The Theory of Everything

Einhvers staðar er hérna grafin inni ótrúlega frábær mynd um stórmerkilegan mann; hún er óaðfinnanlega leikin og vel unnin á tæknilegu stigi en þegar hún skautar svona í gegnum marga kafla í lífi mannsins og gefur fleiri grátskipanir heldur en að velta sér upp úr mikilli innsýn eða dýpt. Yfirborð á gæðastalli en innihaldsbyggingu á pari við meðalgóða sjónvarpsmynd.

Engu að síður inspírerandi, upplífgandi mynd að eðlisfari og áhrifarík á pörtum. En ef mynd um líkamlegu hraðahindranir og heimiliserfiði ofurheilans Stephen Hawking tekst ekki að ná slíkum áhrifum, þá fór eitthvað virkilega, virkilega úrskeiðis.

Leikstjóranum til mikils hróss er The Theory of Everything laus við mestan væmnissykur en það er sömuleiðis kredit sem fer til Jóhanns Jóhannssonar (sem seinast brilleraði með lágstemmda skorið sitt í Prisoners). Myndin hefur blíðan melódramatón sem heldur utan um smekklega meðhöndlaða aðdáun og sympatíu í garð Hawkings án þess að fara yfir strikið á báðum endum. Efniviðurinn býður líka upp á skemmtilegar reipitogsrökræður um vísindi gegn trú. Myndin tapar samt á þeirri óþörfu ákvörðun að taka afstöðu sem eru ekki beinlínis í takt við skoðanir rétta mannsins. Ekki að það skipti *of* miklu…

The-Theory-of-Everything-New-Picture

James Marsh (leikstjórinn sem m.a. gerði skylduáhorfið (!) Man on Wire – sem fjallar LÍKA um ótakmarkað merkilegan mann) hefur myndað náið bond við leikaranna sína. Hann hengir myndina alla á axlir skjáparsins, og hittir þar mest í mark. Umfjöllunarefnið er magnað en til þess eru bækur hans, heimildarmyndir, YouTube-klippur og Wikipedia-síður til að fræðast um manninn og hans fordæmislausu verk. Hér eru það Eddie Redmayne og Felicia Jones sem halda manni mest límdum – sökum þess hversu mörgu hefur verið slúttað. En þess virði er líka að nefna Charlie Cox, Emily Watson, David Thewlis og Maxine Peake, sem eru hver öðrum viðkunnanlegri og græjar heildinni eitthvað smá auka með sandpappírsþunnar rullur.

eddie-redmayne-1024

Redmayne hefur rétta útlitið og tapar sér í snilldarlega stúderaðri eftirhermu, með smá af sínum eigin vandræðalega sjarma. Samtölin eru vel skrifuð en handritið finnur ekki nægan fókus til þess að leikarinn hafi mikið til að vinna með, og skiljanlega fylgja hlutverkinu ýmsar krefjandi endurtekningar. En frekar en að koma okkur betur í þennan einstaka og marglaga huga Hawkings er í staðinn bara spilað einfaldleika narratívunnar í botn. Hún Jones er á annan veg sterk og er hennar hlutverk ekkert auðveldara, þó það komi út eins og ýmsir hlunkar úr persónusköpun hennar hafi orðið eftir á klippigólfinu.

Það liggur einlæg nálgun í því að einblína almest á samband Hawkings við eiginkonu sína, Jane Wilde (myndin er að mestu byggð á bók hennar, Travelling to Infinity: My Life with Stephen) – frá fyrstu krútthittingunum til skilnaðarins og hvernig líf þeirra beggja tók átakanlegar breytingar eftir að hann greindist með hreyfitaugungahrörnun, aðeins 21 árs. Hægt væri að gera sér (biopic-)kvikmynd um afrek, kenningar og ævistarf Hawkings og eins heila slíka um bara tengsl hjónanna, baráttur og foreldrahlutverk (sumsé ástar- og fjölskyldusagan) – en að kremja þeim báðum saman niður í eina lýður heildin jafnmikið fyrir það og hún gefur.

Það væri þó ekki það vitlausasta í heimi að para þessa saman við sjónvarpsmyndina Hawking frá 2004, þegar Benedict Cumberbatch lék hann á yngri árunum áður en sjúkdómurinn náði fullu valdi. Sú mynd er kannski ekki eins falleg, breið í umgjörð og tímaramma en dekkar aðra hlið af honum með áhugaverðum hætti sem vert er að mæla með, rétt svo.

The Theory of Everything er fínt meðal fyrir sálina, lítið meir. Hún kemur skilaboðunum sterkt og ánægjulega til skila en mátti skipta betur út rjómalagaðri einlægni fyrir meira brútal hreinskilni. Fyrir leikaranna stórglæsilegur stökkpallur í sýnileika en ég er viss um að það hefði alveg verið hægt að gera eftirminnilegri, kröftugri og hnitmiðari dramamynd um Hawking en þessa.

sexa

Besta senan:
Lokaræðan. Ljúf.

Senan með Hawking og klámblaðið kætti einnig og dró út viðtengjanlegri mannskepnu í honum. Setur allavega glottið hans í nýtt samhengi.

Sammála/ósammála?