Annie (2014)

Með fullri (segjum) virðingu fyrir „sígildu“ lögunum, jákvæðu gildunum, yfirþyrmandi krútt-sjarmanum og boðskapnum, þá hefur Annie-söngleikurinn, sama í hvernig formi, aldrei verið mín týpa af regnbogasykri, og lögin ásækja mig meira en ég hef sóst í þau í gegnum árin.

Breyting á sögusviðinu, húðlitnum eða framvindunni er aukaatriði, en engin nútímauppfærsla getur breytt áliti þeirra sem þola ekki þessa söngóðu, hjartahlýju stúlku nú þegar, eins mikið og andinn gengur út á það að kasta burt allri svartsýni og fylla hjartað af kærleika (…og miklum materialisma!). Nýja útgáfan gerir þetta miskunnarlaust.

still-of-jamie-foxx-rose-byrne-and-quvenzhanc3a9-wallis-in-annie-2014-large-picture

Á einn veg er þessi mynd allt sem hún á og vill að vera, einföld, æpandi og góðviljug en á hinn bóginn sætindaeitur fyrir króníska fýlupúka, en réttlætanlega. Sjálfur get ég ekki neitað því að stundum getur hún verið afar viðkunnanleg en tollurinn fyrir því tekur svakalega á þegar upp er staðið. Og ef það er ekki yfirdrifna melódramað þá er það ofleikurinn frá alveg absólút óþolandi Cameron Diaz.

Will Gluck er greinilega hress leikstjóri sem er fullmeðvitaður um lummuleikann í öllu sem hann tekur að sér, en með hverri mynd verður hann sífellt staðlaðri (Easy A er t.d. frábærlega fersk og Friends with Benefits betri en standard rómó-gamanmyndir en auðgleymd klisja samt). Með Annie sparar hann ekki orkuna, finnur sér ágætan takt og mýkir hann sig allsvakalega upp. Hann faðmar kjánaleikanum þétt að sér með manískri gleði og reynir að hafa húmor fyrir efninu um leið. Eitthvað tæklast það stundum hálfpínlega, eins og myndin skammist sín pínu fyrir það að vera söngleikur og finnist hún þurfa að andvarpa/kommenta á það eins oft og hún getur.

maxresdefault (2)

Í fáein skipti hittir þessi húmor í mark (besta grínið kemur úr Twilight-legri „mynd-inn-í-mynd“*), en síðan er bara takmarkað mikil froðu- og formúluvæmni sem hægt er að þola í söngvamynd sem hefur misskemmtileg lög og sérstaklega nokkra leikara sem geta barasta ekkert sungið (Diaz, aftur, er þar á meðal). Kóríógraffið er heldur ekkert til að hrópa húrra fyrir og duldu kapítalisma-fyrirlestrar skilja eftir virkilega vont eftirbragð.

Lögin eldast fínt og þola flutninginn yfir í nútímann en ekki sagan eing og búið er að stilla hana upp. Ákveðnir sögupunktar, nýir og gamlir, verða bara klisjukenndari eða þvingaðri án þess að því sé viðbjargandi. Það er skemmtilegt að sjá hvernig hún þræðir samskiptamiðlaöldina í söguna en að mestu er ég bara þakklátur fyrir það hvað heimurinn slapp undan mikilli katastrófu þegar dekurdívan Willow Smith neyddist til þess að afþakka titilhlutverkið (enda foreldrar hennar framleiðendur, auk Jay Z – segir margt)…

9457466_1280x720

Quvenzhané Wallis, sú stutta sem stóð sig eins og hetja í Beasts of the Southern Wild passar þarna ágætlega… fyrir utan þann íþyngjandi ókost að syngja ekkert sérlega vel.  En hvergi vottur af óöryggi hjá þessari stelpu, sem annars hvorki bræðir né pirrar. Jamie Foxx er annars vegar ástæðan fyrir því að myndin er eitthvað að lágmarki þess virði að horfa á. Pínu fyndinn, lúðalega sjarmerandi, í óstöðvandi stuði og sá eini með einhverja fínísseraða söngrödd. Rose Byrne er sýnir smá lit og karakter, örlítið stirð af og til en fær að tapa sér í fjörugasta söngnúmerinu. Bobby Cannavale („Let’s get into a leaf fight!“) er fínn í sprellinu að auki.

Annie, eins og hún hefur alltaf gert, nær auðveldlega til jafnaldra sinna, kynsystra sinna og annarra aðdáenda sem geta sagst elska „Tomorrow“ án þess að hika. Þeir sem hafa aldrei horft á hana áður eiga von á mikilli kjánhrollsáhættu og gætu lögin fests á heilanum og dúsað í smátíma, en þau eru reyndar ekki mörg. Hvorki versta né skásta Annie-myndin sem ég hef þraukað gegnum (það mun vera sjónvarpsmyndin með Kathy Bates), en lítið gagn í henni.

fimm

Besta senan:
Frumsýningin á „MoonQuake Lake“, feik-gelgjufantasíumyndinni með Ashton Kutcher og Milu Kunis.

*Þetta er í annað sinn sem Gluck skýtur inn nöfnum leikstjóradúósins Phil Lord og Chris Miller (Cloudy, Jump Street, Lego). En allir þrír sameinuðu eitt sinn krafta sína í óbærilega viðurstyggð að nafni Extreme Movie.

PS. 2014 var skelfilegt ár fyrir Diaz. Er það hennar refsing fyrir að serða bifreið í The Counselor?

Sammála/ósammála?