Mortdecai

Maður veit orðið ekkert lengur hvað á að kalla Johnny Depp. Langt er liðið síðan eitthvað frá honum taldist til alvörugefinna leiktilþrifa áður en hann datt í skrípalega skemmtikraftinn. Seinast þegar hann reyndi að vera alvarlegur var hann drepleiðinlegur og steinsofandi (Transcendence), annars aðallega hvergi farinn að skemmta mikið fleirum en sjálfum sér þessa dagana.

Blandið saman fransk-kanadíska viðbjóðinum sem Depp lék í Tusk við son Bleika pardussins og þá skýst út Mortdecai, sem gerir allt nema að slíta æð til að sjá til þess að allir veltist um gólf yfir sér… því hann er (en ekki hvað…?) svo sérvitur!

morty

Depp er ekki beinlínis eitthvað eitrað óþolandi; það er allavega meiri neisti og fjör í honum hér heldur en undanfarið en það skolast allt svolítið burt þegar farsafígúran sem hann leikur er ófyndinn, þreytandi karakter. Öll myndin er límd saman úr yfirskyggilega flötum, óspennandi söguþræði og sömu skrattans bröndurunum, aftur og aftur. Ef fólki finnst það ekkert sérstaklega fyndið í fyrsta skiptið að þola mottubrandarana eða öfgakenndu kurteisistaktana í Mortdecai, þá bíður þeirra langdregin og refsandi seta, með óvæntari flissum á milli.

Sem glæpagrínmynd er hún yfirdrifin með stolti og sækist í skemmtilega retró-brag (þar kemur líka Pink Panther samanburðurinn), með furðulegan, oft ánægjulega súran takt í húmornum, sem hefði alveg getað þjónað klabbinu öllu meira ef ekki væri of mikið að biðja um smá hugmyndaflug með öllu flippinu. Í þess stað kemur bara sjálfumgleðin og þurrkar allt út með þurrum farsastælum og „edgy“ aðstæðugríni sem hefði ábyggilega lyft upp einhverjum augabrúnum fyrir 15-20 árum síðan (en nota bene, hún er algjör skræfa með þennan R-stimpil sinn) án þess að myndin hefði eitthvað orðið betri. Stöku sinnum er eitt og eitt í handritinu sem hittir óskiljanlega í mark, og oftast er það þá leikurunum að þakka, ekki því sem stóð á blaðinu.

Orkuna í Depp kann ég að meta en hún hefði svo innilega geta betur nýst annars staðar. Ef fólk vill frekar sjá hann leika… segjum „menningarlegan“ skíthæl sem er knúinn af peningagræðgi, ferðast um heiminn og flækist í furðulegan vef, þá er alltaf hægt að snúa í allt aðra átt og dusta rykið af The Ninth Gate… Leikarinn grettir sig allavega minna þar. Hvað Mortdecai varðar hefur han verið áður helmingi vandræðalegri en sjaldan sorglegri þegar maður hugsar um rusl-rullurnar sem að baki standa staflaðar.

Gwyneth Paltrow á ég oft nógu erfitt með að þola þegar hún lendir óvart í góðu myndunum, og þegar hún leikur tuðandi, abstrakt ósjarmerandi týpu, eins og í Mortdecai, batnar þolið lítið þegar hún kúgast oftar en þrisvar á kameru og ætlast til að þú hlæir að því. Í Gwyneth-landi er þetta ábyggilega allt drepfyndið, en áhorfendur eru í þeirri hættu að fá verk í augun yfir magni ranghvolfa.

MORTDECAI

Það er samt þessi undarlegi áhugi sem virðist rjúka af leikhópnum, nema allir séu bara betri í sínu fagi en maður heldur, sem hristir burt of mikinn kjánahroll þegar þau eru til staðar, en þarna á mest við þá Ewan McGregor og Paul Bettany. Grey kallarnir fastir í miskunnarlausum endurtekningum, en líta hvað best út eins og þeir séu að fíla sig í botn. Jeff Goldblum fær að auki að sýna smálit.

Ég held að það sé alveg sama hversu mikið nokkur áhorfandi getur slysast til þess að hafa virklega gaman af Mortdecai, það mun aldrei slá út hégóma eða sjálfsaðdáun flestra aðstandenda á bakvið hana, þar meðaltalinn aðalleikarinn (enda einn framleiðandinn) og umfram allt leikstjórinn.

gwyneth paltrow and johnny depp_ MORTDECAI_0

David Koepp hefur alltaf verið nógu mistækur sem handritshöfundur að mínu mati (og hefur sveiflast frá fíneríum eins og Death Becomes Her, Jurassic Park og Panic Room til mestmegnis miðjumoða og týndra tækifæra það sem eftir situr út listann). Sem leikstjóri er hann ekkert spes, þó kannski Premium Rush hafi komið á óvart. Mortdecai er fyrsta myndin sem hann leikstýrir sjálfur án þess að hafa sjálfur skrifað. Hún hefur umfram allt aðeins meiri karakter og visjúal stíl í sér heldur en meirihluti lafþunna gamanmynda, annars lítið sem gengur upp þegar rest er svona úldin.

Það er sama hvaða sterku drykki ég gæti sturtað í mig, þessi mynd yrði aldrei neitt fyndnari – og enn ca. 20 mínútum of löng.

fjarki

Besta senan:
Í lyftunni.

Sammála/ósammála?