Fast & Furious 7

Það er til dæmigerð heimska í bíóhasar og síðan heimska sem umlykur svo tryllt vel gerða afþreyingu að maður nennir ekki að pæla í vondu samræðunum, sundurlausa söguþræðinum, útlits- og rembudýrkuninni eða ofurhetju-lógíkinni. Þú horfir ekki á sjöundu Fast & Furious myndina og gerir kröfur um innihald eða leiktilþrif, og myndin fellur rakleiðis í seinni kategoríuna.

Enn er stórmagnað hvernig þetta hefur þróast allt úr arfaslakri Point Break-eftirhermu yfir í einhvern skemtilegasta „hasarþríleik“ síðustu ára – 5, 6 og 7, allt á undan því hefur og verður fyrir mér bara uppfylling.

fast_and_furious-7_paul_walker_2

Þegar ég hélt að væri ekki hægt að toppa skriðdrekasenuna úr 6 eða flugbrautina endalausu kemur ástralsk-asíska indí-harðmennið James Wan (The Conjuring, Saw 1, Insidious 1 og (því miður) 2) og vippar út fleiri villtum stöntum og teiknimyndalegar uppákomur (bílar fljúga! vissuði það?) en heilinn á að ráða við á tveimur + klukkutímum. Þetta eru tveir þéttpakkaðir og snargeðveikir tímar.

Wan tekur frábærlega við stýrinu eftir að Justin Lin er búið að keyra þessu í alls konar áttir seinustu fjögur skiptin, gegnum ýmsar lægðir og miklar hæðir. Wan er að vísu ekkert mikið fyrir að fínstilla né tóna niður fyrirlestra um gildi fjölskyldna frá brómantísku testósterón-ísku sjónarhorni. En eitt besta hrósið sem myndin getur fengið frá tæknilegu sjónahorni að Lin er ekki mikið saknað. Þó það hafi vissulega hjálpað að bæta Jason Statham við líka…

Wan misstígur sig í sló-mói stundum, eins og hann kunni ekkert að nota það, en hasarsenurnar eru mátulega hraðar, sturlaðar og faglega gerðar. Það er aldrei rústað neinu með vondri klippingu eða titrandi skotum og finnur maður alltaf fyrir vissum alvar- og áþreifanleika þegar bílarnir eru á staðnum.

Capture9

Tölvubrellurnar eru ekki alltaf fullkomnar en vitanlega þarf að huga að því að mikil, kostnaðar- og smámunasöm aukavinna hefur farið í að fela mjög viðkvæma sauma með stafrænum Paul Walker og bræðrum hans sem hlupu í skarðið fyrir hann. Þegar banaslysið átti sér stað var hann víst rúmlega hálfnaður með tökur. Þessir reddingar-saumar sjást stundum en oftast finnur maður varla fyrir því þökk sé keyrslu myndarinnar, en ótrúlega vel tókst til að gera karakternum sem kom Walker fyrst á kortið góð skil í plottinu og skilja smekklega við hann með flottri og viðeigandi tribjút-kveðju í lokin.

Furious-7-2015-Stills

Tveir stærstu töffararnir í myndinni – Stattarinn og Kletturinn – þurfa mikið að víkja fyrir Vin Diesel þar sem hann er mest áberandi skallinn í sviðsljósinu. Eiginlega er hálf fúlt hvað Dwayne Johnson er lengi fjarverandi frá myndinni en hverja einustu mínútu nýtir hann í tætlur. Jason Statham fær ekki beinlínis mjög kjötaðan karakter en hann er reiður, og það er allt sem skiptir hér, býst ég við.

Svo eru hin; Rodriguez, Gibson, Ludacris, öll í stuði (Brewster annars vegar – sama og alltaf, mjeh…). Minn maður Kurt Russell fær að smeygja inn sinni hörku og gerast smá þátttakandi og Tony Jaa stekkur og lemur eins og hann kann best. Djimon Hounsou hefði svosem verið hægt að skipta út fyrir hvern sem er, en hann virðist lifa sig inn í sitt.

Urrið í vöðvaköggunum er í harðri samkeppni við þessa grjóthörðu testósterónsýningu. „Melódramað“ og díalógurinn dregur það oft niður, en það hefur hvort sem er aldrei verið neinn styrkur þessara mynda, en að minnsta kosti er reynt að halda utan um einhverja sál og væntumþykju innan um svona túrbókeyrðan einfaldleika – og sjálfsögð bikinískot auðvitað fylgihlutur.

Yndislega yfirdrifin, heimsk með steruðu stolti eða skemmtióðri ómeðvitund, Furious 7 er bókuð til að gefa aðdáendum seríunnar allt sem þeir ættu að vilja og meira og sé ég persónulega ekki fram hvernig framleiðendur geta toppað hana (síst af öllu ef Lucas Black verður dreginn lengra inn í þetta…) án þess að bílar og þotur fari að slást í lausu lofti. Paul hefði allavega orðið sáttur með þetta kvikindi. Það er á hreinu.

thessi

(Borderline 8)

Besta senan:
Kletturinn, byssurnar og hríðskotarinn!

Sammála/ósammála?