Fifty Shades of Grey

Fifty Shades of Grey-myndin var frá upphafsstigi í þeirri sjaldgæfu aðstöðu að geta orðið betri en bókin sem hún er byggð á, sökum þess hvað ritstíllinn einn og sér var nógu vandræðalega vondur og gelgjulegur, svo eitthvað sé nefnt.

Það þurfti varla meira til að krydda þetta aðeins upp fyrir tjaldið en að fá ásættanlega leikara í rullurnar og hæfileikaríka leikstýru eins og Sam Taylor-Johnson (sjá hina þrusugóðu Nowhere Boy). En þá kemur spurningin: sættir markhópurinn sig við hálfgelda aðlögun svo úr henni verður þá ,,betri“, snyrtilegri bíóútfærsla eða sækir hann bara í svipuhögg og sveitt smáatriði í sem mestu magni?

hr_Fifty_Shades_of_Grey_11

Kosturinn annars fyrir leikstjórnina hjá Taylor-Johnson er að hún tekur bæði efnið mátulega alvarlega og reynir að fá allt sem hún getur út úr skjáparinu sínu. Að auki fær maður tilfinninguna fyrir því að hún leyfi sér að grínast með hallærisleikann líka. Vandinn er bara sá að maður þekkir ekki alltaf muninn.

Þegar sagan svokallaða er strípuð niður af því sem er stærsti sölupunktur (og ,,merkilegheit“) bókarinnar verður það bara enn meira áberandi hvað innihaldið er loftkennt og sneisafullt af frústrerandi endurtekningum, og það er mikið sagt þegar ekkert af því hefur með lostaleikinn að gera. Síðan koma asnalegir yfirtónar og enn vafasamari undirtónar.

Sannfærandi og lúmskt heillandi er upprennandi leikkonan Dakota Johnson (Dóttir Dons, og Melanie Griffith, barnabarn Tippi Hedren) í hlutverkinu sem er bæði meira krefjandi og býður upp á meiri útgeislun og fjölbreytni. Hvorugri persónunni er annars vegar viðbjargandi á pappír.

Jamie Dornan hefur sennilega útlitið en er voða einnóta og í ströggli við sinn eigin hreim í sjálfumgleðinni sem Hr. Grey, hinni abstrakt samsuðu af Patrick Bateman og Edward Cullen. Svo tapar hann hálfum trúverðugleikanum um leið og greddufrasar hans verða ósjálfrátt að bröndurum, og lítið skárri er það þegar hann „opnar“ sig. Dornan og Johnson kveikja svo sem ekkert í bíótjaldinu, hvernig sem það hefði getað gerst, en þau smella alveg.

635593523588983314-AP-Fifty-Shades-Opposition

Engin furða er að klámið sé kjarninn þegar söguþráðurinn gengur ekki út á annað en þjáða, kalda, moldríka, og pervertíska heimtufrekju sem reynir allt sem hægt er til að sannfæra sakleysislegu hreina meyjuna um að fá að binda hana niður, flengja og fíla það í tætlur. Þar að auki vill hann eigna sér hana eftir bestu getu og stjórna henni á fleiri stöðum en þar sem öryggisorð eru ekki í boði. Er það annars normalt að 21 árs gamlar, háskólamenntaðar stelpur viti sama og ekkert hvað BDSM er?

Samanlagðar eru einhverjar 15 mínútur af kynlífssenum í tveggja tíma mynd. Smekklega skotið og gert allt, augljóslega líflegra en flest öll samskipti parsins utan rúmsins, og einn hápunkturinn fylgir undarlega flottri notkun á nýja Crazy in Love mixinu hjá Beyoncé – en ,,sexí“ er alls ekki fyrsta (annað eða þriðja…) orðið sem kemur upp í hugann. Leikstýran tók samt rétta ákvörðun með að fjölga ekki meira í þessu en hún gerði, höfundinum víst til mikillar óánægju. Ég get þó sagt að það sem sjokkeraði mig persónulega mest við Fifty Shades of Grey var þegar ég sá Danny Elfman kreditaðan fyrir tónlistarstefið…

sex-scene-fifty-shades-of-grey

Nóg er um nekt og léttbláar nærmyndir (sorrý stelpur, litli Grey sést að mestu falinn), en ekki neitt sem skarar mikið lengra fram úr því sem flestir HBO-framleiddir þættir hafa komist upp með. Trúlega mun pásu- og Fast Forward-takkinn gagnast vissum hópum þegar myndin verður gefin út á vídeó.

Fifty Shades of Grey er hvorki tælandi né skemmtilega ,,kinkí“, hvað þá athyglisverð sem eins konar brengluð rómantík eða skilaboðasaga um dómineringu eða reip-fantasíur. Endirinn er líka svo linur (segjum „anti-klæmax“) að maður getur ekki annað yppt öxlum þegar lokatextinn byrjar. Tilhugsunin um að til séu tvær aðrar bækur er trúlega mesta pyntingin, en Johnson á alveg sitt hrós skilið.

fjarki
Besta senan:
„Viðskiptafundurinn.“

Ein athugasemd við “Fifty Shades of Grey

Sammála/ósammála?