Kingsman: The Secret Service

Matthew Vaughn er óstöðvandi þegar hann er í stuði. Hann er líka sá gæi sem ætlast ekki til neins af áhorfendum sínum annað en þorsti fyrir hreinræktaðri afþreyingu sem tekur sig aldrei of alvarlega, hvort sem hún er brútal glæpamynd, fantasía, ofurhetjumynd eða villtur kokteill af þessu þrennu.

Kingsman: The Secret Service virkar á mig eins og hún sé klæðskerasniðin handa Vaughn; mynd sem býður upp á að allar bestu hliðar hans njóti sín á einn hátt eða annan, helst í hágír, og breska blóðið rennur með stolti í gegnum æðar hennar. Hér er að auki mikill áhugi fyrir ákveðnum formúlum og því markmiði að snúa þeim svolítið á haus. Þessi mynd er ekki geðveik… hún er SNAR.

kingss

Töff, snilldarlega yfirdrifin, með dökkan húmor og hreinlega bara tussuskemmtileg. Svona brakandi fersk sameining á gamalli (segjum Roger Moore-era) Bond-mynd og Kick-Ass með smá af sínum eigin sjarma í kaupbæti – og örlitlu „social commentary-i“ á stéttamismun með í mixinu.

Mark Millar er yfirleitt eins öflugur hugmyndasmiður og hann er óeðlilega sjúkur en Vaughn (sem skrifar aftur handritsaðlögun á bók Millars með fastapennanum Jane Goldman) virðist vera með sterkt auga fyrir því að filtera út galla Millars og hvernig hann háttar sögum sínum. Vaughn er allur í því að vitna í alls konar bíómyndir en kemur með harðan stans á því að sjálfur njósnari hennar hátignar getur alveg svínvirkað í ýktum kjánagangi ef rétt er farið að, og þessi veisla kemur með ágætis rök fyrir því.

En af þeim hundruðu „Bond-grínmyndum/eftirhermum“ sem maður hefur þurft oft að þola og óskað gjarnan eftir því að einn daginn myndi einhver taka ofbeldið á miklu harðara level, kemur þessi eins og kölluð. Væri annars ekki fyrir svona teiknimyndalegan tón myndi ofbeldið trúlega hitta á einhverja taug. Á annan veg er það tvennt sem lætur Kingsman ganga mest upp, fyrir utan attitjúdið, púlsinn og hnyttnina: hún þorir að taka sénsa og sýnir svo hvernig Colin Firth getur verið svalari með einni regnhlíf að vopni (eða staddur í kirkju…) heldur en flestar reyndu hasarstjörnur síðustu missera.

Kingsman_Firth2

Firth stelur algjörlega senunni með sínum klikkuðu hápunktum og naglharða herramanni sem hann leikur (það eina sem getur jafnað þennan mann er aðeins ein sena með… öh… segjum „litasprengju“). Nýliði, lærlingur hans og hugsanlegi arftaki, Taron Egerton, kemur sömuleiðis stórvel út og eins fjölhæfur og hlutverkið krefst af honum í heildina. Mark Strong, Sophie Cookson, Michael Caine, „blade runner“ stúlkan og hressilega þmámæltur Þamuel L. Jackþon eru öll í þrusugóðum gír. Ekkert leiðinlegt heldur að fá uppfyllingar frá m.a. Jack DavenportMark Hamill og magnaðan brandara á kostnað erfðaprinsessu Svíþjóðar. Eitt af lokaskotum myndarinnar gerir staðreyndina stórfyndna að myndin skuli vera tileinkuð móður leikstjórans.

Hver leikari heldur takti við andann sem kemur frá rammþéttri samsetningu Vaughns. Myndirnar hans eiga það alltaf sameiginlegt að vera vel klipptar, flott skotnar, kóríógraffaðar og með hreint og beint geggjaða músíknotkun. Kingsman er alls engin undantekning og, ef eitthvað, spýtir þar meira í sína lófa, en aftur á móti dregur hún líka þann fasta ókost á eftir sér að tölvubrellur eru í langflestum tilfellum áberandi og stundum óslípaðar. Þær sleppa samt hjá því leikstjórinn leyfir sér alltaf að hugsa aðeins stærra en fjármagnið hans leyfir, á góðan hátt.

44948-fifty-shades-of-grey-fifty-shades-of-grey-wallpaper

Sama hve ýktar aðstæður verða er Vaughn alltaf meðvitaður um að taka persónurnar sínar alvarlega, og þar með fylgir einhver týpa af sál (Millar, annars vegar, er skítsama um allt svoleiðis á venjulegum basis og hefur aldrei kunnað að sýna karakterum sínum umhyggju). Kingsman hefur sitt um mannasiði að segja en mannúðleikanum tapar hún sem betur fer ekki þegar hann gluggar upp.

Ég held að ég hafi aldrei verið gerð eins skörp og brjálæðislega fjörug skopstæling á eldri Bond/spæjaraformúlunni sem sýnir henni samt svo sjentilmannalega virðingu á sama tíma. Kingsman er stílísk, óskömmustulega nastí og býr yfir miklum karakter; hér um bil allt sem hún vill vera. Gaman!

atta

Besta senan:
Kirkjan maður, kirkjan!

3 athugasemdir við “Kingsman: The Secret Service

  1. KIRKJAN! var þetta tekið upp sem óhugnalega vel kóríógrafað one shot?

  2. Hjalti: Þetta var „falið“ one-shot skilst mér (kannski 2-3 bútar?), Birdman-stæl :) Magnað kóríógraff! sami gæi víst og vann að Kick-Ass og Scott Pilgrim.

  3. ok, á ennþá eftir að sjá Birdman en hinar tvær þekki ég vel. Fæ ennþá smá gæsahúð þegar ég hugsa um þetta atriði, það og flugeldasýningin á eftir að verða til þess að ég fer örugglega aftur á hana.

Sammála/ósammála?