Jupiter Ascending

Hér er eitt stórmerkilegt klúður! Títanísk, „frumsamin“ sci-fi fantasía sem springur úr metnaði, hugmyndaflugi og lumbrar mann niður með orkuríku sjónarspili – en að hér um bil öllu öðru leyti í ólgandi tjóni. Innihaldslega mjög þvæld í samsetningu, bæði high concept vísindaskáldsaga og tilfinningadauður, heilalaus poppkornsrússíbani í einu. Ímyndið ykkur hvernig fór með Dune-myndina frá Lynch á sínum tíma, látið eins og hún hafi verið gerð fyrir 12 ára unglinga og þá er komin smá heildarmynd af því hvernig þessi er.

Í rauninni er ég einn af þeim sem hef alltaf kunnað betur að meta Wachowski-systkinin en flestir. Metnað þeirra, hasarhæfileika, japönsku áhrifin, nördaástríðu og óttaleysi við stórar pælingar og (sérstaklega í þessu tilfelli) massív kjánalegheit. Frá Matrix og meingölluðu framhaldsmyndunum til hinnar vanmetnu BoundSpeed Racer (enn vanmetnari) eða Cloud Atlas (einstaka og umdeilda meistaraverkið sem hún er…); dúóið kann að hugsa stórt og gefa stóran hluta af sjálfum sér með töffaraskap og sál, hvort sem afraksturinn heppnast eða ekki.

Jupiter Ascending er hryllilegt skref aftur fyrir systkinin. Alveg sama hversu útlitslega geðsjúk hún er og feli í sér sitt og hvað af fínum atriðum er þetta afbragðsgott demó á verstu einkennum þeirra, margfölduðum með þremur og stillt upp í færibandsuppskrift.

jupe

Keyrslan þýtur, hasarinn manískur og vantar ekki áhuga fyrir úthugsaðri veraldarbyggingu eða yfirþyrmandi fegurð í hönnun, sviðsmyndum og búningum. Systkinin hafa kannski aldrei verið beinlínis frumleg en snjallir stílistar yfirleitt. Hins vegar ganga þau miklu lengra en nokkru sinni fyrr í listinni að stela frá sjálfum sér.

Nógu svekkjandi er hversu mikið beinagrindin er tekin úr fyrstu Matrix; mótiveringar í plotti og aðrar hugmyndir, en síðan bætast við ljótar klisjur og enn ruglaðra samansafn af lummulegum endurtekningum (REYNIÐ að telja hversu oft einhverjum er bjargað frá öruggum dauða á allra síðustu sekúndu…). Það er ekkert út á brellur að setja en tónlistin frá Michael Giacchino – sem er vanalega með þeim áreiðanlegri – er misgóð og verða ýmis stór atriði nokkuð „off“ á verstu stöðum. Annars vegar virkar myndin ekki þegar hún reynir að vera fyndin og verður síðan enn hlægilegri þegar hún tekur sig mest alvarlega.

sveinn

Ofbakaða – en jafnframt vannærða – handritið veður klígjulegum samtölum, og vegna þess að sagan er svona breið og þjöppuð í mauk á þessum tveimur klukkutímum finnst mjög takmarkaður tími til þess að vinna betur í karakterum eða bakgrunni. Eftir standa þess vegna óspennandi teiknifígúrur, gjarnan hallærislegar, tvívíðar eða hvort tveggja. Þjöppun frásagnarinnar og umfangsmikli heimurinn býður hreinlega ekki upp á annað en taumlausa exposition-dælingu, hasar og stærri hasar – sem er mestallur álíka tómur og hann er trylltur. Leikararnir gera hvað sem þeir geta í persónum sem eru ágætlega uppteiknaðar í vissum einfaldleika en á sama tíma eru allir á skjánum frekar bragðlausir. Nema einn!

JupiterAscendingRedmayneKunis

Mila Kunis er í miklu uppáhaldi hjá mér en kolvitlaus manneskja fyrir þessa tilteknu mynd. Það hjálpar þessu miscast-i ekkert hvað aðalpersónan Jupiter er sjálf illa skrifuð, með þann hæfileika að taka oft mjög óskiljanlegar ákvarðanir, og lendir síðan í klípu trekk í trekk, bíðandi eftir að Töfra-Mike komi og bjargi sér. Neistin á milli hennar og Channing Tatum er hvergi finnanlegur. Tatum sjálfur, skautandi í loftinu og undarlega mikið ber að ofan, er hvorki of hallærislegur með þessi álfaeyru né svalur í hetjulátunum, en verra gæti hann gert en að lenda einhvers staðar þarna á milli.

Besti leikarinn á skjánum er umhugsunarlaust hann Eddie Redmayne. Það þýðir ekki endilega að hann sé góður en alveg heilum stjarnvíddum ofar en flestir jafningjar sínir þegar það kemur að því að lifa sig inn í veröldina. Annaðhvort er hann mest sannfærður um að hann sé staddur í hágæðaræmu eða sé bara ÞAÐ góður að týna sér í absúrd ofleik þar sem hann hvíslar, hvíslar… ÖSKRAR, hvíslar svo aftur, o.s.frv. Þetta er svo slæm frammistaða að hún fer ósjálfrátt gæðahringinn og verður hreinlega hálf mögnuð.

Aðrir leikarar gegna sínu sem prýðisuppfylling, þ.á.m. Douglas Booth og Sean Bean. Breska leikkonan Tuppence Middleton finnst mér geisla persónulega mest af en það á við um aðeins örfáu atriði hennar áður en handritið slúttar hennar tíma án nánari útskýringa. Hvað alla dýptarvotta varðar eru þó allir karakterar skilyrðislaust meira spennandi heldur en Jupiter. Ekkert við hana kveikir upp neina tengingu og ég skil heldur ekki hvaðan sú ákvörðun kom að kynna fjölskyldu hennar sem skissulega sitcom-trúða þegar þeir eiga síðar að skipta sögunni máli á dramatískari nótum seinna meir.

get-futuristic-jupiter-ascending-2014-mila-kunis-and-channing-tatum-official-movie-trailer-poster-2

Heppilega sést hver einasti dollari (af $175 milljóna prís…) á skjánum. Í tæknilegum skilningi er effortið gott en það er ekkert minna gagn í Jupiter Ascending heldur en Total Recall-endurgerðinni, svona ef við skoðum hvernig Hollywood hefur verið að kasta út féi til sci-fi hasarmynda. Eins og það er nú alltaf jákvætt að sjá „frumsamið“ framlag til geirans skil ég ekki hvernig svona tætt og léleg lokavara slapp í gegn fyrir þennan pening, frá akkúrat sama fólkinu og umturnaði „kúlinu“ í kvikmyndasögunni rétt fyrir aldamót.

Metin sem sjónræn og pökkuð hasarsteypa er kannski hægt að finna „guilty pleasure“ gildi í Jupiter Ascending, en tónninn, samsetningin og klisjufjöldinn ætlast til alltof mikils af áhorfendum sínum. Alltaf er gaman að sjá systkinin leika sér með svona stóra striga en held ég að þau hafi bara ágætlega gott af því að minnka við sig í framtíðinni.

fjarki

Besta senan:
Eltingarleikurinn í Chicago.

PS. Ef þér líður eins og myndin minni þig á Brazil á sumum stöðum, þá – með aðeins einu ómetanlegu gestahlutverki – sjá leikstjórarnir til þess að það sé alls engin tilviljun.

Sammála/ósammála?