American Sniper

Clint Eastwood lætur enn ekki aldurinn stoppa sig í virkninni enda getur hann varla átt margar myndir eftir í sér. Hvernig hann hendir frá sér hverri Óskarsbeitunni á eftir annarri sýnir að hann ÆTLAR sko að ná einni styttu í viðbót áður en grimmu, gömlu töffaraaugun verða ekki pýrðari. Í þetta skipti tókst honum að vinna sér inn athygli verðlaunanefndarinnar með einhliða, kraftlausri endursögn af umdeildum einstaklingi, sem laumar svoleiðis á sér öfgastolti og hetjudýrkun.

Clint er yfirleitt svo leiðinlega kaldur leikstjóri og hefur ekki gert hlutlaust frábæra kvikmynd í mörg ár núna. Fyrir utan akademíuna er ljóst að American Sniper er gerð fyrst og fremst fyrir nánustu fjölskyldumeðlimi leyniskyttunnar Chris Kyle og alla sem taka hattinn ofan af því sem hann stóð fyrir. Af bíómyndinni að dæma lifði Kyle aftur á móti í mikilli klisju.

TA3A5741.DNG

Það eru mörg, mörg gögn sem sýna fram á það að miklu meira og athyglisverðara eða umræðuverðara hefði verið hægt að segja frá í tengslum við sögu Kyle. En til þess að fara í þá átt hefði þurft á aðeins meiri hreðjum að halda heldur en Clint pakkar á sér, og fyrir mér missti hann þær eftir lokasönginn í Gran Torino. Þessi er eins flöt og gervileg í dramatíkinni sinni og umtalaða, augljósa dúkkubarnið sem Bradley Cooper reynir að leika á móti. Strax komið annað merki um að gömlu augu mannsins eru ekki eins skörp og þau voru.

cooper
Atriði sem öskrar „Sjáðu myndina á stórum skjá!“

Ef horft er framhjá tæknivinnslunni og leik stendur eftir virkilega slök, tómleg mynd, og sennilega hörmung ef hún væri ekki „sannsöguleg“; American Sniper er alltof heltekin af bitlausri frásögn og ranghugmyndum um að hún varpi einhverju þýðingarmiklu ljósi á eftiráhrif stríðs. Lítið er verið að predika um pólitík stríðsins en erfitt er að troða inn einhverri meðaldjúpri áherslu á innri baráttuna sem ytri þegar innihaldið hugsar annaðhvort í svarthvítu eða fánalitum. Tens-leikinn er þó alltaf undirliggjandi, þau skipti sem það býðst og þegar það jaðrar ekki við svokallaðan „jingo-isma“.

Hvernig sem á það er litið, sem og pólitíkina, get kannski skilið að sé eitthvað symplískt afþreyingargildi í henni ef maður leitast bara eftir einhverju beinskeyttu og flott gerðu (mínus helst dúkkan og óléttubumban…), en þá kemur hvort sem er ógeðfelldi og púðurslausi endirinn og eyðileggur allt. Virkilega.

Persónulega finnst mér Bradley Cooper hafa staðið sig miklu betur í betri myndum eða kjötaðri rullum (The Place Beyond the Pines t.d.) og er leiðinlegt að sjá hann gefa svona mikið af sér í feyknagóðri eftirhermu þegar ekkert er gert til þess að gera Kyle nógu áhugaverðan á skjánum, bara niðurstrípaða staðaltýpu, með tilliti til þess í handritinu að manneskjulgu persónugallar séu í allra lágmarki.

1280x720-AX0

Cooper hefur aldrei umbreytt sjálfum sér eins mikið líkamlega (og þyngdaraukingin var víst hans frumkvæði, ekki Clints) og ætti maðurinn núna fyrir fullt og allt að vera búinn að þagga niður í þeim sem kalla hann hvorki leikara né fjölhæfan. Á mjög stuttum tíma hefur hann tekið ótrúlegustu stökk á ferlinum, með smá „mini-McConaissance“ í gangi. Sienna Miller er einnig afar góð sem eiginkona hans, og er ótakmarkað hversu mikið hún hefði getað gert ef hlutverkið væri ekki svona einnóta, eins með flesta aðra „karaktera“. Kannski hefði það betrumbætt söguna að sýna stríðskaflana meira í löngum flassbökkum og setja meira bit og filterslausa einlægni í samband hjónana (sem er svosem ekkert alltaf sýnt sem neinn dans á rósum en ferlega sykurhúðað allt í samanburði við skráðar heimildir). En hnökrar með strúktúr er svosem ekkert nýtt fyrirbæri með þennan leikstjóra.

Ef nafnið hans Clints fylgdi ekki þessari mynd hefði hún trúlega aldrei fengið allar þessar tilnefningar, ekkert frekar en Lone Survivor á sínum tíma. The Hurt Locker finnst mér m.a.s. nógu ofmetin en hún er helmingi betri en American Sniper og batnar bara í samanburðinum þegar maður sér með hversu ólíkum hætti er hægt að fara með sambærilegt umfjöllunarefni, svona þematískt séð. Aðeins örfáar senur sem virka gera heildarmyndina eða skilaboðin ekki þess virði að eyða peningnum í hana. Cooper á það rétt svo skilið, Clint ekki.

fjarki
Besta senan:

Opnunaratriðið, sem útskýrir kannski af hverju trailerinn er svona sterkur. Dúkkusenan kemur annars sterk inn.

Sammála/ósammála?