Unbroken

Ekki vantar eldmóðinn í hana Angelinu Jolie þegar hún er sest fyrir aftan tökuvélina. Hún hefur hjartað og öryggið til að tækla krefjandi umfjöllunarefni með sterkum skilaboðum. En alveg eins og gerðist með fyrri myndina hennar, In the Land of Blood and Honey, leynir sér miklu betri kvikmynd heldur en úrvinnslan sem skilaði sér (þó sú mynd hafi verið nokkuð fín). Unbroken er ósköp eðlilegt dæmi um ómerkilega mynd um stórmerkilegan einstakling.

Jolie virðist hafa vaðið beint í Óskarsbeitu eftir pöntun og vonað að öll hráefnin skili sér – og hvílík hráefni! Átakanleg raunasaga, skrifuð af Coen-bræðrum, kvikmynduð af meistaranum Roger Deakins og Alexandre Desplat semur tónlistina. Leikarar smellpassa flestir, umgjörðin fín og – þegar tölvuhannaðir saumar eru ekki of áberandi – rúmlega það… en svo hrynur þetta allt í einn ofreyndan meðalmennskupoll. Fræðandi í sögulegu gildi en lítið meir. Jolie er nefnilega meira í þeim pakka að segja allt beint út frekar en að sýna, eða fara eitthvað dýpra í bakgrunn mannsins sem hún fjallar um.

Unbroken

Saga ítalska langhlauparans Louis Zamperini væri næstum því efni í heila mini-seríu, því svo sannarlega er af nógu að segja, frá Ólympíuleikaárum hans til stríðsins sem hann barðist í, 47 daga dvalar hans úti á sjó í björgunarbát áður en við tók rúmlega tveggja ára þjáning í mismunandi fangabúðum; akkúrat svona grimmt en upplífgandi stríðsdrama sem hefur burði til þess að vinna bílhlass af verðlaunum ef rétt gert. En ekki þegar þetta kemur út eins og rándýr, volg sjónvarpsmynd.

Þegar myndin nær að vera átakanleg, þá er það vegna þess að raunasagan býður upp á áhrifin, ekki vegna þess að Jolie kvikmyndar þau með svo miklum krafti. Þvert á móti eiginlega, og þó Zamp hafi því miður upplifað sinn skerf af brútal endurtekningum, þá þarf bíóaðlögunin að passa að missa sig ekki í því. Unbroken er oft þannig, en meira bara einsleit, langdregin og áhættulaus. Jolie þrýstir á yfirdrifna hetjudýrkun og melódramatík á vitlausum stöðum og misstígur sig sóðalega þegar hún lokar myndinni sinni með textaskilaboðum sem segja þér út á hvað þematíkin gekk út á í stað þess að koma því sjálf fyrir í innihaldinu eða leikstjórninni.

redff

Jolie er sannfærð um að hún sé með miklu, miklu sterkara handrit í höndunum en hún hefur, og enn finnst mér furðulegt að það skrifist mestmegnis á Coen-bræður. Zamperini virðist aldrei vera uppteiknaður sem þrívíð manneskja frekar en táknmerki stálharða þol og getu mannsandans. Þetta er fínísseruð predikun á hugrekki og viljastyrk. Allt sem hefur verið í gangi í hausnum á honum fær ekkert svigrúm; togstreita hans og trúefasemdir, líða og tengslin við félaga sína. Mestallt bein, lítið kjöt.

Jack O’Connell hefur ótrúlega hratt náð að sanna sig síðustu misseri (sjá Starred Up, eða ’71) og er frábær í aðalhlutverkinu, nær jafnvel að gera meira úr sinni viðveru heldur en blaðið hefur leyft. Okkur líkar allan tímann vel við Zamperini og dáumst að stóísku hörku hans jafnt sem hjartahlýju, en þrátt fyrir að eyða heilli bíómynd með honum, endurlitum hans og erfiðu aðstæðum, kemst hann aldrei til skila sem fullbúin manneskja. Skimað er alveg yfir alla baksögu hans til þess að fylla upp í eyður og nota sem uppstillingu síðar meir. Fyrir vikið verður myndin bara helmingi væmnari.

unbroken-jack-oconnell-finn-wittrock-domhnall-gleeson

Bestu atriði myndarinnar eru flest að finna þegar Zamp og félagar hans voru strand á sjó, og það er trúlega ástæðan af hverju ég held að Jolie gæti gert miklu betri hluti (í bili a.m.k.) á smærri skala fyrir aftan vélina þegar hún leyfir henni að liggja beint upp við leikara sína. Hún er oft með litlu mómentin á hreinu en á mikla æfingu eftir hvað varðar heildarmynd.

Það er rétt svo þess virði að sjá Unbroken bara til að fræðast um manninn þegar hún er ekki öll að reyna að stjórna þínum tilfinningum. En meira að segja Óskarsakademían sá í gegnum viðvaningslegu samsetninguna. Segir það ekki allt?

fimm
PS. Hvílík tímasetning var það samt að gera þessa kvikmynd og ná að klára hana rétt og sýna Zamperini áður en hann lést, aðeins vikum seinna.

 

Besta senan:
Högg-halarófan.

Ein athugasemd við “Unbroken

  1. „Saga ítalska langhlauparans Louis Zamperini væri næstum því efni í heila mini-seríu“

    Þú hittir naglan á höfuðið hér. Myndin skautar yfir æsku og hlaupaferil Zamperini, hún tekur á sjáskaðanum og verunni í fangabúðunum á frekar grunnann hátt („The Bird“ er sýndur sem einhliða karakter, myndinn fer ekkert út í bakgrunn hans sem gerir það að verkum að hann verður aldrei trúverðugur karakter) og síðan sleppir hún því að fjalla um það sem gerðist eftir stríðið sem út á fyrir sig hefði getað verið efni í heila bíómynd. Hún hefði getað sýnd Zamperini takast á við afleiðingar þess sem gerðist í búðunum, alkahólismi hans, hefndarþorsti hans og að lokum „frelsun“ hans. Einnig var ævi Watanabe eftir stríðið mjög áhugaverð, en hann var einn eftirlýstasti stríðsglæpamaður Japans að stríðinu loknu og að þeim sökum þurfti hann að vera í felum í sjö ár, en eftir það tókst honum að verða milljónarmæringur. Það hefði því verið áhugavert að sjá sannsögulega bandaríska stríðsmynd þar sem að skúrkurinn kemst ekki bara upp með það sem að hann gerði, hann verður fokking ríkur í þokkabót.

    Unbroken á það sameiginlegt með The Monuments Men (önnur slæm WWII mynd frá 2014) að báðar þessar sögur hefðu þurft á því að halda að vera mini-seríur sem hefður kafað mun dýpra í efnið heldur en þær grunnu sketsalegu myndir sem gerðar voru eftir bókunum tveimur.

Sammála/ósammála?