélt sínu í fínan tíma en myndin þótti mér skilja merkilega lítið eftir sig. Cruise er í fantaformi, og þess vegna er bara leiðinlegra að hún sé ekki betri.

The Fault in our Stars

Hér er mjúklega, huggulega en stundum tilgerðarlega tekið á alvarlegu málefni til að krútta þetta upp í „Notebook-handa-unglingsstelpum“ pakkningu.  The Fault in our Stars er vel leikin en tapar sér meira í vandræðalegheitum heldur en hlýju, þó einlæg sé. Kannski eru seinustu þrjátíu mínúturnar betri ef maður sér ekki allt er að gerast fyrir rennslinu og móðunni í sjóninni sökum táraflóða. Mín augu voru grátlega þurr út alla myndina og persónurnar voru ekkert sérlega eftirminnilegar (hann sérstaklega uppteiknaður sem kynandstæða Manic Pixie Dream Girl-týpunnar). Væri ég 14 ára stelpa væri hljómurinn í mér kannski annar.

Chef

_DSC3847.NEF

Jon Favreau hefur lengi þurft á því að halda að snúa sér aftur að rætum sínum og gera eitthvað lítið og persónulegt, og það gerði hann. Því miður gerði hann bara ekkert voðalega góða mynd annars vegar; girnilega, krúttlega, huggulega en illa skrifaða og hálfstefnulausa á köflum. Leikararnir eru allir vingjarnlegir og skemmtilegir en margir þeirra vannýttir og slaufuhnýtingin á sögunni í lokin var einum of mikill sykumassi. Útreið Favreau gegn gagnrýnendum gerir myndina þó þess virði, og ég held því enn fram að þetta hafi eitthvað með Cowboys & Aliens dómana að gera (eða… Made? eða Iron Man 2?). Sjáðu hana saddur eða étandi. Og viti menn, hún Scarlett birtist í þessari líka.

Under the Skin

a1951562-937e-4bba-a426-f3b65acf8350

Blanda af gjörningi, sci-fi trippi, falinni myndavél og tónlistarvídeói. Ótrúlega, ótrúlega vel kvikmynduð, eftirminnileg, drungaleg og athyglisverð… en líka ekkert sérlega grípandi frá byrjun til enda og satt að segja bara fratleiðinleg í sumum sprettum. Þýðingarmikil en á sama tíma stútfull af átakanlegum endurtekningum. Scarlett hefur aldrei verið betri, hugrakkari eða meira lokkandi (fleiri hafa væntanlega séð nöktu rammana á netinu heldur en myndina sjálfa), en það er meira listræni hégóminn í Jonathan Glazer sem mér finnst draga úr öllum krafti verksins. Ég tek það samt fram að ég HATAÐI seinustu myndina hans, Birth.. jafnmikið og ég elska hans fyrstu, Sexy Beast. Under the Skin er góð, abstrakt og skerí nýting á myndmáli og tónlist sem leggst djúpt í þig. Eins töff og hún er svæfandi, ég gef henni kredit fyrir að vera ein af mest „out there“ myndum ársins.

 

Aðrar: Fury, París norðursins, The Hundred-Foot Journey, Muppets Most Wanted, The Theory of Everything, Foxcatcher,

 

Hér eru bestu (og verstu) myndir ársins

Ein athugasemd við “Vanmetnu/ofmetnu myndir ársins 2014

  1. Mjög sammála með Noah, Sin City, They Came Together, Lucy, Babadook, Big Hero 6, Edge of Tom og TFIOS.

    Gríðarlega ósammála með Under the Skin og Foxcatcher :)

    P.S. Er einhver séns á hlélausri Birdman sýningu? Það væri æðislegt :)

Sammála/ósammála?