Chappie

District 9 er óumdeilanlega geðveik. En nú er rútína leikstjórans, að minna mig endalaust á það hversu góð hún er, löngu hætt að vera fyndin. Þetta er úti um allt orðið: í efnistökum, í stíl, plottstefnum, persónusköpun. Ef Neill Blomkamp á að þrepa sig aftur upp þarf hann að hætta að endurtaka sjálfan sig svona mikið, eða tapa sér eingöngu í hugmyndum. En öll merki vísa til þess að ef honum á að takast að gera frábæra mynd aftur, þá á helst einhver annar að sjá um handritið.

Elysium var ekki alslæm afþreying, aðallega þökk sé lúkki og keyrslu – en hún var á marga vegu bara pússaðri D9-endurgerð. Á blaði er margt sem gengur upp í Chappie, en ekki hvernig heildin hangir saman. Tónalega í tjóni og erfitt er hægt að taka hana alvarlega þegar hún sýnir útúrtjúnuðum og misheppnuðum húmor svona mikinn fókus) Hún vill vera hrá, dökk, áhrifarík, þýðingarmikil, súrt fyndin og spennandi en verður að tómum graut og fellur strax í þá gryfju að dást mest að sínum eigin tvístruðu pælingum og einblína á yfirborðið.

chappie

Blomkamp skrifaði D9 með eiginkonu sinni, Terry Tatchell, og kenndu margir aðdáendur henni um feilspor Elysium, því Blomkamp skrifaði hana án hennar. Chappie afsannar nú þessa þeóríu því Tatchell hefur litlu tekist að bjarga. Þetta er trúlega ein heimskasta mynd sem hefur verið gerð til margra ára um gervigreind, eða að minnsta kosti í harðri samkeppni þar við Transcendence.

Chappie spyr fáeinar magnaðar „hvað ef…“ spurningar, auk margra, margra tengdum „mannlega“ þættinum sem hún nennir svo ekkert að svara. En hvað ef t.d. Johnny Five úr Short Circuit hefði verið byggður sem löggudróni úr RoboCop-endurgerðinni og „alinn“ upp af ruddalegum „gangstah“ krimmum? Hvað ef sú hugmynd væri sett á sömu beinagrind með svipuð visjúal-mótíf og D9?

52cd4151-cd66-4402-9eb9-afab1a14f2e0-620x372

Persónurnar eru allar djókþunnar og m.a.s. sjálfur Chappie virðist ekki alltaf vera samkvæmur sér sjálfum eða tilsettum reglum í handritinu. Sharlto Copley er heldur ekkert alveg að virka í titilhlutverkinu. Barnalegi tónn hans hentar vel í fyrri helming en verður bara þreytandi eftir því sem á líður.

Hinum endalaust viðkunnanlega Dev Patel er alveg sóað. Hugh Jackman skilur ekki eftir mikið impressjón annað en það að hann hegðar sér eins og heimtufrekur smákrakki með mini möllett-greiðslu sem er talsvert umræðuverðari heldur en hans yfirdrifni og hreint út sagt hlægilegi karakter.

hugh-jackman-sigourney-weaver-vow-to-destroy-chappie-in-trailer

Blomkamp virðist heldur ekki finna neitt fyrir greyið Sigourney Weaver til að gera, og virðist einungis hafa fengið hana í uppsprengt gestahlutverk af vegna þess að hún var eitt sinn drottning sci-fi geirans. Hún gerir nákvæmlega EKKERT í myndinni, og enn minna af gagni. Og henni finnst það virkilega vera góð hugmynd að gera glænýja Alien-mynd með Blomkamp??

Þá komum við að Die Antwoord vandamálinu… sem væri í sjálfu sér ekki mikið vandamál ef nærvera fríkaða rappdúósins Waddy Jones/Ninja og Yolandi Visser myndi ekki stöðugt kippa mann rakleiðis úr ímyndaða veruleika myndarinnar við hvert tækifæri. Það er gert þegar þau eru látin heita eigin nöfnum, eða tónlist þeirra er spiluð eða þegar Ninja gengur reglulega í bol til að plögga sínu eigin bandi. M.a.s. á einum tímapunkti er Yolandi klædd (…) í Chappie-bol! En það er þó ekki eins vont og vanafasta Sony-plöggið, og hér með er þetta fyrsta bíómynd sem ég sé sem prufar að þræða PS4 vélar inn í söguþráðinn.

Virgin_Mountain_Still

Hvorki Yolandi né Ninja eru reyndir leikarar. Stundum eru þau óþolandi en á öðrum tímapunktum sannfærandi þar sem þau gefa myndinni smá ruglaða orku. En að utanskyldum Copley fá þau – því miður – mestan skjátíma, og Blomkamp hefði alveg mátt vita betur en að hengja alla myndina á þau, og gerði stórmistök haldandi að karakerar þeirra myndu öðlast einhvern stuðning frá áhorfendum. Ég keypti aldrei þessa karaktera, eða í sjálfu sér var lítið sem ég keypti almennt, nema útlitið og tæknilega úrvinnslan á Chappie.

Blomkamp er alveg týndur á þemu og virðist vera lítt gefinn fyrir súbtexta eða vilja til að kanna aðeins undir yfirborðið með hugmyndir sínar. Þó sagan hans gerist enn eitt skiptið á heimaslóðum hans, Jóhannesarborg í S-Afríku, hefur hann slakað aðeins á social-pólitískum yfirtónum. En í staðinn kemur þung metafóra á uppeldi, tapað sakleysi, grunnhyggni fyrirtækja og hvernig það er að vera öðruvísi. Blomkamp, sem fyrr, tekur sleggju og hamrar þessu ofan í áhorfandann en virðist eiga vont með að leyfa heilli senu að líða hjá án þess að asnaskapur spretti upp enda plottbyggingin snappfull af holum.

chappie_a

Persónur taka ítrekað óskiljanlegar ákvarðanir og hvort sem þær hafa afleiðingar eða ekki veltur algjörlega á því hvort það henti söguþræðinum (af hverju er ENGIN öryggisgæsla hjá þessu öryggisfyrirtæki?!). Ég skal glaðlega slökkva á heilanum til þess að njóta ferðarinnar við gefið tækifæri, en erfiðara verður það þegar svona mikil áhersla er lögð á „alvöru heiminn,“ m.a. með sparlegum heimildarmyndarstíl sem virkar bara hreinlega ekki. Opnunarkaflinn er einkum furðu gagnslaus þar sem hvergi er varpað meira ljósi á hann seinna meir.

Chappie er fullmerkilegt klúður til að teljast til pjúrra leiðinda. Brellurnar eru meiriháttar og Blomkamp er vel æfður í hasarnum og vippar saman stakar kolbrjálaðar senur sem hitta í mark, svo mikið að það má næstum því sjá hvernig úr þessu hefði getað heppnast góð mynd. Hans Zimmer klikkar heldur ekki á tónlistinni þegar Die Antwoord er ekki í sjálfsagðri spilun. Blomkamp vona ég innilega að hann láti District 10 eiga sig. Með Chappie fær hann allavega nokkur örlát stig fyrir að „reyna.“

fjarki

Besta senan:
Elgurinn í essinu sínu, þ.e. eins konar túrbódrifinn ED-209.

Sammála/ósammála?