Birdman or (The Unexpected Virtue of Ignorance)

Hér er mynd sem kemur eins og ferskur vindgustur á prímstundu, og gengur þá viðkvæmu línu snilldarlega að vafra á milli tilgerðarleikans og sjálfumgleðinnar, enda er allt svoleiðis tekið til umfjöllunnar, auk frægðar, eftirsjáar, tilvistarkrísu, ástar, aðdáunnar og leiklistarinnar eins og hún leggur sig. Þetta er kvikmyndagerð sem kallar á orðið ‘Bravó!’.

Mexíkanski dramafíkillinn Alejandro Gonzáles Iñárritu hefur tekið sínar sveiflur á reyndar traustum ferli en hefur skilyrðislaust mótað sína aðdáunarverðustu, skemmtilegustu, hressustu, bestu og mest trippí/dáleiðandi dramamynd til þessa. Dökk, tens en aldrei of alvarleg; Birdman or (The Unexpected Virtue of Ignorance) er bráðfyndin og alvörugefin baksviðs-/bransaádeila, skondin stúdering á mildri geðveiki og heldur einstök sýn á glímu eins manns við eigið egó og mikilvægi. Sá maður er óaðfinnanlega leikinn af (hinum ávallt ánægjulega) Michael Keaton, sama og sérsniðinn fyrir hlutverkið – og ekki bara af augljósu Batman-tengdu ástæðunum. En miðað við hvað hann leggur mikið á sig og breiðir getu sína út fyrir þetta stóra „kombakk“ sem leikari má alls ekki hundsa metafóruna í tengingunni…

image

Riggan Thomson er það sem mætti líta á sem ýktari, eigingjarnari útgáfu af Keaton, og í sjálfu sér á hann meira sameiginlegt með MacBeth heldur en lífi leikarans. Meingallaður, manneskjulegur karakter sem er eins óviðkunnanlegur og hann er lúmskt sympatískur, og handritið vefur endi og úrlausn sögunnar með frábærlega tvísýnum hætti eftir hvort álitið hver áhorfandi hefur á honum. Leikstjórinn sér um að togstreitan og pressan sem hvílir á Riggan sé sama og áþreifanleg allan tímann, og alter-egóið hans, „Fuglamaðurinn“, er brilliant leið til þess að koma okkur beint í kollinn á honum. Stíllinn og framsetningin hjá Iñárritu innsiglar meistaralega þennan þrönga, sturlaða veraldarhjúp, vaxandi áhyggjur og veruleikatap Riggans, en Keaton blæs nákvæmlega öllu lífi í þennan mann.

Keaton er annars vegar endalaust umkringdur jafningjum, hvort sem á við Edward Norton, Emmu Stone eða (yndislega óvæntan) Zack Galifinakis jafnvel. Allir hafa sitt fram að færa og gera sinn tíma eða karakter – sama hversu smár. Þar koma upp Naomi Watts, Andrea Riseborough, Amy Ryan og Lindsay Duncan sem vægðalaus gagnrýnandi með eitthvað langt aftan í skottinu á sér – en æðisleg.

still-of-michael-keaton-and-edward-norton-in-birdman-(2014)-large-picture

Kamerumaðurinn á ekkert minna hrós skilið fyrir sig heldur en leikhópurinn lagður saman. Ákvörðunin að sýna hér um bil alla myndina í einni „óslitinni“ töku fangar svo vel þennan áðurnefnda tens-leika í andrúmsloftinu og gefur myndinni sjokkerandi magnað, últra-skipulagt yfirbragð (trommutónlistin fittar einnig glæsilega við), auk þess að blörra skemmtilega út allt tímaskyn um leið og fikta með senuskiptingar á hugmyndaríkan máta. Iñárritu sýnir þarna líka hversu mikið traust hann hefur til rennsli innihaldsins og hve mikilvæg hver sena er. Eins og maður dáðist ekki nóg af stórmeistaranum Emmanuel Lubezki þegar hann tæklaði langlokuskotin í Children of Men eða Gravity, þá kemur hann og toppar allan ferilinn sinn með einni sveiflu og allt öðrum Mexíkana!

Niðurstaðan hjá þessari þrælskipulögðu tilraun leikstjórans og Lubezki er eins og lifandi bíóleikhús í orðsins fyllstu merkingu, og þetta heldur svo flottu, fitusnauðu flæði – en án þess að svindla á dýptinni – að tökustíllinn auglýsir sig aldrei of mikið eða dregur mann úr skjánum.

bird

Birdman hefur klær fyrst og fremst, og í kaupbæti margar hressar skoðanir á leikhússsnobbum, gagnrýnendum og heimskuvæðingu ofurhetjumynda í Hollywood. Það er sjóðandi útrás í þessu handriti en húmorinn og einlægnin lætur hana virka. Engu að síður stórmerkilegt að sjá gamla-Batman, fyrrverandi-Hulk og kærustu Spider-Man að leika úr sér vitið og þrasa saman í mynd sem á einn veg fyrirlítur ofurhetjumyndir.

Myndin flýgur algjörlega í vægðaleysi sínu, hugrekki, afþreyingargildi og fagmennsku. Frá fyrsta rammanum til umræðuverða lokaskotsins, Birdman er ein af þeim sem allir áhugamenn kvikmynda (og leikhúss?) þurfa að sjá. Flest sem hún hefur að segja er allt á yfirborðinu en það er fullt til krufninga og að mínu mati ómögulegt að augun af þessum leikurum, þó kameran sjái reyndar svolítið um það fyrir mann að vera oft með andlitið ofan í þeim. En hvílíkt sjó!

ficht

Besta senan:
Batman og Hulk í slag. Times Square-takan er sömuleiðis brill.
Og endirinn.

Sammála/ósammála?